Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Sjókví í Arnarfirði. Stærð sjókvíar er á milli 120 til 200 metrar að ummáli og eru milli fimm til sextán kvíar á hverju eldissvæði.
Sjókví í Arnarfirði. Stærð sjókvíar er á milli 120 til 200 metrar að ummáli og eru milli fimm til sextán kvíar á hverju eldissvæði.
Mynd / VH
Fréttir 26. október 2022

Stefnt á aukið laxeldi í sjó

Höfundur: Vilmundur Hansen

Vöxtur laxeldisfyrirtækisins Arnarlax ehf. á Bíldudal hefur verið ör. Laxeldi í sjó er umdeilt og margir leggjast alfarið gegn því. Starfsemi fyrirtækisins hefur haft góð samfélagsleg áhrif á Bíldudal og bæjarfélagið er í vexti þrátt fyrir að hafa verið flokkað sem brothætt byggð fyrir tæpum áratug. Bændablaðið heimsótti Arnarlax.

Þeir sem eru á móti eldinu segja það hafa slæm áhrif á umhverfið vegna mengunar og hættu á slysasleppingu eldislaxa sem geti mengað erfðamengi villtra laxastofna. Auk þess sem þeir segja að eldið samræmist ekki dýravelferð og að laxalús sé mikið vandamál.

Þeir sem hlynntir eru eldinu segja mengun frá því vera litla og allt gert til að draga úr henni og að það framleiði hollan mat, auki atvinnuuppbyggingu og skapi miklar tekjur.

Heildarvelta Arnarlax árið 2021 var um 13 milljarðar króna og greiddi fyrirtækið tæplega milljarð í skatta og opinber gjöld fyrir sama ár.

Arnarlax er stærsti framleiðandi eldislax á Íslandi. Höfuðstöðvar Arnarlax eru á Bíldudal og hefur fyrirtækið leyfi fyrir hámarkslífmassa í sjó upp á 25.200 tonn af eldislaxi á sjö svæðum í þremur fjörðum Arnar-, Patreks- og Tálknafirði. Framleiðslugeta vinnsluhússins á Bíldudal er aftur á móti 30 þúsund tonn og geta fyrirtækisins til að auka starfsemi sína töluverð.

Árið 2020 lagði Arnarlax fram frummatsskýrslu um sjókvíaeldi í Ísafjarðardjúpi fyrir framleiðslu á 10.000 tonnum af laxi á ári. Gert er ráð fyrir að eldiskvíar verði staðsettar á þremur eldissvæðum, við Óshlíð, Drangsvík og Eyjahlíð, sú umsókn er enn í ferli.

Framleiðsla Arnarlax árið 2021 var um 11,5 þúsund tonn og stefnir í um 16 þúsund tonn af eldislaxi á árinu 2022 og er hann nánast allur fluttur úr landi.

Starfsleyfi

Samkvæmt starfsleyfum Umhverfisstofnunar er Arnarlaxi heimilt að stunda kynslóðaskipt eldi í sjókvíum í fjórum fjörðum; Arnarfirði, Fossfirði í Arnarfirði, Patreksfirði og Tálknafirði. Í dag eru sjö virk eldissvæði og fjögur til viðbótar sem eru óvirk en leyfi er fyrir. Í Patreksfirði er eldissvæðið Eyri, í Tálknafirði eldissvæðið Laugardalur og í Arnarfirði eldissvæðin Haganes, Hringsdalur, Steinanes og Tjaldanes og svo svæðið Foss í Fossfirði. Samkvæmt leyfi skulu eldissvæðin hvíld í að minnsta kosti níutíu daga milli kynslóða.

Umhverfisstofnun hefur eftirlit með starfsemi rekstraraðila í samræmi við lög um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerð um losun frá fyrirtækinu og mengunarvarnaeftirlit.

Seiðeldi á landi.

Ferli eldisins á landi

Seiðaeldi Arnarlax er á Gileyri í Tálknafirði, Hallkelshólum á Borg í Grímsnesi og í Þorlákshöfn. Á síðasta ári keypti fyrirtækið seiðaframleiðslu Fjallableikju að Hallkelshólum í Grímsnesi sem nú hefur fengið nafnið Fjallalax og eldisstöðina að Laxabraut 5 í Þorlákshöfn. Á þessu ári keypti Arnarlax einnig allt hlutafé í eldisstöðinni Ísþór og er eini eigandi stöðvarinnar.

Hrogn eru klakin og seiði alin að Hallkelshólum og verða flutt þaðan að seiðaeldisstöðinni í Þorlákshöfn. Þar eru seiðin alin áfram áður en þau eru flutt með brunnbát í sjókvíaeldisstöðvar fyrirtækisins.

Seiði í landeldi sem eiga stutt í að vera flutt í sjókvíar.

