Sextán stöðvar komnar upp undir merkjum Hleðslu í hlaði
Höfundur: Tjörvi Bjarnason
Þátttakendum í verkefninu Hleðsla í hlaði fer smám saman fjölgandi. Verkefnið var sett á laggirnar í upphafi árs 2017 með það markmið að fjölga hleðslustöðvum fyrir rafbíla i sveitum landsins.
Í dag eru 16 félagar innan Hey Iceland og Bændasamtaka Íslands búnir að setja upp hleðslustöðvar og eru tilbúnir að þjónusta ökumenn á rafmagnsbílum, þar af 14 gististaðir.
Að sögn Berglindar Viktorsdóttur hjá Hey Iceland geta félagar í BÍ og Félagi ferðaþjónustubænda sótt um 50.000 kr. styrk í verkefnið sem þeir fá þegar stöðin er komin í gagnið. Þá býðst stærri gistiheimilum og hótelum að sækja um styrk í Orkusjóð, en sá styrkur getur numið allt að 50% af áætluðum kostnaði við uppsetningu á hleðslustöð. Rafrænar umsóknir sendist um þjónustugátt af vef Orkustofnunar, www.os.is. Nánari upplýsingar um styrki Orkusjóðs er að finna á vef Orkustofnunar en umsóknarfrestur er til 15. ágúst næstkomandi.
Ekki eftir neinu að bíða
Ljóst er að mjög gott tækifæri er fyrir bændur í ferðaþjónustu að skapa sér samkeppnisforskot með því að setja upp hleðslustöðvar um þessar mundir.
„Það þarf að þétta net hleðslustöðva um land allt til að greiða aðgang þeirra sem keyra um á rafmagnsbílum. Eftir því sem rafbílum fjölgar á vegum landsins þá verða tækifærin fleiri fyrir þá ferðaþjónustuaðila sem bjóða viðskiptavinum að hlaða bílinn yfir nótt eða að staldra við í styttri tíma. Það er ljóst að tækifærin liggja í loftinu og eru félagar Hey Iceland og Bændasamtakanna hvattir til að kynna sér málið betur og nýta sér þá styrki sem í boði eru þessa dagana,“ segir Berglind.
Kort og upplýsingar á vefnum
Upplýsingar um Hleðslu í hlaði og þá staði sem bjóða upp á rafhleðslu er að finna á vef Bændasamtakanna, bondi.is. Allnokkrir hleðslustaðir eru komnir á kortið á vefsíðunni plugshare.com þar sem rafbílanotendur fá upplýsingar um hleðslukosti. Á vefsíðu Hey Iceland, heyiceland.is, má finna alla gististaði innan þeirra vébanda sem eru með hleðslustöðvar fyrir rafbíla.