Smitvarnir áréttaðar
Í ljósi útbreiðslu bráðsmitandi afbrigðis af fuglaflensu H5N1 sá Eigenda- og ræktendafélag landnámshænsna (ERL) ástæðu til að senda á félagsmenn sína tilkynningu um að huga sérstaklega að smitvörnum.
Í henni kemur m.a. fram að hænsnaeigendur skuli varast að ganga um í kringum hænur sínar í sömu skóm og notast var við í nýlegri utanlandsferð. Einnig að gæta þess að villtir fuglar komist ekki í fóður eða vatn í hænsnahúsunum og ekki síst að taka ekki óþarfa áhættu með flutningi á eggjum eða öðrum búnaði milli landa.
Varúðarráðstafanir fyrst og fremst
„Undanfarin ár hafa reglulega komið upp varúðarráðstafanir vegna fuglaflensu, erlendis og hér heima. Því fylgja gjarnan ákveðnar takmarkanir eða varúðarráðstafanir, sem eru gefnar út af opinberum aðilum eins og Matvælastofnun. Við hjá ERL vitum mjög vel að eigendur hænsna í smáum hópum eiga oft erfitt með að framfylgja slíkum reglum í öllum smáatriðum, enda miðast slíkar reglur við aðbúnað og aðstæður í alifuglahúsum stórra alifuglabænda.
Það breytir því þó ekki að alltaf er gott að staldra við og horfa gagnrýnum augum á eigið verklag og aðstöðu. Það er akkúrat það sem við erum að hvetja eigendur landnámshænsna til að gera. Horfa til hvaða atriða þeir geti bætt sig varðandi smitvarnir og aðbúnað,“ segir Magnús Ingimarsson, ritari í stjórn ERL.
Sjúkdómastaðan er almennt mjög góð
Magnús segir að sjúkdómastaða í alifuglarækt sé almennt mjög góð á Íslandi. Hér séu fáir sjúkdómar í samanburði við það sem gerist í mörgum löndum í kringum okkur.
„Vegna þessarar góðu stöðu á Íslandi er því til mikils að vinna fyrir heilbrigði hænsnanna sem við eigum hér á landi að halda þessum sjúkdómum í lágmarki. Bæði fyrir heilbrigði hænsnanna og okkar sjálfra. Hvort sem um er að ræða landnámshænur eða stóru framleiðslustofnana hér á landi. Það er líka rétt að minnast á að fuglaflensan hefur lítil áhrif á fólk. Engin hætta er á neyslu afurða hænsna (egg/kjöt). Fyrst og fremst hefur hún áhrif á heilbrigði dýrsins,“ segir Magnús.
ERL var stofnað í nóvember 2003. Félagið er fyrir alla þá sem áhuga hafa á varðveislu íslensku landnámshænunnar og hænsnahaldi yfirleitt. Félagsskapurinn er góður vettvangur fyrir þá sem áhuga hafa á varðveislu íslensku búfjárkynjanna eða varðveislu gamalla norrænna búfjárstofna. Félagsmenn eru um 200 talsins.