Rýmingu ekki aflétt í Kinn og Útkinn
Eftir gríðarlega úrkomu á Norðurlandi um helgina var hættustigi almannavarna lýst yfir í Kinn og Útkinn í Suður-Þingeyjarsýslu aðfararnótt sunnudags vegna skriðuhættu. Rýma þurfti sex bæi í Útkinn þá um nóttina eftir að nokkrar aurskriður höfðu fallið, sem leiddi til þess að bæir urðu innlyksa. Í gærkvöldi var tekin ákvörðun um að rýma aðra sex bæi í Kinn. Rétt fyrir hádegi í dag var svo ákveðið að aflétta ekki rýmingu, en skriður féllu einnig í nótt á svæðinu.
Var þyrla Landhelgisgæslunnar notuð til að hjálpa til við rýmingu og hafa bændur fengið aðstoð björgunarsveita til að komast í aðkallandi bústörf eins og mjaltir.
Næsti stöðufundur almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, lögreglustjórans á Norðurlandi eystra og Veðurstofu Íslands verður haldinn seinni partinn í dag.
Aurskriða sem féll í Útkinn í gær.