SAM: Verð á tollkvótum fyrir osta hefur lækkað
Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði (SAM) hafa sent frá sér fréttatilkynningu þar sem fram kemur að fréttaflutningur um hækkandi verð á tollkvótum frá Evrópusambandinu eigi ekki við um osta. Í nýlegu útboði hafi verð á tollkvóta fyrir ost lækkað og reyndar hafi verð á slíkum kvótum á síðustu misserum lækkað jafnt og þétt.
Þar segir að verð á tollkvótum fyrir osta í útboðinu sem atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið birti niðurstöður úr þann 26. janúar hafi lækkað, úr 680 krónur á kílóið á tímabilinu júlí til desember 2020 í 642 krónur á kílóið nú í janúar.
„Nauðsynlegt er að hafa í huga að verð á tollkvóta ræðst af mörgum þáttum, ekki einvörðungu fyrirkomulagi á útboði tollkvóta. Þar má nefna verð frá birgjum erlendis, verð á markaði hér á landi, gildandi tollur á innflutningi, eftirspurn o.s.frv.
Fréttaflutningur um hækkandi verð á tollkvótum á því ekki við um verð á tollkvótum fyrir ost,“ segir í tilkynningunni.
Með tilkynningunni fylgir súlurit sem sýnir hvernig þróun á verðlagi fyrir tollkvóta á osti hefur þróast frá 2018.