Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Afkoma kúabúa hefur versnað til muna frá árinu 2018 og ef fram heldur sem horfir mun rekstrarhæfni hluta íslenskra kúabúa vera í mikilli hættu.
Afkoma kúabúa hefur versnað til muna frá árinu 2018 og ef fram heldur sem horfir mun rekstrarhæfni hluta íslenskra kúabúa vera í mikilli hættu.
Mynd / Bbl
Fréttir 10. febrúar 2022

Rekstrarhæfni kúabúa er í mikilli hættu

Höfundur: smh

Hjá Ráðgjafarmiðstöð landbún­aðarins (RML) hefur skýrsla verið unnin um rekstur og afkomu kúabúa fyrir tímabilið 2017 til 2020. Skýrslan leiðir í ljós að afkoma greinarinnar hefur versnað til muna frá árinu 2018 og ef fram heldur sem horfir muni rekstrarhæfni hluta íslenskra kúabúa vera í mikilli hættu.

Kristján Óttar Eymundsson hefur stýrt verkefninu af hálfu RML og segir hann skýringuna vera að á árunum 2019 og 2020 hafi afurðaverðshækkanir til kúabænda ekki náð að fylgja eftir hækkunum á aðföngum og launakostnaði. Á sama tíma hafi skuldsetning búanna aukist.

Rekstrarhæfni búanna í hættu

Til grundvallar verkefninu liggja rekstrargögn 123 kúabúa af öllu landinu, en um framhald verkefnis er að ræða sem fór af stað sumarið 2020. Það ár tóku 90 kúabú þátt og fengu ítarlega greiningu á sínum rekstri á árunum 2017-2019 og hann settur í samhengi við önnur bú.

Kristján Óttar Eymundsson.

Kristján segir að með verkefn­inu nú fáist enn betri mynd á afkomuþróun kúabúa síðustu árin, auk þess sem hver og einn þátttakandi fái betri tilfinningu fyrir því hvernig hann stendur í sínum rekstri með tilliti til annarra búa.

„Þátttökubúin lögðu samtals inn árlega á bilinu 41,2-43,8 milljónir lítra af mjólk á árunum 2017-2020 og svarar framleiðslan um 27-29 prósentum af heildarinnleggi mjólkur á landsvísu. Það hlutfall, ásamt samanburði á gögnum frá fyrra ári, bendir til að gögnin gefi góða mynd af stöðu og þróun í greininni.

Aukin skuldsetning og lækkandi framlegð er mikið áhyggjuefni miðað við það umhverfi sem við búum við í dag þar sem aðföng fara hækkandi, verðbólga er mikil og yfirvofandi eru enn meiri stýrivaxtahækkanir. Kúabændur sem stétt, hljóta því að fara fram á hærra afurðaverð, annars muni rekstrarhæfni hluta búanna verða í mikilli hættu. Í árslok 2020 var 27 prósenta þátttökubúanna með skuldahlutfallið 2,5 eða hærra en í árslok 2017 var hlutfallið 16 prósent. Aðhald í rekstri og góð bústjórn, sem stuðlar að mikilli afurðasemi með hlutsfallslega lágum breytilegum kostnaði, hefur sjaldan verið mikilvægari,“ segir Kristján.

Meiri afurðasemi, minni kostnaður

„Það er magnað að sjá bú í verkefninu sem eru að framleiða yfir 7.000 lítra af innlagðri mjólk eftir árskúna en eru einungis með breytilegan kostnaðinn um eða undir 50 krónur á lítrann, þegar meðaltalið er 73,7 krónur á lítrann,“ segir Kristján.

„Það ætti að verða öðrum bændum hvatning en helstu tækifæri kúabænda liggja einmitt í aukinni afurðasemi og hlutfallslega lægri breytilegum kostnaði á innlagðan lítra. Gögnin sýna fram á mikinn breytileika á milli búa og þar með á mikið svigrúm til hagræðingar. Þar er um að ræða gífurlega hagsmuni fyrir greinina enda hljóta allir að sjá þann mikla rekstrarmun á búum sem hafa breytilegan kostnað 50 eða 75 krónur á lítrann. Þar munar 2,5 milljónum króna á hverja 100 þúsund lítra.“

Lækkandi framlegðarstig 

Sem fyrr segir hafa afurðaverðs­hækkanir frá 2019 ekki náð að fylgja eftir hækkunum á aðföngum og launakostnaði, sem hefur að sögn Kristjáns leitt til lækkandi framlegðarstigs afurðatekna og minni rekstrarafgangs. Hann bendir á meðfylgjandi súlurit sem sýnir að þessi þróun hefur valdið því að afurðahæsti flokkurinn á árinu 2020 er með svipað framlegðarstig og afurðalægsti flokkurinn var með á árinu 2017.

