Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Unnur Brá Konráðsdóttir, Helga Ragna Pálsdóttir, varaformaður Sambands garðyrkjubænda, Kristján Þór Júlíusson, Bjarni Benediktsson og Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands.
Unnur Brá Konráðsdóttir, Helga Ragna Pálsdóttir, varaformaður Sambands garðyrkjubænda, Kristján Þór Júlíusson, Bjarni Benediktsson og Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands.
Mynd / TB
Fréttir 14. maí 2020

Stefna á að auka framleiðslu á grænmeti um 25 prósent á næstu þremur árum

Höfundur: smh

Skrifað var undir samkomulag um endurskoðun á samningi um starfsskilyrði garðyrkjubænda í morgun. Í samkomulaginu felst meðal annars að stefnt verður á 25 prósenta aukningu á framleiðslu á íslensku grænmeti á næstu þremur árum. Fjölbreytni ræktunar grænmetis mun aukast og stuðningur við niðurgreiðslu flutnings- og dreifikostnað rafmagns verður aukinnn og fyrirkomulag þess einfaldað.

Þá verður fjármagn til aðlögunar að lífrænum framleiðsluháttum aukið og stefnt verður að því að garðyrkjan verði að fullu kolefnisjöfnuð árið 2040.

Fulltrúar Bændasamtaka Íslands, Sambands garðyrkjubænda og stjórnvalda skrifuðu undir samkomulagið, sem sem verður einn af fjórum búvörusamningum.

Fjármagn til garðyrkjusamningsins aukið um 200 milljónir

Í tilkynningu frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu kemur fram að markmið samkomulagsins sé meðal annars að stuðla að framþróun og nýsköpun í garðyrkjunni með áherslu á aðgerðir í loftslagsmálum. Við næstu endurskoðun samningsins árið 2023 er markmiðið að framleiðsla á íslensku grænmeti hafi aukist um 25 prósent, miðað við meðalframleiðslu áranna 2017 til 2019, meðal annars í því skyni að auka markaðshlutdeild innlendrar framleiðslu. Samkomulagið gildir út árið 2026.

„Auknir fjármunir verða lagðir í garðyrkjusamninginn sem nema 200 milljónum króna á ári. Aukningin kemur til framkvæmda strax á þessu ári. Þeir nýtast m.a. til beingreiðslna vegna raforkukaupa, aðgerða í loftslagsmálum, þróunarverkefna og til fjölbreyttari ræktunar á grænmeti hér á landi,“ segir í tilkynningunni.

Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður samninganefndar ríkisins, Helga Ragna Pálsdóttir, varaformaður Sambands garðyrkjubænda og Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Garðyrkjan verði kolefnisjöfnuð

Ásamt því að íslensk garðyrkja verður að fullu kolefnisjöfnuð árið 2040 er stefnt að því að allar afurðir frá íslenskum garðyrkjubændum verði vottaðar sem kolefnishlutlausar fyrir þann tíma. Þetta verði meðal annars gert með því að byggja upp þekkingu á losun og bindingu kolefnis, vinna að bættri meðhöndlun og nýtingu aðfanga og áburðar, minni sóun, markvissri jarðrækt, aukinni sjálfbærni og öðrum þeim aðgerðum er miða að því að kolefnisjafna búskap. Auka þurfi beina ráðgjöf og fræðslu til bænda um loftslagsmál og skoða á innleiðingu fjárhagslegra hvata fyrir íslenska garðyrkju til að ná enn frekari árangri í að auka bindingu.

Beingreiðslur vegna flutnings- og dreifingarkostnaðar raforku

„Fyrirkomulagi á niðurgreiðslum á raforku verður breytt með þeim hætti að ylræktendum verða tryggðar beingreiðslur vegna lýsingar í stað niðurgreiðslu kostnaðar. Þetta er gert til þess að stuðla að hagfelldari starfsskilyrðum greinarinnar. Hámarksstuðningur beingreiðslna vegna lýsingar á hvern framleiðenda verður mest 17,5% af þeirri heildarfjárhæð sem til ráðstöfunar er á viðkomandi rekstrarári. Fjármunir til beingreiðslna vegna flutnings- og dreifingarkostnaðar raforku verða 375 milljónir króna á árinu 2020. 

Fjölbreyttari ræktun nýtur beingreiðslna

Við samninginn bætist nýr flokkur beingreiðslna vegna ræktunar á öðrum grænmetistegundum en gúrkum, paprikum og tómötum. Heildarfjárhæð verður 37 milljónir króna á ári. Greiðslurnar hefjast strax á þessu ári.

Veittir verða sérstakir jarðræktarstyrkir til útiræktunar á grænmeti og garðávöxtum til manneldis. Ekki er greitt framlag fyrir ræktun undir einum hektara. Þar er meðal annars um að ræða allar afurðir til manneldis sem vaxa neðanjarðar eins og kartöflur, rófur, gulrætur, næpur og aðrar sambærilegar afurðir. Afurðir ræktaðar ofanjarðar, s.s. blómkál, hvítkál, kínakál, rauðkál og aðrar sambærilegar afurðir geta einnig notið jarðræktarstyrkja en þar verður upphæð fyrir hvern ræktaðan hektara hærri, þar sem kostnaður við þá framleiðslu er umtalsvert meiri. Framlög til jarðræktarstyrkja verða 70 milljónir króna á ári.

