Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Sauðfjárbændur mótmæla harðlega lækkun afurðaverðs
Mynd / SH
Fréttir 25. ágúst 2016

Sauðfjárbændur mótmæla harðlega lækkun afurðaverðs

Landssamtök sauðfjárbænda (LS) hafa sent frá sér harðorða yfirlýsingu vegna lækkana á verði til bænda fyrir dilka og fullorðið fé sem leitt verður til slátrunar á þessu hausti.

Samtökin óttast afleiðingarnar fyrir greinina og sveitir landsins og talað er um glórulausa röksemdafærslu sláturleyfishafa fyrir þessum lækkunum.

Galin ákvörðun Sláturfélags Vopnfirðinga

Yfirlýsing LS fer hér á eftir:

Sláturfélag Vopnfirðinga fetaði í gær í fótspor Norðlenska með tilkynningu um einhliða 12% lækkun á afurðaverði í bréfi til bænda. Landssamtök sauðfjárbænda harma þessa ákvörðun og telja hana álíka glórulausa og þá sem Norðlenska kynnti í gær. Samtökin óttast afleiðingarnar fyrir greinina og sveitir landsins. Harkaleg 12% lækkun á lambakjöti sætir furðu á meðan innanlandssala eykst, vextir fara lækkandi, efnahagshorfur eru góðar og heimsmarkaðsverð á lambakjöti er á uppleið.

Færa fé frá bændum til fákeppnisfyrirtækja

Í bréfinu koma fram áhyggjur Sláturfélags Vopnfirðinga af því að verslunin í landinu muni gera kröfu um að fá hluta boðaðrar lækkunar til bænda í sinn hlut. Landssamtök sauðfjárbænda taka heilshugar undir þessar áhyggjur. Fákeppni ríkir á dagvörumarkaði á Íslandi að mati Samkeppniseftirlitsins og verslunin hér skammtar sér margfaldri arðsemi miðað við önnur lönd. Forystumenn Landssamtaka sauðfjárbænda hafa að undanförnu varað stjórnendur og stjórnarmenn afurðastöðva við hættunni á því að lækkun til bænda endi að öllu eða miklu leyti í vasa verslunarinnar. Miðað við reynslu undanfarinna ára muni hvorki neytendur né afurðastöðvar njóta góðs af verðlækkun til bænda. Samtökin eru því gáttuð á ákvörðun Sláturfélags Vopnfirðinga - sem virðist hreinlega galin í ljósi eigin rökstuðnings félagsins.

Bændur rukkaðir fyrir andvaraleysi annarra

Sláturfélag Vopnfirðinga segir í bréfinu að útflutningur á hliðarafurðum hafi gengið illa og birgðir safnast upp. Landssamtök sauðfjárbænda draga þetta ekki í efa en minna á að þau hafa ítrekað talað fyrir því að hverfa beri frá stefnu um að selja inn á alþjóðlega hráefnismarkaði. Selja eigi íslenskar sauðfjárafurðir sérstaklega sem slíkar, enda sýni reynslan að þannig fæst réttlátara verð. Þetta kemur meðal annars fram í stefnumótun samtakanna um aukið virði sauðfjárafurða sem er hluti af nýjum sauðfjársamningi. Samtökin mótmæla harkalega þeim glórulausu röksemdum Sláturfélags Vopnfirðinga sem fram koma í bréfinu að lækkunin nú sé hugsuð til að liðka fyrir útflutningi þessara umframbirgða. Ekki er boðlegt að fyrirtæki sem er að mestu í eigu bænda velti uppsöfnuðum rekstrarvanda yfir á sveitir landsins – vanda sem er tilkominn er vegna andvaraleysis fyrirtækisins sjálfs.

