Skortur á gögnum til að fullreikna kolefnisspor
Í nýlegri skýrslu sem unnin var fyrir matvælaráðuneytið, um mat á kolefnisspori íslenskrar matvælaframleiðslu, kemur fram að ekki hafi verið hægt að fullreikna kolefnisspor allra helstu framleiðslugreinanna vegna skorts á gögnum.
Í skýrslunni eru einnig tillögur að aðferðum sem stjórnvöld geti notað, til gagnaöflunar og úrvinnslu, við mat á kolefnisspori matvælaframleiðslunnar.
Hvernig má draga úr óvissunni?
Skýrslan var unnin af Birnu Sigrúnu Hallsdóttur umhverfisverkfræðingi auk þess sem Stefán Gíslason hjá Environice kom að verkefninu.
Í inngangi er útskýrt að verkefnið hafi snúist um fimm meginþætti; skilgreina aðferðafræði við mat á kolefnissporinu, gera grein fyrir þeim gögnum sem þarf til að meta það, gera grein fyrir helstu áhrifaþáttum losunar gróðurhúsalofttegunda vegna matvælaframleiðslu, reikna losun helstu framleiðslugreina og gera grein fyrir óvissuþáttunum í útreikningum og hvernig megi draga úr óvissunni.
Mikilvægt hlutverk matvælageirans
Í inngangi segir einnig að landbúnaður sé mikil uppspretta gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu og loftslagsbreytingar hafi mikil og vaxandi áhrif á greinina. Um leið standi landbúnaður frammi fyrir þeirri áskorun að þurfa að standa undir matvælaframleiðslu fyrir hratt vaxandi mannfjölda í heiminum.
Matvælageirinn muni gegna mikilvægu hlutverki í fyrirsjáanlegri framtíð í því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, til að mynda með breyttri orkunotkun og bættri nýtingu náttúruauðlinda og aðfanga. Landeigendur margir hverjir hafi mikla möguleika á að draga úr losun frá landi og auka bindingu með aðgerðum á sviði landnotkunar.
Talsverð óvissa í niðurstöðum um kolefnisspor
Í niðurstöðum skýrslunnar um áætlað kolefnisspor íslenskra búgreina gætir talsverðar óvissu, en tekið er fram að líta beri á útreikningana sem fyrsta skref við það mat. Útreikningarnir hafi verið háðir þeim takmörkunum sem tiltæk gögn settu. Til að fá fyllilega marktækar og samanburðarhæfar niðurstöður um kolefnisspor helstu greina matvælaframleiðslunnar er mælst til þess að farið verði í mun ítarlegri gagnaöflun og greiningar en unnt var að ráðast í innan ramma verkefnisins. Þar á meðal varðandi losun vegna landnotkunar og uppskiptingu losunar á framleiðsluþætti og framleiðsluvörur.
Mælt er með að kolefnisspor sé reiknað út frá nægjanlegum fjölda framleiðenda í hverri búgrein, í stað þess að reikna það út frá áætluðum tölum á landsvísu eins og gert sé í skýrslunni. Matvælaframleiðsla geti verið mjög breytileg eftir framleiðendum, jafnvel innan sömu greinar. Þess vegna sé einfaldara að reikna kolefnisspor hjá einstökum framleiðendum en fyrir framleiðslugreinar í heild; meðal annars vegna þess að þannig sé hægt að afla réttari gagna um framleiðsluna, til dæmis raunverulega notkun ýmissa aðfanga og um meðhöndlun úrgangs.
Viðeigandi losunarstuðlar
Í samantekt skýrslunnar er bent á að afla þurfi margs konar gagna fyrir útreikninga á kolefnisspori, enda ráðist gæði útreikninga algerlega af þeim gögnum sem þeir byggja á. Einnig þurfi viðeigandi losunarstuðla, sem helst verði að vera opinberlega viðurkenndir.
Ef vel eigi að vera þurfi meðal annars að afla gagna um framleiðslu, fjölda búfjár ef við á, jafnvel eftir aldri og kyni, framleiðsluaðferðir, notkun aðfanga og hvaðan aðföngin koma, hvernig þau eru flutt á framleiðslustað, hvað sé gert við afföll og úrgang og svo framvegis.
Breytingar munu leiða til minnkunar
Þegar um landbúnaðarvörur er að ræða þurfi gjarnan einnig að afla gagna um landnotkun og breytingar á landnotkun. Veruleg óvissa sé enn varðandi losun frá landi og því er horft fram hjá áhrifum landnotkunar og breytinga á henni í skýrslunni. Þörf sé á að uppfæra kolefnissporsútreikningana þegar fyrir liggja niðurstöður úr átaksverkefni í tengslum við aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, sem snýr að bættu bókhaldi varðandi losun og bindingu vegna landnotkunar. Mikilvægt sé að gögn sem nýtt eru í kolefnissporsútreikninga séu samræmd og aðgengileg.
Skýrsluhöfundur bendir líka á að í nánustu framtíð verði ýmsar breytingar sem muni leiða til minnkunar á kolefnisspori matvælaframleiðslu; orkuskipti, útfösun HFC-kælimiðla, framþróun varðandi umbúðir, breyttar aðferðir við meðhöndlun úrgangs og væntanlegt átak við endurheimt vistkerfa og bindingu koldíoxíðs úr andrúmslofti með landgræðslu og skógrækt.