Rannsókna-, tilrauna- og þróunarstarf

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið greiðir þróunarfé til garðyrkjuverkefna. Markmið þess er að styðja við fræðslu, rannsóknir, leiðbeiningarþjónustu og framþróun í garðyrkju. Styrkhæf eru; ráðgjafarverkefni, kynningarverkefni, rannsókna- eða tilraunaverkefni, vöruþróunarverkefni, verkefni sem miða að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og endurmenntunarverkefni.

Lífræn framleiðsla

Greidd verða aukin framlög til aðlögunar að lífrænum framleiðsluháttum í garðyrkju. Markmiðið er að aðstoða framleiðendur við að uppfylla þær kröfur sem lífræn garðyrkjuframleiðsla hefur í för með sér og auka framboð slíkra vara á markaði.

Gagnagrunnur um matvælaframleiðslu

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið stefnir að því að setja á fót gagnagrunn og mælaborð sem heldur utan um upplýsingar um matvælaframleiðslu á sviði landbúnaðar á Íslandi, þ.m.t. garðyrkju. Nauðsynlegt er að hafa yfirsýn yfir framleiðslu, sölu og birgðir í landinu m.a. vegna fæðuöryggis og slíkur gagnagrunnur eykur auk þess gagnsæi. Upplýsingarnar munu endurspegla birgðastöðu innlendra garðyrkjuafurða og verða uppfærðar með reglulegu millibili innan hvers árs.

Tollvernd

Samningsaðilar munu á árinu 2020 láta greina hagkvæmni þess að taka upp uppskerutengdar greiðslur vegna útiræktaðra garðyrkjuafurða og kartaflna gegn mögulegri niðurfellingu og/eða lækkun tollverndar. Niðurstöður skulu metnar við endurskoðun samningsins árið 2023,“ segir í tilkynningunni.

Skapa forsendur til að auka framleiðslu

Krisján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Í tilkynningunni er haft eftir Kristjáni Þór Júlíussyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að samningurinn marki tímamót fyrir íslenska garðyrkju. „Stærsta breytingin er sú að við erum að stórauka framlög til að niðurgreiða flutnings- og dreifingarkostnað rafmagns og auka við jarðræktarstyrki til að stuðla að fjölbreyttari ræktun á grænmeti hér á landi. Með því erum við að skapa forsendur til að auka framleiðslu á íslensku grænmeti um 25% á næstu þremur árum og auka þannig markaðshlutdeild innlendrar framleiðslu. Til viðbótar eru í samkomulaginu fjölmörg atriði sem munu styrkja íslenska garðyrkju og allan íslenskan landbúnað til lengri tíma, m.a. með því að setja á fót mælaborð fyrir landbúnaðinn. Samantekið er ég afskaplega stoltur og ánægður með þetta samkomulag. Við erum að fjárfesta í framtíðinni og fanga þau tækifæri sem við okkur blasa í íslenskri garðyrkju.“

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, og Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands.

Mikil sóknarfæri í garðyrkju

Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands, segir af þessu tilefni að fagnaðarefni sé að búið sé að ljúka endurskoðun garðyrkjusamningsins á þessum undarlegu tímum. „Mikill skilningur er meðal neytenda að styrkja íslenska framleiðslu. Í samningnum vega þyngst áhrif hans á útiræktunina. Við sem framleiðendur höfum haft miklar áhyggjur af þeirri framleiðslu undanfarin ár, þar sem of fáir bændur hafa séð sér hag í að stunda hana. Hart hefur verið sótt að framleiðslunni á grundvelli afnáms tolla og takmarkaðs stuðnings. Sá skilningur samningsaðila og þær áherslur sem lúta að tollvernd íslenskrar garðyrkju, lífrænni ræktun og  umhverfismálum eru jákvæðar. Mikil sóknarfæri eru í garðyrkju almennt og ekki síst hér á okkar hreina landi þar sem við njótum þeirra forréttinda að vökva okkar afurðir með hreinu drykkjarvatni. Eins og segir í slagorðum garðyrkjubænda: „Íslenskt grænmeti, þú veist hvaðan það kemur“ og „blóm gera kraftaverk“.“

Samkomulagið var undirritað að hálfu Bændasamtaka Íslands og Sambands garðyrkjubænda. Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra, undirrituðu samninginn fyrir hönd stjórnvalda með fyrirvara um samþykki Alþingis á nauðsynlegum lagabreytingum. Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands, skrifaði undir fyrir hönd samtakanna, Helga Ragna Pálsdóttir, varaformaður Sambands garðyrkjubænda, fyrir hönd garðyrkjubænda og Unnur Brá Konráðsdóttir sem formaður samninganefndar ríkisins.

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...