Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Samkeppniseftirlitið mun höfða dómsmál gegn MS
Mynd / bbl.is
Fréttir 25. nóvember 2016

Samkeppniseftirlitið mun höfða dómsmál gegn MS

Höfundur: smh

Á vef Samkeppniseftirlitsins var í dag tilkynnt um að höfðað yrði mál gegn Mjólkursamsölunni (MS) í kjölfar úrskurðar áfrýjunarnefndar samkeppnismála þann 21. nóvember síðastliðnum um að Mjólkursamsalan hefði ekki brotið gegn banni 11. greinar samkeppnislaga við misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Það var þvert á niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins frá því í júlí síðastliðnum.

Þá hafði Samkeppniseftirlitið einmitt komist að þeirri niðurstöðu að MS hefði með alvarlegum hætti misnotað markaðsráðandi stöðu sína. Nánar tiltekið hefði MS selt keppinautum sínum grundvallarhráefni til framleiðslu á mjólkurvörum, þ.e. hrámjólk, á óeðlilega háu verði á sama tíma og MS sjálft og tengdir aðilar (Kaupfélag Skagfirðinga (KS) og dótturfélag þess) fengu sama hráefni á mun lægra verði, og að auki undir kostnaðarverði.

Tilkynning Samkeppniseftirlitsins er svohljóðandi:

„Í júlí 2016 komst Samkeppniseftirlitið að þeirri niðurstöðu að Mjólkursamsalan (MS) hefði með alvarlegum hætti brotið gegn banni 11. gr. samkeppnislaga við misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Nánar tiltekið hefði MS misnotað markaðsráðandi stöðu sína með því að selja keppinautum sínum grundvallarhráefni til framleiðslu á mjólkurvörum, þ.e. hrámjólk, á óeðlilega háu verði á sama tíma og MS sjálft og tengdir aðilar (Kaupfélag Skagfirðinga (KS) og dótturfélag þess) fengu sama hráefni á mun lægra verði, og að auki undir kostnaðarverði. Niðurstaða eftirlitsins var að þetta hefði veitt MS og tengdum aðilum verulegt samkeppnisforskot gagnvart keppinautum. Með þessu móti hefði geta slíkra aðila til að keppa við MS og tengd félög verið skert með alvarlegum hætti, en á endanum væri það til þess fallið að skaða hagsmuni neytenda og bænda.

 

Auk þess að leggja sekt á MS vegna m.a. þessa brots beindi Samkeppniseftirlitið fyrirmælum til MS. Tilgangur þeirra var að vinna gegn því að samskonar brot yrðu framin aftur og skapa skilyrði fyrir því að smáir keppinautar MS geti starfað á markaðnum til frambúðar.

 

MS skaut ákvörðun Samkeppniseftirlitsins til áfrýjunarnefndar samkeppnismála sem kvað upp sinn úrskurð 21. nóvember sl. Meirihluti nefndarinnar komst m.a. að þeirri niðurstöðu að undanþáguákvæði búvörulaga hefðu vikið banni samkeppnislaga við misnotkun á markaðsráðandi stöðu til hliðar. Af þessu leiddi að sekt MS vegna brota á 11. gr. samkeppnislaga var felld úr gildi og hið sama gildir um framangreind fyrirmæli Samkeppniseftirlitsins. Á hinn bóginn staðfesti nefndin að MS hefði framið alvarlegt brot á upplýsingaskyldu samkeppnislaga og að fyrirtækinu bæri að greiða 40.000.000 kr. sekt vegna þess.

 

Málshöfðunarheimild til að vernda almannahagsmuni

Með lögum, sem tóku gildi árið 2011, var Samkeppniseftirlitinu veitt heimild til að bera úrskurði áfrýjunarnefndar undir dómstóla, en fyrir gildistöku laganna gátu aðeins einstök fyrirtæki höfðað slík mál. Tilgangur þessarar lagabreytingar var að gera Samkeppniseftirlitinu betur kleift að „vernda þá lögvörðu almannahagsmuni sem felast í virkri samkeppni“. Taldi löggjafinn mikilvægt að Samkeppniseftirlitið gæti borið „stór og mikilvæg mál“ sem varða hagsmuni neytenda undir dómstóla. Með þessu móti væri stuðlað að jafnræði á milli gæslu almannahagsmuna og einkahagsmuna fyrirtækja fyrir dómstólum í samkeppnismálum.

