Skemmdir á vegklæðingu víða um land
Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
Klæðning fauk í þó nokkrum mæli af vegum í óveðrinu sem gekk yfir landið á dögunum og skapaði hættu. Unnið hefur verið að því að merkja þá staði sem verst urðu úti en ljóst að þó nokkurn tíma tekur að koma slitlagi á veginn á ný. Það verður gert um leið og færi gefst með vorinu að því er fram kemur á vef Vegagerðarinnar.
Skemmdir urðu m.a. á Suðursvæði, annars vegar við Borg í Grímsnesi og hins vegar við Óseyrarbrú. Einnig fauk klæðing af innri öxl vinstri kants á Reykjanesbraut á tveimur stöðum. Skemmdir urðu á vegi í Brynjudal og í Hvalfjarðarbotni, einnig fauk klæðing af kafla á Eyrarfellsvegi við brú í Miðdal og skemmdir urðu á Þingvallavegi nálægt Grafningsvegi.
Á Norðursvæði hafa orðið töluverðar skemmdir á slitlögum í Skagafirði. Verulegar skemmdir urðu á Siglufjarðarvegi við Stafá, síðan bættist við einn blettur í Sléttuhlíð rétt sunnan við Keldur og annar á Sauðárkróksbraut við flugvöllinn. Á Norðausturvegi við gamla Öxarfjarðarheiðarveginn á Leirtjarnarhálsi urðu skemmdir á um 70 fermetra kafla. Smávægilegar skemmdir urðu á klæðningum í Húnavatnssýslum.