Rússar banna innflutning á matvælum frá ESB, Bandaríkjunum og víðar
Rússar hafa bannað innflutning á kjöti, fiski, ávöxtum, grænmeti, mjólk og mjólkurafurðum frá löndum Evrópusambandinu, Bandaríkjunum, Kanada, Ástralíu og Noregi í eitt ár. Ísland er ekki á listanum.
Fyrir skömmu var dótturfyrirtæki Aeoroflot bannað að fljúga yfir Evrópu sem refsiaðgerðir Evrópusambandsins vegna stuðnings Rússa við uppreisnarmenn í Úkraínu. Rússnesk yfirvöld íhuga að banna flug evrópskra flugfélaga til Asíu yfir lofthelgi landsins.
Landbúnaðarráðherra Rússlands segir að í stað þess að flytja inn matvæli frá ofangreindum löndum verði meðal annars flutt inn meira af matvælum frá löndum eins og Brasilíu og Nýja Sjálandi og fleiri löndum.
Kaupa mikið af íslensku kjöti
Erlendur Garðarsson markaðsfræðingur hefur flutt út kjöt til Rússlands í mörg ár og þekkir því til matvælamarkaðarins þar. „Samkvæmt því sem ég hef heyrt er Ísland ekki hluti af þessu banni og vonandi lendum við ekki á þeim lista enda engin ástæða til.
Samskipti Íslands og Rússlands eru mjög góð og hafa farið batnandi síðustu ár. Rússar kaupa mikið ær, dilka- og hrossakjöt auk fisks frá Íslandi og markaðurinn þar einn sá stærsti fyrir íslenskt kjöt. Rússland er því mjög góð viðskiptaþjóð fyrir Ísland.“
Sama verð og í Bandaríkjunum
Útflutningur á dilkakjöti frá Íslandi til Rússlands hefur aukist mikið undanfarin ár og að sögn Erlends fæst sama verð fyrir það og í Bandaríkjunum. „Millistéttin í Rússlandi fer ört vaxandi og hún gerir auknar kröfur um góðan mat.“
Erlendur segir óvíst hvort innflutningsbannið núna komi til með að auka sölu á landbúnaðarvörum og fiski til Rússlands á meðan á því stendur. „Þrátt fyrir að magnið af matvælum sem við flytjum til Rússlands sé stórt á okkar mælikvarða vegur það ekki stórt í heildarinnflutningi Rússa á matvælum.“
Vonandi leysist deilan sem fyrst
„Ég vona allra vegna að þetta mál leysist sem allra fyrst því staðan eins og hún er nú er ekki neinum til góðs. Innflutningsbann á matvælum frá ESB til Rússlands er verulegt áfall fyrir löndin sem tilheyra Evrópusambandinu og Rússar vita alveg hvað þeir eru að gera.“