Staða lundastofnsins fer batnandi
Erpur Snær Hansen, líffræðingur hjá Náttúrustofu Suðurlands, hefur haldið utan um tölur um afkomu lunda og fleiri sjófuglategunda við landið. Hann segir að í heild sé afkoma lundans hér við land undir meðallagi þótt staðan fari batnandi og geti verið mjög góð á einstökum svæðum á Vestfjörðum og norðanlands.
Erpur segir að farið sé í tvö röll með talningu á sumrin. Þar er farið tvo hringi í kringum landið í tólf lundabyggðir. Þegar Bændablaðið hafði samband við hann á þriðjudag í síðustu viku var verið að klára talningu í Stórhöfða í Vestmannaeyjum.
„Í heildina er þetta svipað og undanfarin fimm ár. Ástandið er best fyrir norðan þótt við segjum ekki að það sé gott. Ábúðin, eða það hlutfall af holum sem orpið er í, hefur verið að aukast fyrir norðan hægt og bítandi og sjaldan eða aldrei verið eins hátt og í ár. Þessi varpárangur er samt eins og hann gerist lélegastur á Bretlandseyjum og teldist því rétt undir meðallagi í því samhengi.
Við Suður- og Vesturland gengur ábúðin mjög illa og hefur verið 20% lægri en venja er undanfarin fimm ár. Í Eyjum er hún um 56% á meðan hún er að meðaltali yfir 70% fyrir norðan,“ segir Erpur. „Lundinn hefur þó ekki enn afrækt holurnar hér í Eyjum sem eru góðar fréttir. Árið 2011 skildi lundinn t.d. eftir um 80% af eggjunum.“
Eins og fram kom í samtali við Salvar Baldursson var hún um 90% þetta vorið í Vigur sem er með því besta sem gerist. Segir Erpur að ábúðin hafi líka verið mjög góð í Drangey í Skagafirði.
Uppgangur á Austurlandi
„Góðu fréttirnar eru að það er búinn að vera uppgangur á Austurlandi frá 2012.“
Þann 26. júní var farið í talningu í Hafnarhólma á Borgarfirði eystri. Þar var ábúðin 92% og 68% höfðu klakist þegar skoðað var.
„Það er óvenjulegt núna að í Hafnarhólma var lundinn fyrstur til að klekja út ungum, en venjulega er hann fyrstur til fyrir norðan. Þar er síli og loðna uppistaðan í fæðunni, en sílið hefur þó verið á hægri niðurleið fyrir austan á meðan loðnan fer vaxandi þótt hún eigi það til að hverfa sum árin. Það var mjög mikið af loðnu í fyrra en hún var bara svo smá að það hefur ekki skilað nægu æti til að ala upp ungana. Það verður gaman að sjá árangurinn í Papey en þar er mjög stórt varp, eða um 150 þúsund pör, eða álíka og í Skrúð.“
Lítið hefur verið um síli við Suðurströndina og Vesturland undanfarin ár, en vart hefur orðið við aukningu á sama tíma í sílastofnunum við Norðurland. Hafa Erpur og hans menn vel náð að greina fæðuöflun fuglanna með myndatökum. Segir hann að umpólun virðist hafa verið í framboði á síli í fæðu fuglanna við Norðurland.
Þann 28. júní var skoðað í Dyrhólaey við Suðurströndina, en þar reyndist ábúðin vera tæplega 64% svo munurinn eftir landsvæðum er því mikill.
Sterkt samhengi við sjávarhita
Í samantekt Erps um lundaveiðar í háf í Vestmannaeyjum sem spannar yfir 134 ár, kemur greinilega fram samspil afkomu sjófugla við hitastig í sjónum. Þarna er um að ræða lengstu samfelldu veiðisögu fyrir sjófugla í heiminum.
Segir Erpur að slök staða lundastofnsins sé ekkert einsdæmi því sama eigi við um aðra sjófugla sem lifi á síli og loðnu. Hækkandi vetrarhiti í sjónum frá 1996 virðist hafa slæm áhrif á sílið við Suðurland. Loðnan hafi sömuleiðis hörfað undan hitanum til Suðaustur-Grænlands og hrefnustofninn hafi að stærstum hluta fylgt henni eftir að mati sérfræðinga. Úr þessu verður væntanlega skorið í stórri hvalatalningu sem fram fer nú í sumar.
Fá upplýsingar um vetursetu fuglanna
„Við höfum verið að setja staðsetningartæki á nokkrar tegundir fugla eða svokallaða dægurrita undanfarin ár og höfum fengið töluvert af niðurstöðum. Fuglar norðan- og vestanlands virðast eiga sér vetrarstöðvar á Labradorhafi milli Grænlands og Nýfundnalands. Hins vegar heldur meginhluti fuglanna á sunnanverðu landinu frá Papey að Vestmannaeyjum sig yfir Atlantshafshryggnum, suður af Charlie-Gibbssvæðinu við Grænland. Ungfuglinn virðist þó samkvæmt merkingum halda sig nær landi.“
Stuttnefjustofninn að hrynja
„Stóru fréttirnar í þessu er að helmingur af okkar stuttnefjustofni virðist eiga sér vetursetu við vestanvert Grænland. Þar er hins vegar verið að veiða um 65 þúsund stuttnefjur á veturna sem er væntanlega að helmingshluta úr okkar stofni. Það hjálpar ekki til við að halda þeim stofni við sem hefur verið á niðurleið mun lengur en lundinn. Þegar fuglinum gengur svona illa eins og verið hefur undanfarin ár, þá eru þessar veiðar Grænlendinga algjört kjaftshögg. Hér hafa veiðar dregist mjög saman eftir að Svandís Svavarsdóttir stytti veiðitímann og það hefur haft mikið að segja. Stuttnefjan á í miklum vanda og stofninn er hreinlega að hrynja,“ segir Erpur.