Samanlagt með 110 ára reynslu af störfum í þágu bænda
Höfundur: Hörður Kristjánsson
Síðasta dag maímánaðar héldu Bændasamtökin hóf til heiðurs þremur starfsmönnum sem um áratuga skeið hafa þjónað samtökunum en hafa nú flutt sig yfir í Matvælastofnun.
Þetta eru þau Guðrún Sigríður Sigurjónsdóttir, nú skrifstofufulltrúi búnaðarmála hjá MAST. Hún hóf störf hjá Búnaðarfélagi Íslands árið 1976. Þaðan lá leiðin árið 1988 til Framleiðsluráðs landbúnaðarins. Þegar Framleiðsluráðið var síðan lagt niður um áramótin 1999–2000 flutti Guðrún, eða Gulla Sigga eins og flestir þekkja hana, með verkefnunum sínum yfir til Bændasamtaka Íslands, en þau voru stofnuð 1995. Hún flutti síðan yfir til Landssamtaka sláturleyfishafa árið 2000, en þau voru líka með aðsetur í Bændahöllinni. Árið 2013 flutti hún svo á ný með verkefnum Landssamtakanna yfir til BÍ. Allan tímann var Gulla Sigga í raun að halda utan um sömu verkefnin, er lutu m.a. að gagnaöflun og að sinna stuðningsgreiðslum fyrir hönd ríkisins til sláturleyfishafa og bænda. Hún flutti svo enn með verkefnin yfir til MAST árið 2016 samfara lagabreytingum um flutning verkefna frá BÍ.
Ómar Sigurvin Jónsson, nú fagsviðsstjóri búnaðarmála hjá MAST, hóf störf hjá Framleiðsluráði árið 1979 og sá þar í byrjun um útreikninga á búmarki. Varð síðan umsjónarmaður Fóðursjóðs og gerðist í framhaldinu gjaldkeri Framleiðsluráðs og var aðalbókari ráðsins þar til það var lagt niður í árslok 1999. Þá fór hann yfir til Bændasamtakanna og tók að sér verkefni í sambandi við beingreiðslur, sjóðagjöld og greiðslumark, sem starfsmenn Framleiðsluráðs, sem fluttust ekki yfir til BÍ, höfðu áður sinnt.
Ásdís Kristinsdóttir, nú skrifstofufulltrúi búnaðarmála hjá MAST, hóf störf hjá Búnaðarfélagi Íslands árið 1983. Hún flutti síðan yfir til Bændasamtaka Íslands við stofnun þeirra 1995.
Yfirfærsla verkefna til MAST
Fyrir áramótin 2014 til 2015 voru verkefni þessara þremenninga hjá Bændasamtökunum sett undir hatt sérstakrar deildar innan BÍ sem nefnd var Búnaðarstofa og var stýrt af Jóni Baldri Lorange sem áður var yfirmaður tölvudeildar BÍ og hafði einnig umsjón með WorldFeng og hefur enn. Í kjölfar lagabreytingar voru verkefni Búnaðarstofu svo endanlega flutt yfir til MAST um síðustu áramót í sjálfstæða einingu sem nefnd var „Búnaðarmálaskrifstofa“. Urðu Ómar og Guðrún Sigríður þá starfsmenn MAST en Ásdís hélt áfram þeim við hlið sem starfsmaður BÍ. Nú hefur hún einnig verið ráðin til MAST og hefur þar formlega störf 1. júlí. Þeim til aðstoðar var Bjarki Pjetursson ráðinn á búnaðarmálaskrifstofu MAST fyrir skömmu og sem fyrr er Jón Baldur Lorange framkvæmdastjóri skrifstofunnar sem er til hús á annarri hæð Bændahallarinnar (Hótel Sögu).
Gríðarleg þekking og reynsla
Í höndum þessa fólks er eins og undanfarna áratugi tölfræðileg upplýsingaöflun er lýtur að framleiðslu íslensks landbúnaðar. Þar undir eru einnig öll talnasöfnun um fjölda búfjár Íslendinga, upplýsingar um slátrun og aðra afurðaframleiðslu og margvíslegt skýrsluhald. Allt er þetta svo grunnur að úthlutun stuðningsgreiðslna ríkisins við bændur sem BÍ annaðist áður fyrir hönd ríkissjóðs.
Ljóst er að þremenningarnir búa yfir gríðarlegri upplýsingaþekkingu á sviði landbúnaðarmála.
Samanlagður starfsaldur þremenninganna hjá fyrrnefndum stofnunum og í þágu íslenskra bænda er 110 ár.
Þökkuð störf í þágu bænda
Sigurður Eyþórsson, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands, þakkaði þeim fyrir dygga og frábæra þjónustu í þágu íslenskra bænda í gegnum tíðina. Tók hann þó fram að þetta væri engin kveðjustund, því íslenskir bændur myndu áfram þurfa á þeirra þjónustu að halda um ókominn tíma, þó skipt hafi verið um vinnuveitanda.
Þökkuðu þremenningarnir fyrir sig og lýsti Gulla Sigga því með dæmisögu hvernig þeirra vinna snerist að verulegu leyti um mannleg samskipti og að leysa úr málum sem upp geta komið í flóknu kerfi. Ánægjuleg samskipti við bændur og starfsfólk Bændasamtakanna í gegnum tíðina væri það sem skýrði best hvers vegna hún, Ásdís og Ómar hafi verið svo lengi í starfi á sama vettvangi.