Rafvæðing véla í landbúnaði myndi auka fæðuöryggi
Höfundur: Hörður Kristjánsson
Ný skýrsla Rannsóknarmiðstöðvar Háskólans á Akureyri um markmið og forsendur sauðfjárræktarsamnings er mjög viðamikil. Hún tekur á mörgum spurningum og varpar upp enn fleirum varðandi afskipti ríkisins af þessari atvinnugrein.
Fram kemur í skýrslunni að á Íslandi hafi verið nokkuð breið sátt um að styrkja landbúnaðinn þrátt fyrir að deilt hafi verið um landbúnaðarkerfið linnulaust áratugum saman. Í skoðanakönnun 2007 sögðu 94% svarenda að frekar eða mjög miklu máli skipti að landbúnaður yrði stundaður á Íslandi til framtíðar (Capacent Gallup 2007). Árið 2010 var hlutfallið 96% (Capacent Gallup 2010).
Fæðuöryggi verði tryggt ef landið lokast
Fæðuöryggi er oft nefnt sem ástæða fyrir landbúnaðarstyrkjum á Íslandi. Fæðuöryggi snýst um aðgang að fæðu og að lágmarka hættu á fæðuskorti og hungri við ófyrirséðar aðstæður. Gera þurfi ráð fyrir þeim möguleika að landið lokaðist fyrir innflutningi og þá þyrftu landsmenn að lifa á þeim matvælum sem framleidd væru innanlands. Slíkt ástand gæti verið heimsófriður eða eitthvað sem ekki er fyrirsjáanlegt nú. Í hruninu 2008 munaði þannig ekki miklu að viðskipti við Ísland stöðvuðust og þar með innflutningur á öllum vörum. Fyrirfram datt fáum í hug að slíkar aðstæður gætu nokkurn tímann skapast.
Í skýrslunni er bent á þann annmarka að ef landið lokaðist þá væri t.d. heyöflun háð notkun á olíu. Hægt væri að fæða þjóðina til skamms tíma með því að drepa þá gripi sem til eru. Til lengri tíma litið yrði þó einungis hægt að treysta á handverkfæri þar sem vinnuvélar ganga fyrir olíu. Um þetta segja skýrsluhöfundar m.a.:
Rafvæðing í landbúnaði myndi auka fæðuöryggi
„Ef stjórnvöld vilja auka fæðuöryggi ættu þau því að hvetja til notkunar innlendra orkugjafa í landbúnaði. Það mætti gera með því að veita styrki til kaupa á landbúnaðartækjum sem nýttu rafmagn eða metangas, stuðla að vinnslu metangass úr mykju og þess háttar. Um heiminn fer bylgja rafbíla. Enn virðist þó lítið vera að gerast í rafvæðingu vinnuvéla og dráttarvéla þótt vinnuvélar knúnar rafmagni þekkist, svo sem lyftarar.
Rafdrifnar landbúnaðarvélar myndu auka fæðuöryggi á Íslandi mjög mikið og minnka losun gróðurhúsalofttegunda í leiðinni. Slíkt átak á Íslandi myndi vekja athygli. Ef það tækist að minnka brennslu jarðefnaolíu verulega í landbúnaði með því að nota rafdrifnar vinnuvélar og lífdísil í bland gæti það hjálpað til að gera vöruna sérstaka, svo ekki sé talað um ef tækist að hætta notkun jarðefnaolíu alfarið.