Afurðastöðvar nýti svigrúm á markaði Illa ígrunduð ákvörðun verði dregin til baka

Landssamtök sauðfjárbænda gáfu út vel rökstutt viðmiðunarverð í lok júlí. Þau telja hæfilegt að afurðaverð hækki um 12,5% sem er í samræmi við þriggja ára áætlun sem sett var fram í fyrra. Í rökstuðningi Sláturfélags Vopnfirðinga kemur fram að 12% hækkun á innanlandsmarkaði þurfi til að halda verði til bænda óbreyttu miðað við rekstrarstöðu fyrirtækisins. Samtökin draga ekki efa að þetta sé mat stjórnenda Sláturfélags Vopnfirðinga en lýsa hins vegar furðu sinni á því að þeir hækki ekki verð um a.m.k. sem því nemur – enda svigrúm til þess. Í viðamikilli skýrslu Rannsóknarmiðstöðvar Háskólans á Akureyri fyrir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið - Markmið og forsendur sauðfjárræktarsamnings - frá í október 2015, kemur fram að verðbreytingar á lambakjöti hafa takmörkuð áhrif á eftirspurn. Verð á öðrum kjöttegundum skiptir meira máli. Hækka megi útsöluverð á lambakjöti um 12% til 18% án teljandi áhrifa á sölu. Landssamtök sauðfjárbænda hvetja stjórn og stjórnendur Sláturfélags Vopnfirðinga til að falla frá boðaðri einhliða lækkun og kynna sér efni skýrslunnar áður en illa ígrundaðar ákvarðanir eru teknar sem varða líf og afkomu bænda.

Lagalegur grundvöllur viðmiðunarverðs Landssamtaka sauðfjárbænda (birt á saudfe.is 22. ágúst 2016)

Landssamtök sauðfjárbænda hafa notað öll tækifæri til að minna þau afurðafyrirtæki sem eru í eigu bænda á það hverjir eigendurnir eru og stjórnarmenn á það fyrir hverja þeir sitja í stjórnum og svo hagmunir bænda gleymist ekki. Margt er sagt og skrifað í þessari umræðu, t.d. um hvað megi og megi ekki í ljósi landslaga. Það er því við hæfi að birta hér dálitla samantekt um lagalegan grundvöll viðmiðunarverðs LS.

Sérstakt ákvæði búvörulaga

Samkvæmt 8. gr. búvörulaga nr. 99/1993 er Landssamtökum sauðfjárbænda ótvírætt heimilt að gefa út viðmiðunarverð til framleiðenda fyrir einstaka flokka sauðfjárafurða, þ.m.t. sláturlömb. Þetta sérákvæði gengur framar þeim almennu ákvæðum samkeppnislaga sem annars gætu hugsanlega átt við.

Birting og umræða um viðmiðunarverð

Af sjálfu sér leiðir að Landssamtök sauðfjárbænda mega birta viðmiðunarverð sitt opinberlega með þeim hætti sem þau kjósa. Venja er að það sé gert a.m.k. með frétt á vefsíðu samtakanna og með tölvupósti til þeirra stjórnenda afurðastöðva sem við á. Að auki er tilkynning um viðmiðunarverðið oft send fjölmiðlum, stjórnarmönnum í afurðarstöðvum og tengdum fyrirtækjum og hverra þeirra annarra sem samtökin telja eðlilegt að séu upplýstir. Viðmiðunarverðið er því opinbert og stjórnarmenn eða aðrir forsvarsmenn Landssamtaka sauðfjárbænda geta tjáð sig um það í ræðu, riti eða samtölum með hverjum þeim hætti sem þeir kjósa við hvern sem er.

Til fróðleiks má geta þess að sambærilegt ákvæði á við um nautgripakjöt en ekki um kjúklinga, egg, grænmeti eða svínakjöt. Á þeim grunni voru t.d. Bændasamtök Íslands sektuð um tíu milljónir króna árið 2010 í kjölfar ummæla sem birtust í fréttum af Búnaðarþingi 2008 um að búvörur þyrftu að hækka. Í lagi hefði verið að segja, í ljósi  8. gr. búvörulaga, að einungis verð á nautgripa- og kindakjöti þyrfti að hækka. En þar sem sambærileg ákvæði sérákvæði búvörulaga eða annarra laga eru ekki ekki um aðrar kjöttegundir eiga almenn ákvæði samkeppnislaga við þar.

