Sauðfjárbændum veittur sálrænn stuðningur og ráðgjöf vegna riðuveikitilfella
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Bændasamtök Íslands og sveitarfélögin í Skagafirði hafa gert samkomulag við Kristínu Lindu Jónsdóttur, sálfræðing, um að veita sauðfjárbændum sálrænan stuðning og ráðgjöf vegna nýlegra riðutilfella í Skagafirði.
Í tilkynningu úr ráðuneytinu kemur fram að í verkefninu felist að heimilisfólki, á þeim búum þar sem riðuveiki hefur greinst, standi til boða að nýta sér sálfræðiþjónustu Kristínar Lindu. „Ráðgjöfin verður í boði Skagafirði þegar aðstæður leyfa eða í gegnum fjarfundarbúnað. Auk þess hafa framangreindir aðilar fengið sent fræðslu- og leiðbeiningarefni sem hefur verið tekið saman um áhrif af ytri áföllum á líðan fólks og hagnýt ráð sem hafa reynst vel þegar erfiðleikar og áföll ganga yfir. Sjónum er sérstaklega beint að viðbrögðum ef riðuveiki greinist í sauðfé. Í fræðsluefninu er auk þess vikið að bjargráðum foreldra vegna upplifunar barna og ungmenna.
Þá mun Kristín Linda sækja opinn upplýsingafund sem fyrirhugað er að halda á næstu vikum þar sem hún mun taka þátt í umræðum og svara spurningum.
Kristín Linda ólst upp á blönduðu búi í Fnjóskadal í Þingeyjarsýslu og var bóndi í Miðhvammi í Aðaldal í 15 ár. Hún er nú klínískur sálfræðingur og hefur starfað á eigin sálfræðistofu, Huglind ehf., í Reykjavík í níu ár,“ segir í tilkynningunni.