Sleipnir hestaflutningar er valkostur fyrir þá sem vilja hámarka öryggi í flutningi
Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
„Viðtökur á þessum fyrstu vikum starfseminnar hafa verið framar vonum og ánægjulegt að finna hversu jákvæðir viðskiptavinir eru gagnvart þjónustunni,“ segir Ingibjörg Sigurðardóttir, sem ásamt manni sínum, Sólberg Loga Sigurbergssyni, stofnaði nýverið fyrirtækið Sleipnir hestaflutningar ehf.
Þau búa í Víðinesi 1 í Skagafirði. Sleipnir hestaflutningar býður upp á flutning á hrossum um land allt. Ingibjörg og Sólberg hafa áralanga reynslu af meðhöndlun og umhirðu hrossa og menntun á sviði hestamennsku, Sólberg frá Hvanneyri og Ingibjörg frá Hólum.
Ein til tvær ferðir í viku milli Norður- og Suðurlands
„Fólk er smátt og smátt að átta sig á að okkar þjónusta er öðruvísi valkostur fyrir hestaeigendur sem vilja hámarka öryggi sinna hesta meðan á flutningi stendur. Undanfarnar vikur hefur verið mikið um flutning á stóðhestum, m.a. á landsmót og svo á hryssum sem eru að fara undir stóðhesta. Núna eru svo að hefjast flutningar á hrossum sem eru að fara í eða koma úr hestaferðum,“ segir Ingibjörg.
Ingibjörg segir að farnar séu ein til tvær ferðir í viku á milli Norður- og Suðurlands auk ferða um land allt eftir samkomulagi.
Við flutninginn er notaður Dodge Ram 3500, 2018 árgerð og American spirit hestaflutningavagn sem hefur verið endurinnréttaður með það í huga að hámarka öryggi og vellíðan hrossa í flutningi.
Öryggi og vellíðan hrossa í fyrirrúmi
„Hugmyndin að stofnun þessa fyrirtækis kviknaði í fyrrahaust og við höfum verið að undirbúa þetta síðan þá,“ segir hún. Við flutninginn er notaður Dodge Ram 3500, 2018 árgerð og American spirit hestaflutningavagn sem hefur verið endurinnréttaður með það í huga að hámarka öryggi og vellíðan hrossa í flutningi. Hestarnir eru í einstaklingsrýmum. Milliverk er lokað niður í gólf til að lágmarka slysahættu. Hægt er að opna á milli hólfa svo folaldshryssur hafi tveggja hesta pláss. Fjórar myndavélar eru í vagninum sem tryggja að bílstjóri geti fylgst með öllum hestum meðan á flutningi stendur.