Reglugerð um slátrun í litlum sauðfjár- og geitasláturhúsum birt í Stjórnartíðindum
Reglugerð um slátrun í litlum sauðfjár- og geitasláturhúsum hefur verið birt í Stjórnartíðindum. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið gaf það út á vef sínum á þriðjudaginn að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefði undirritað reglugerðina, en þær upplýsingar fengust þá úr ráðuneytinu að reglugerðin sjálf yrði ekki aðgengileg fyrr en hún hefði birst í Stjórnartíðindum.
Reglugerðin heimilar heimaslátrun á sauðfé og geitum til markaðssetningar. Þar eru ákvæði um förgun aukaafurða sem ekki komu fram í tilkynningu ráðuneytisins á þriðjudaginn. Í þeim er kveðið á um að aukaafurðum úr dýrum sem ekki eru ætlaðar til maneldis skal safna, geyma og farga í samræmi við ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins sem innleidd er í íslenskan rétt með reglugerð um heilbrigðisreglur að því er varðar aukaafurðir úr dýrum og afleiddar afurðir sem ekki eru ætlaðar til manneldis.
Sérstakt áhættuefni geymt í læsanlegu íláti
„Undir stjórn opinbers dýralæknis skal fjarlægja sérstakt áhættuefni úr sauðfé og geitum og geyma í læsanlegu íláti þar til það er flutt til förgunar í viðurkenndri brennslustöð, sbr. ákvæði reglugerðar nr. 41/2012, um gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB), nr. 999/2001 um setningu reglna um forvarnir gegn, eftirlit með og útrýmingu tiltekinna tegunda smitandi heilahrörnunar. Öðrum aukaafurðum skal fargað samkvæmt reglum viðkomandi sveitarfélags,“ segir í 10. grein reglugerðarinnar um förgun aukaafurða.