Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Sala mjólkurafurða hefur dregist saman í Covid-faraldrinum. Skyrsalan er farin að aukast á ný eftir töluverðan samdrátt í Covid-19. Þá hefur útflutningur á undanrennudufti aukist verulega á síðustu 12 mánuðum, eða um 60,9%, og um 46,7% á smjöri.
Sala mjólkurafurða hefur dregist saman í Covid-faraldrinum. Skyrsalan er farin að aukast á ný eftir töluverðan samdrátt í Covid-19. Þá hefur útflutningur á undanrennudufti aukist verulega á síðustu 12 mánuðum, eða um 60,9%, og um 46,7% á smjöri.
Fréttir 24. júní 2021

Skyrsalan hefur sveiflast í takti við þróun Covid-19 faraldursins

Höfundur: HKr.

Sala á mjólk og sýrðum mjólkur­­vörum dróst saman um 3,5% í maí og hafði þá dregist saman um 2,3% á 12 mánaða tímabili. Sala á skyri hefur samt verið að aukast á ný eftir samdrátt samhliða afléttingum á samkomu­takmörkunum vegna Covid-19.

Innvegin mjólk í maí var 13.570 tonn og 149.420 tonn yfir 12 mánaða tímabil, það er 2,6% samdráttur milli ára samkvæmt tölum Samtaka afurða­stöðva í mjólkuriðnaði (SAM).
Í heild námu seldar afurðir á 9.775 tonnum á próteingrunni og 11.044 tonnum á fitugrunni í maí.

Sala á mjólk og sýrðum mjólk­ur­vörum nam 2.969 tonnum í maí sem þýðir samdrátt í sölu á þessum vöruflokkum upp á 1 prósent í mánuðinum. Hins vegar seldust 37.668 tonn á síðustu 12 mánuðum, sem er 2,3% samdráttur milli ára. Af mjólkur- og undanrennudufti seldust 97 tonn í maí og 1.132 tonn á 12 mánaða tímabili, sem er um 3,4% samdráttur á milli ára.

Skyrsala í takti við þróun heimsfaraldurs

Athygli vekur að hlutfallslega hefur verið langmestur samdráttur í sölu á skyri á síðustu 12 mánuðum, eða -11,3%. Virðist sem Covid-19 faraldurinn hafi verið að hafa bein áhrif á skyrsöluna, m.a. vegna fækkunar ferðamanna. Var samdráttur í sölunni alveg fram í mars, en þá dróst salan saman um 3,1% og þá nam 12 mánaða samdrátturinn 12,5%.

Í apríl snerist þróunin við, en þá jókst salan um 2,7% á sama tíma og áhrifa tók að gæta af afléttingu takmarkana vegna Covid-19. Í maí jókst salan enn meira, eða um 4,2%, og má því væntanlega leiða líkum að því að skyrsalan taki talsverðan kipp í júní. Bjarni Ragnar Brynjólfsson hjá SAM tekur undir það og segir greinilegt að fjölgun ferðamanna til landsins sé farin að hafa áhrif.

Í heildarsölu á mjólk og sýrðum mjólkurafurðum vegur skyr samt ekki ýkja þungt, eða um 7,1%. Þannig seldust samtals 37.669 tonn af mjólk og sýrðum vörum á síðasta tólf mánaða tímabili, en 2.688 tonn af skyri.

Um 2,7% samdráttur í ostasölunni

Ostar vega næstmest í sölu mjólkurafurða á eftir mjólk, en af þeim voru seld 5.960 tonn á tólf mánaða tímabili. Salan í maí nam 475 tonnum. Dróst salan á ostum örlítið saman í maí, eða um 0,1% á móti 2,7% samdrætti yfir síðustu 12 mánuði. Það bætti þó talsvert meðaltalsstöðuna í ostasölunni að hún jókst um 9,8% í mars. Nokkrar birgðir eru ávallt í ostum vegna eðlis framleiðslunnar og námu þær í lok maí 2.367 tonnum og höfðu þá lækkað á milli mánaða um 37 tonn.

Rjómasalan í maí nam 234 tonnum og dróst þá lítillega saman, eða um 0,3%. Heildarsamdrátturinn í sölu á rjóma síðustu 12 mánuði nemur 1,7%.

Sala á viðbiti, þ.e. smjöri, smjörva og slíku, nam 178 tonnum í maí, eða jafn mikið og í apríl. Yfir 12 mánaða tímabil seldust 2.321 tonn af viðbiti, sem þýddi 2,8% samdrátt.

Útflutningur á dufti jókst verulega

Útflutningur á próteingrunni nam 4.332 tonnum í maí, sem er 1.735,9% meira en í maí 2020. Þá nam próteinútflutningurinn 30.462 tonnum á 12 mánaða tímabili og hefur aukist um 60,9% á heilu ári. Þarna er aðallega um undanrennuduft að ræða að sögn Bjarna Ragnars Brynjólfssonar. Birgðir dufts lækkuðu líka töluvert.

Útflutningur á fitugrunni var óverulegur í maí, eða 72 tonn, sem er samt 343,1% meira en í maí 2020. Þá nam útflutningurinn 7.723 tonnum yfir 12 mánaða tímabil og hafði þá aukist um 46,7% á tímabilinu. Aðallega er þetta útflutningur á smjöri. Birgðir voru 417 tonn í lok maí og höfðu minnkað um 292 tonn á milli ára þrátt fyrir samdrátt í sölu.

Mannelski og sjálfsöruggi gæðingafaðirinn
Fréttir 16. júlí 2024

Mannelski og sjálfsöruggi gæðingafaðirinn

Olil Amble og Bergur Jónsson á Syðri-Gegnishólum hafa náð einstökum árangri í hr...

Ráðuneytið svarar ESA um óvissuatriði
Fréttir 15. júlí 2024

Ráðuneytið svarar ESA um óvissuatriði

Matvælaráðuneytið segir í svari við fyrirspurn ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, að sa...

Farsæll áhugaræktandi
Fréttir 15. júlí 2024

Farsæll áhugaræktandi

Þrír synir undan heiðursverðlaunahryssunni Álöfu frá Ketilsstöðum komu fram á La...

Hundrað hesta setningarathöfn
Fréttir 12. júlí 2024

Hundrað hesta setningarathöfn

Setningarathöfn Landsmóts hestasmanna er alla jafna hátíðleg.

Til þess var leikurinn gerður
Fréttir 11. júlí 2024

Til þess var leikurinn gerður

Stjórn Búsældar hefur fyrir sitt leyti samþykkt söluna á Kjarnafæði Norðlenska t...

Skammur aðdragandi að sölunni
Fréttir 11. júlí 2024

Skammur aðdragandi að sölunni

Bræðurnir Eiður og Hreinn Gunnlaugssynir hafa sem áður segir samþykkt kauptilboð...

Kaup Skagfirðinga á Kjarnafæði Norðlenska
Fréttir 11. júlí 2024

Kaup Skagfirðinga á Kjarnafæði Norðlenska

Meginmarkmið kaupa Kaupfélags Skagfirðinga (KS) á Kjarnafæði Norðlenska (KN) er ...

Tilþrif á Landsmóti
Fréttir 11. júlí 2024

Tilþrif á Landsmóti

Enginn skortur var á glæsilegum tilþrifum stólpafáka sem komu fram í gæðingakepp...