Sólbakki
Núverandi ábúendur á Sólbakka, Sigríður Hjaltadóttir og Skúli Þór Sigurbjartsson, hófu búskap með foreldrum Skúla, þeim Sigrúnu Ólafsdóttur og Sigurbjarti Frímannssyni árið 1992.
Þau keyptu kýrnar og vélar árið 1995 og jörðina 1998. Sólbakki er nýbýli úr landi Þorkelshóls byggt upp af ömmu og afa Skúla, þeim Herdísi Sturludóttur og Ólafi Daníelssyni 1936.
Býli: Við Dalsá í Víðidal, mitt á milli Hvammstanga og Blönduóss.
Staðsett í sveit: Við Dalsá í Víðidal, mitt á milli Hvammstanga og Blönduóss.
Ábúendur: Skúli Þór Sigurbjartsson og Sigríður Hjaltadóttir.
Fjölskyldustærð (og gæludýra):
Tvö börn, Ólöf Rún Skúladóttir, 22ja ára verkfræðinemi við Háskóla Íslands, og Guðni Þór Skúlason, 19 ára nýútskrifaður húsasmiður frá VMA og verður á samningi fram á næsta vor þegar hann tekur sveinsprófið.Tveir hundar eru á bænum; Lukka, íslensk smalatík með ýmsum blöndum, og Lubbi, Yorkshire Terrier. Svo eru nokkrar fjósakisur og fimm hænur.
Stærð jarðar? Um 400 ha og af því 50 ha ræktaðir. Stunduð er kornrækt á leigujörð utar í dalnum.
Gerð bús? Blandað bú.
Fjöldi búfjár og tegundir? Á búinu eru um 30 mjólkandi kýr, allir kvígukálfar fara í eldi en nautkálfar eru seldir. Um 170 kindur eru á bænum sem foreldrar Skúla hugsa að mestu um, en þau heita Sigurbjartur Frímannsson og Sigrún Ólafsdóttir og eru fyrrverandi ábúendur á Sólbakka. Þau fluttu í Brún í Víðidal þegar við tókum við. Um 15 hross eru á bænum.
Hvernig gengur hefðbundinn vinnudagur fyrir sig á bænum?
Húsbóndinn á bænum vaknar klukkan 7.00, fær sér hressingu og fer út í fjós, mjólkar og gefur nautgripunum. Eftir morgunmat hefjast önnur bústörf, sem eru misjöfn eftir árstíðum. Húsfreyjan fer til vinnu utan bús. Á sumrin fara krakkarnir til vinnu en á veturna eru þau að heiman í skóla.
Skemmtilegustu/leiðinlegustu bústörfin? Öll bústörf eru skemmtileg en leiðinlegasta bústarfið er að bera tilbúinn áburð á túnin.
Hvernig sjáið þið búskapinn fyrir ykkur á jörðinni eftir 5 ár? Sonurinn mun byggja hátæknifjós og vélaskemmu innan fimm ára, bústofninn hefur stækkað um helming – að minnsta kosti nautgripirnir.
Hvaða skoðun hafið þið á félagsmálum bænda? Bændur þurfa að sinna félagsmálum af alúð og fá til þess kraftmikið fólk með skýra framtíðarsýn.
Hvernig mun íslenskum landbúnaði vegna í framtíðinni? Íslenskur landbúnaður stendur á tímamótum; verið er að stækka búin, taka í notkun nýja tækni, orkumálin eru í örri þróun og má þar nefna vindorku, metan auk þess sem jarðhiti er nýttur á fleiri stöðum. Leggja þarf ljósleiðara um sveitir landsins til að auka fjölbreytni auk þess sem nútímabúskapur kallar á hraðara net. Íslenskar landbúnaðarvörur eru einstakar á heimsvísu, vegna hreinleika þeirra, lítillar efnanotkunar svo sem áburðar og skordýraeiturs, auk hormónagjafa, við erum þegar farin að minnka lyfjagjafir eins og penisillín o.fl. Þegar útlendingarnir átta sig á því megum við Íslendingar fara að vara okkur.
Hvar teljið þið að helstu tækifærin séu í útflutningi íslenskra búvara? Ef við upplýsum útlendinga um hreinleika vörunnar, sem við getum gert ef íslenskir bændur fá vistvæna vottun, verður barist um vöruna. Mikil vakning hefur verið erlendis fyrir óhollustu við framleiðslu landbúnaðarvara og lífrænar vörur verða sífellt algengari.
Hvað er alltaf til í ísskápnum?
Mjólk úr fjósinu okkar, heimareykt hangikjöt út á flatkökurnar og heimagerð jógúrt.
Hver er vinsælasti maturinn á heimilinu? Lambahryggur eða lambalæri, alltaf þegar krakkarnir koma heim í frí er eldað lambakjöt, grillað, steikt, moðsoðið, bara namm hvernig sem það er eldað.
Eftirminnilegasta atvikið við bústörfin? Miklar breytingar urðu þegar við breyttum fjárhúsunum úr görðum í gjafagrindur auk þess sem búið var til vinnurými fyrir fjárrag. Einnig varð mikil breyting þegar settur var upp mjólkurtankur með sjálfvirkri þvottavél. Mikil breyting hefur verið á heyskap á þessum tíma sem við höfum búið, með tilkomu rúlluheyskapar en húsfreyjan saknar þó gamla Dodda sem notaður var við að rifja en hann var Deutz með veltigrind, töðulyktin var svo dásamleg, en oft þurfti að vera í kuldagalla við að rifja.