Kvaðir um fjárhagslegan aðskilnað deilda í fyrirtækjum

Sú almenna regla gildir í rekstri afurðastöðva í landbúnaði eins og í öðrum fyrirtækjum að það sem ekki er beinlínis mælt fyrir um eða bannað með lögum er leyfilegt og löglegt. Samkvæmt 14. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 er samkeppniseftirlitinu heimilt að mæla fyrir um fjárhagslegan aðskilnað milli þeirra hluta fyrirtækis sem nýtur sérstaks einkaleyfis eða verndar annars vegar og annarra hluta fyrirtækisins hins vegar. Samkeppnisrekstur má m.ö.o. ekki niðurgreiða með einkaleyfisrekstri. Verðlagning á kjöti á Íslandi er frjáls á öllum stigum. Ákvæði 14. gr. eiga því ekki við um kjötafurðastöðvar. Samkeppnislög banna þannig ekki að arðsemi af hluta starfseminnar sé varið til að reka aðra hluta sem stjórn eða stjórnendur telja mikilvæga fyrir fyrirtækið í heild.

Markaðsráðandi staða

Í 4. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 er markaðsráðandi staða skilgreind þannig að þegar „fyrirtæki hefur þann efnahagslega styrkleika að geta hindrað virka samkeppni á þeim markaði sem máli skiptir og það getur að verulegu leyti starfað án þess að taka tillit til keppinauta, viðskiptavina og neytenda“ sé það markaðsráðandi. Ekki verður séð að neinir bændur, né einstakar afurðastöðvar á Íslandi hafi markaðsráðandi stöðu. Hins vegar hefur samkeppniseftirlitið ítrekað bent á að stærsta Hagar hafi markaðsráðandi stöðu sem stærsta smásölufyrirtæki landsins.

Misnotkun á markaðsráðandi stöðu

Misnotkun á markaðsráðandi stöðu er stranglega bönnuð samkvæmt 11. gr samkeppnislaga. Slík misnotkun getur t.d. falist í því að „beint eða óbeint sé krafist ósanngjarns kaup- eða söluverðs eða aðrir ósanngjarnir viðskiptaskilmálar settir“.

Viðmiðunarverð Landssamtaka sauðfjárbænda fyrir haustslátrun 2016 (birt á saudfe.is 28. júlí 2016)

Sala á kindakjöti hefur verið góð undanfarin misseri og ár, en samkvæmt tölum Matvælastofnunar jókst sala á kindakjöti 2012 til 2014 en dróst lítillega saman 2015. Á fyrsta ársfjórðungi 2016 varð hins vegar 25,1% söluaukning. Í júní jókst salan um 5,6% miðað við sama mánuð árið á undan.

Allt bendir til þess að þjóðarrétturinn lambakjöt sé í sókn. Markaðsstarf bænda og afurðastöðva, stöðugt framboð, aukinn ferðamannastraumur og vakning hjá íslenskum neytendum um gæði og hollustu íslenska lambakjötsins skipta þar sköpum.

Það skýtur því skökku við að afurðaverð til íslenskra sauðfjárbænda er með því lægsta sem þekkist í Evrópu. Auk þess fá íslenskir bændur minna af endanlegu útsöluverði í sinn hlut en víða annars staðar og sá hlutur virðist enn hafa minnkað síðustu misseri.

24% hækkun launavísitölu á 30 mánuðum

Góð sala á lambakjöti kemur heim og saman við aukinn kaupmátt launa en vísitala hans stóð í 115,5 stigum í janúar 2014 en í 136,7 stigum í júní 2016. Þetta er 18,4% hækkun á tímabilinu.