„Hækkun á breytilegum kostnaði á föstu verðlagi hvers árs er 9,4 krónur á lítrann á árabilinu 2017-2020. Hálffastur og fastur kostnaður án afskrifta og fjármagnsliða hækkaði síðan um 5,3 krónur á sama tímabili. Verð á viðmiðunarmjólk, samkvæmt ákvörðun verðlagsnefndar búvara, fór úr 87,40 krónur á lítrann 1. janúar 2017, í 97,84 krónur á lítrann 1. júní 2020. Það er hækkun um 10,44 krónur á lítrann, sem bendir til að þær hafi ekki verið nægjanlegar og komið of seint, eins og verðhækkanir 1. janúar og 1. júní 2020. Það leiddi beint til versnandi afkomu kúabænda á árunum 2019-2020,“ segir Kristján.

Meðalaldur kvígna við burð er of hár

Kristján bendir á þá áhugaverðu staðreynd, sem hafi komið í ljós við yfirferð gagnanna, að hjá framlegðarhæstu búunum séu kvígurnar ríflega mánuði yngri en hjá þeim framlegðarlægstu.

„Meðalaldurinn á þeim búum sem voru með mestu framlegðina var samt 27,6 mánaða og ljóst að þar er hægt að gera enn betur.

Einnig er áhugavert hvað hlutfall endurræktunar er að jafnaði minna á framlegðarhæstu búunum en er að meðaltali. Þar er hlutfall ræktunar af slegnum hekturum að jafnaði um 12 prósent fyrir öll árin á meðan að meðaltal allra búanna er um 17 prósent.

Niðurstöðurnar gefa líka til kynna að framlegðarlægstu búin heyi fleiri hektara. Meðaltal allra áranna er þar 2,0 hektarar á hverja árskú á meðan meðalbúið er að heyja 1,6 hektara fyrir hverja árskú.

Þetta eru bústjórnarþættir sem geta haft bein áhrif á fóðuröflunarkostnað búanna og því vert að gefa þeim meiri athygli,“ segir hann.

Skuldsetning búa hefur aukist um þriðjung

Umfangsmiklar framkvæmdir hjá mörgum kúabúunum hafa orðið þess valdandi að skuldir hafa aukist nokkuð á þessum árum. Að meðaltali hækka skuldir úr 87,6 í 112,6 milljónir króna, eða um tæp 29 prósent.

„Á sama tíma hefur skulda­hlutfallið hækkað úr 1,6 upp í 1,8 að meðaltali og heildartekjur úr 54,1 milljón króna í 60,5, eða um tæp 12 prósent á föstu verðlagi hvers árs. Fjármagnskostnaður, sem hlutfall af heildarveltu, reiknast um 10 prósent á árinu 2017 og 11 prósent árin eftir það,“ segir Kristján.

„Samspil vaxta- og verðbólgu­þróunar var hagstætt á seinni hluta tímabilsins og því hefði verið æskilegt að sjá fjármagnskostnaðinn lækka. Ljóst er að aukin verðbólga og stýrivaxtahækkanir frá fyrri hluta árs 2021 munu hafa áhrif á versnandi afkomuhorfur kúabænda að teknu tilliti til hækkandi skuldahlutfalls og lækkandi framlegðar frá árinu 2018 að öðrum forsendum óbreyttum.“

Ákvörðun felld úr gildi
Fréttir 21. nóvember 2024

Ákvörðun felld úr gildi

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að nýlega samþykktar undaþágu...

Skráð heildartjón rúmur milljarður
Fréttir 21. nóvember 2024

Skráð heildartjón rúmur milljarður

Skráð heildartjón vegna kuldakasts og annars óvenjulegs veðurfars á árinu er rúm...

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu
Fréttir 21. nóvember 2024

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu

Áður en Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm boðaði Kaupfélag Skagfirðinga (KS) ...

Undanþágan dæmd ólögmæt
Fréttir 21. nóvember 2024

Undanþágan dæmd ólögmæt

Óvissa er uppi um framhald samruna og hugmynda Kaupfélags Skagfirðinga (KS) um h...

Pólar hestar fyrirtæki ársins
Fréttir 19. nóvember 2024

Pólar hestar fyrirtæki ársins

Markaðsstofa Norðurlands hefur valið hestaleiguna Pólar hestar sem fyrirtæki árs...

Byggja stóra íþróttamiðstöð
Fréttir 18. nóvember 2024

Byggja stóra íþróttamiðstöð

Í Árnesi er verið að byggja fyrstu íþróttamiðstöðina í Skeiða- og Gnúpverjahrepp...

Afstaða framboða til landbúnaðarmála
Fréttir 15. nóvember 2024

Afstaða framboða til landbúnaðarmála

Stjórnmálaflokkarnir sem eru í framboði til alþingiskosninga, sem fram fara 30. ...

Nýjar höfuðstöðvar
Fréttir 15. nóvember 2024

Nýjar höfuðstöðvar

Samkvæmt ákvörðun Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðher...