Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 mánaða.
Sílamávur
Mynd / Óskar Andri Víðisson
Fréttir 15. maí 2024

Sílamávur

Höfundur: Óskar Andri Víðisson

Sílamávur nam land fyrst upp úr 1930 og finnst nú um allt land. Hann er eini mávurinn sem er að öllu leyti farfugl. Hann kemur mjög snemma, fyrstu fuglarnir fara að sjást í lok febrúar. Hann er því fyrsti vorboðinn sem kemur til landsins. Þeir dvelja síðan við strendur Pýreneaskaga og NV-Afríku yfir veturinn. Hann er nokkuð líkur svartbak í útliti en bara mun minni. Svartbakur getur orðið tvöfalt þyngri þannig að stærðarmunurinn er talsverður. Hann verpir helst við ströndina en einnig nokkuð inn til landsins. Helsta fæðan hans eru sandsíli og smáfiskar sem hann finnur við ströndina eða í vötnum. Sílamávar leita síðan meira inn til landsins en aðrir mávar og jafnvel inn á hálendi. Þar finna þeir skordýr, orma og ber. Þeir eru einnig tækifærissinnaðir í fæðuvali og fara í hræ, úrgang, egg eða unga. Sílamávi hefur fjölgað mikið og er áætlað að stofninn sé um 40.000–50.000 varppör.

Skylt efni: fuglinn