Launavísitala Hagstofunnar stóð í 468,5 stigum í janúar 2014 en í 581,6 stigum í júní 2016. Þetta er 24,1% hækkun á 30 mánuðum. Ef eingöngu er litið til síðustu 12 mánaða hækkaði launavísitalan um 12,5%.

Verðbólga síðustu misseri hefur þó verið minni en hækkanir launa og kaupmáttar. Neysluvísitalan stóð í 415,9 stigum í janúar 2014 en í 436,3 í júní 2016. Þetta þýðir að verðlag hefur hækkað um 4,9% á tímabilinu.

6% raunlækkun afurðaverðs til bænda síðustu tvö ár

Sauðfjárbændur fengu að jafnaði um 604 kr. fyrir hvert kíló af lambakjöti haustið 2014 sem var um 0,4% hækkun frá árinu á undan. Árið 2015 lækkaði verðið hins vegar um 1,1%. Afurðaverð til sauðfjárbænda hefur því lækkað um 0,7% undanfarin tvö ár.

Mynd frá LS.

Algengt er að íslenskir bændur fái sem nemur á bilinu 25% til 41% af endanlegu útsöluverði lambakjöts í sinn hlut. Þegar tekið hefur verið tillit til 11% virðisaukaskatts þýðir þetta að milliliðir; sláturhús, kjötvinnslur og verslanir taka á bilinu 49% til 65% af endanlegu útsöluverði á lambakjöti til sín.

Samanlögð verðbólga og lækkun afurðaverðs til bænda á tímabilinu 2014 til 2016 nemur 5,6% sem þýðir raunlækkun til bænda sem því nemur. Verð til bænda þarf því að hækka um 5,9% til að halda í við verðlagsþróun. Eigi laun sauðfjárbænda og kaupmáttur að halda í við aðra hópa í samfélaginu, t.d. þá sem vinna við úrvinnslu eða sölu afurðanna, þarf enn meiri leiðréttingu afurðaverðs.

Samkvæmt 8. gr. búvörulaga nr. 99/1993 er Landssamtökum sauðfjárbænda heimilt að gefa út viðmiðunarverð til framleiðenda. Landssamtök sauðfjárbænda hafa áður lýst vilja sínum til vinna með afurðastöðvum, sem flestar eru reyndar í eigu bænda, að því að leiðrétta afurðaverð til bænda í áföngum. Fyrir ári gáfu samtökin út eftirfarandi viðmiðunarverð til þriggja ára. Er þá miðað við meðalverð í haustslátrun 2014.

·         Haustslátrun 2014 – meðalverð: 604 kr. **

·         Haustslátrun 2015 – meðalverð: 677 kr.

·         Haustslátrun 2016 – meðalverð: 719 kr.

·         Haustslátrun 2017 – meðalverð: 762 kr.

Nánar má lesa um rökstuðning fyrir þriggja ára viðmiðunarverði hér: http://saudfe.is/frettir/2189-sauðfjárbændur-vilja-sanngjarnt-verð.html

Bændur vilja sanngjarnt verð

Sauðfjárbændur telja eðlilegt að þeir sem frumframleiðendur njóti sanngjarnrar hlutdeildar af endanlegu söluverðmæti eigin framleiðslu. Þeir sjá jafnframt litla sanngirni í því að bera allan kostnaðarauka sem hlýst vegna dýrari aðfanga eða launahækkana annars staðar í virðiskeðjunni.

Hófstilltar og sanngjarnar kröfur bænda hlutu ekki hljómgrunn í fyrra og útgefið viðmiðunarverð þeirra var ekki lagt til grundvallar við útgáfu verðskráa sláturleyfishafa. Þetta hefur þýtt beina kjaraskerðingu bænda. Landssamtök sauðfjárbænda leggja því til að afurðaverð verði leiðrétt á komandi hausti til samræmis við hækkun launavísitölu s.l. 12 mánaða eða um 12,5%. Það þýðir einnig að hægt verður að standa við útgefið viðmiðunarverð til þriggja ára frá í fyrra.“

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...