 

Ákvörðun um málshöfðun liggur fyrir

Eftir skoðun á forsendum meirihluta áfrýjunarnefndar telur Samkeppniseftirlitið að því beri að beita framangreindri lagaheimild. Því hyggst Samkeppniseftirlitið stefna MS fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur til þess að þola ógildingu á framangreindri niðurstöðu meirihluta áfrýjunarnefndar um samspil búvörulaga og samkeppnislaga. Miðar sú málshöfðun að því að fá úr því skorið hvort bann samkeppnislaga við misnotkun á markaðsráðandi stöðu taki að fullu til MS. Jafnframt verði fengin fullnaðarúrlausn um hvort að fyrirtækið skuli sæta fullri ábyrgð vegna þeirrar háttsemi sem fjallað er um í málinu og Samkeppniseftirlitið hefur metið sem alvarleg brot gegn minni keppinautum. Mun Samkeppniseftirlitið krefjast þess að MS greiði þá stjórnvaldssekt sem eftirlitið taldi hæfilega í ákvörðun sinni frá júlí 2016.

 

Við þessa ákvörðun um að stefna MS hefur Samkeppniseftirlitið haft hliðsjón af m.a. eftirfarandi atriðum:

·         Meirihluti áfrýjunarnefndar tekur ekki tillit til þess að vilji löggjafans var sá að bann samkeppnislaga við misnotkun á markaðsráðandi stöðu gilti áfram um starfsemi markaðsráðandi mjólkurafurðastöðva, þótt undanþága væri á sínum tíma veitt frá samrunareglum og tilteknum samráðsreglum samkeppnislaga.

·         Í eldri úrskurðum áfrýjunarnefndar samkeppnismála hafa verið gerðar strangar kröfur til skýrleika ákvæða búvörulaga til að þau geti vikið samkeppnislögum til hliðar, sbr. úrskurð nefndarinnar í máli nr. 8/2006, Osta og smjörsalan gegn Samkeppniseftirlitinu og í máli nr. 7/2009, Bændasamtök Íslands gegn Samkeppniseftirlitinu.  Samkeppniseftirlitið telur að í máli MS hafi meirihluti áfrýjunarnefndar horfið frá þessu. Brýnt er því að fá skorið úr samspili búvörulaga og samkeppnislaga fyrir dómstólum.

·         Fyrir liggur að MS er margsaga um mikilvæga þætti málsins og að meirihluti áfrýjunarnefndar taldi það ekki hafa þýðingu fyrir úrslit málsins.

Á grundvelli undanþágu frá samkeppnislögum er MS í einstakri yfirburðastöðu á mjólkurmarkaði. Smáir framleiðendur á mjólkurvörum geta ekki starfað án þess að kaupa hrámjólk af MS/Auðhumlu og á sama tíma er MS helsti keppinautur þeirra í sölu á þeim vörum. Þessi staða er afar viðkvæm í samkeppnislegu tilliti. MS hefur því örlög þessara smærri fyrirtækja í hendi sér. Að mati Samkeppniseftirlitsins er brýnt að tryggja, eins og unnt er, að á mjólkurmarkaði sé til staðar sú réttarvernd sem felst í bannreglu 11. gr. samkeppnislaga og þeim skilyrðum sem Samkeppniseftirlitið setti MS. Niðurstaða meirihluta áfrýjunarnefndar a.m.k. dregur stórlega úr þeirri réttarvernd.“

Ákvörðun felld úr gildi
Fréttir 21. nóvember 2024

Ákvörðun felld úr gildi

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að nýlega samþykktar undaþágu...

Skráð heildartjón rúmur milljarður
Fréttir 21. nóvember 2024

Skráð heildartjón rúmur milljarður

Skráð heildartjón vegna kuldakasts og annars óvenjulegs veðurfars á árinu er rúm...

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu
Fréttir 21. nóvember 2024

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu

Áður en Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm boðaði Kaupfélag Skagfirðinga (KS) ...

Undanþágan dæmd ólögmæt
Fréttir 21. nóvember 2024

Undanþágan dæmd ólögmæt

Óvissa er uppi um framhald samruna og hugmynda Kaupfélags Skagfirðinga (KS) um h...

Pólar hestar fyrirtæki ársins
Fréttir 19. nóvember 2024

Pólar hestar fyrirtæki ársins

Markaðsstofa Norðurlands hefur valið hestaleiguna Pólar hestar sem fyrirtæki árs...

Byggja stóra íþróttamiðstöð
Fréttir 18. nóvember 2024

Byggja stóra íþróttamiðstöð

Í Árnesi er verið að byggja fyrstu íþróttamiðstöðina í Skeiða- og Gnúpverjahrepp...

Afstaða framboða til landbúnaðarmála
Fréttir 15. nóvember 2024

Afstaða framboða til landbúnaðarmála

Stjórnmálaflokkarnir sem eru í framboði til alþingiskosninga, sem fram fara 30. ...

Nýjar höfuðstöðvar
Fréttir 15. nóvember 2024

Nýjar höfuðstöðvar

Samkvæmt ákvörðun Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðher...