Skógurinn gegnir lykilhlutverki
Deild skógareigenda ætlar að leggja fram fimm tillögur á Búnaðarþingi. Helstu áherslur skógarbænda í stefnumörkun BÍ eru aukin sjálfbærni og að skógar og skjólbelti gegni þar lykilhlutverki.
Jóhann Gísli Jóhannsson, formaður Búgreinadeildar skógareigenda hjá Bændasamtökum Íslands og fulltrúi deildarinnar á Búnaðarþingi, segir að skógarbændur ætli að leggja fram fimm tillögur á Búnaðarþingi.
„Áhersluatriði okkar á þinginu eru að efla þurfi Kolefnisbrúna og að sjálfbærni sé höfð í öndvegi í landbúnaði og þar eru skógar í lykilhlutverki.“
Tillögur deildar skógarbænda
Tillögurnar eru að: 1) skora á stjórn BÍ að bjóða stjórnum deilda þóknun fyrir sín störf, 2) Búnaðarþing taki áskorun að hefja kolefnisjöfnun landbúnaðarins, 3) hvetja bændur til að koma upp skjólbeltum á bújörðum sínum, 4) leggja áherslu á skógrækt, skjólbeltarækt og landgræðslu í komandi búvörusamningum og að lokum 5) skora á að Bændasamtökin einfaldi inngönguferli í BÍ.
Ábyrg landnýting
Jóhann segir að aldrei hafi verið mikilvægara nú en að horfa til landnýtingar. „Treysta þarf jarðvegsauðlindina og tryggja sjálfbæra nýtingu lands sem meðal annars styður við þá matvælaframleiðslu sem hér fer fram. Mismunandi lausnir henta ólíkum landgerðum. Skógrækt er vitanlega auðlind framtíðarinnar, sem og landgræðsla, en einnig má horfa til endurheimtar votlendis þar sem við á.
Skjólbeltarækt kemur að góðu gagni til að auka uppskeru af ræktarlandi og spara þar með áburðarnotkun. Skógrækt er þegar orðin mikilvæg auðlind í íslenskum landbúnaði og gegnir til lengri tíma litið stóru hlutverki, bæði í kolefnisbúskap landsins og í timburframleiðslu.
Í búvörusamningum þarf að tryggja fjármagn til skógræktar, skjólbeltaræktunar og landgræðslu á bújörðum og hvata fyrir allar búgreinar til að vinna að kolefnishlutlausum landbúnaði sem allra fyrst.“