Sláturfélag Suðurlands uppfærir afurðaverðskrá
Sláturfélag Suðurlands hefur gefið út nýja verðskrá yfir afurðaverð til sauðfjárbænda, en áður var gefin út verðskrá 4. september síðastliðinn. Samkvæmt nýju verðskránni hefur reiknað meðalverð fyrir dilka hækkað um 8,5 prósent frá sláturtíðinni 2019, en ekki um 6,7 prósent eins og fyrri útgáfa gerði ráð fyrir.
Uppfært meðalverð fyrir dilka er því 505 krónur á kílóið, sem er hið þriðja hæsta meðal sláturleyfishafa á eftir KS/SKVH (508 krónur) og Sláturfélag Vopnfirðinga (507 krónur). Verð fyrir fullorðið er óbreytt eða 121 krónur á kílóið, sem er tveimur prósentum lægra en lokaverð frá 2019.