Það tekur hrogn eldislaxa að jafnaði sextíu daga að klekjast út við 8 oC í klakskáp. Við klak eru seiðin með kviðpoka sem sér þeim fyrir næringu fyrstu vikurnar og vöxtur þeirra háður umhverfisaðstæðum.

Eftir að forði kviðpokans er búinn eru seiðin flutt í ferskvatnseldistanka og fóðrun hefst. Hitastigið í tönkunum er 10 °C til 14 °C og lýsing dempuð allan sólarhringinn. Seiðin eru í þessum tönkum í um það bil sex vikur en þá eru þau flokkuð eftir stærð og bólusett við kýlaveiki, kýlaveikibróður, vetrarsárum og vibríuveiki og dælt til áframeldis í stærri eldistanka.

Um það leyti sem laxaseiði ná þeim þroska að geta lifað í sjó verður kviður þeirra silfurlitur, bakið blágrænt og tálkn þeirra breytast.

Í næsta skrefi er seiðunum dælt um borð í brunnbát og þau flutt í sjókvíar til eldis í sjó. Stærð seiðanna við flutning í sjókvíar er milli 90 og 500 grömm.

Sjókvíar

Stærð sjókvíar er á milli 120 til 200 metrar að ummáli og eru milli fimm til sextán kvíar á hverju eldissvæði. Þvermál kvíanna er milli 38 til 64 metrar og rúmmál þeirra milli 22 til 80 þúsund rúmmetrar. Kvíarnar eru kirfilega festar og eiga að þola allt að sjö metra ölduhæð.

Arnarlax notar koparoxíð, nánar tiltekið vöruna Netwax ni3, sem ásætuvörn á netapoka samkvæmt undanþágu Umhverfisstofnunar en efnið er í samþykktarferli hjá Evrópusambandinu. Koparoxíð er samþykkt utan Evrópusambandsins og koparoxíð sem aðalinnihaldsefnið í Netwax ni3 er samþykkt innan þess.

Landvernd, Icelandic Wildlife Fund og samtökin Laxinn lifi hafa gert athugasemdir við leyfisveitinguna. Í umsögn Hafrannsóknastofnunar til Skipulagsstofnunar sagði að 80% af koparnum losni út í vatnið. „Þó svo að kopar safnist ekki upp í lífkeðjum þá virkar hann staðbundið sem eitur á til dæmis þörunga og ýmsa hryggleysingja með því að hafa neikvæð áhrif á lífeðlisfræðilega ferla. Kopar virkar sem ásætuvörn einmitt vegna þess að hann er eitraður þessum lífverum“, segir í umsögninni.

Eldi í sjó og slátrun

Eftir að seiðin koma í kvíarnar eru þau fóðruð í 16 til 24 mánuði áður en þau ná sláturstærð sem er í kringum sex til sjö kíló. Fóðrunin fer fram í gegnum fljótandi fóðurpramma sem er við hvert eldissvæði og er fóðrun stýrt frá Bíldudal.

Fóðurleiðslur úr þjónustuskipinu út í kvíarnar.

Eldið er vaktað nánast allan sólarhringinn með myndavélum og nemum sem tengdir eru stjórnstöðinni á Bíldudal og brugðist er við öllum frávikum eins fljótt og hægt er.

Þegar sláturstærð er náð er eldislaxinum dælt um borð í brunnbát sem flytur þá í sjó til hafnar og þar er fiskinum dælt inn til vinnslu þar sem hann er dauðrotaður og blóðgaður. Eftir það er hann slægður og honum pakkað heilum í ís til útflutnings. Laxinn er ofurkældur, Sub-Chilled, með íslenskri tækni og geymsluþol hans því talsvert meira en ella.

Norska brunnskipið Ronja Carrier landar fullri lest af eldislaxi úr sjókví í Arnarfirði.

Víkingur Gunnarsson, verkefnastjóri hjá Arnarlax.
Slysasleppingar og mengun

Víkingur Gunnarsson segir að vöktun á kvíunum sé mikil og regluleg. „Við erum með köfunarþjónustu sem notast við tæki sem yfirfer netapokana reglulega og ef eitthvað virðist óeðlilegt eru sendir kafarar til að skoða ástand þeirra og lagfæra ef það þarf.“ Hann segir einnig að oft sé talað um mikla mengun af völdum eldisins en þar sem svæðin séu hvíld í þrjá mánuði á milli kynslóða sýni mælingar á botnseti undir kvíunum og í kringum þær að hún er lítil og að botnlífið jafni sig að mestu milli kynslóða.

Bjørn Hembre forstjóri segir að Arnarlax sé að skoða möguleika á að gera eldislaxinn ófrjóan og koma þannig í veg fyrir að fiskur sem sleppur úr eldi geti leitt til smitunar í erfðamengi villtra laxastofna. „Í dag er ekki hægt að gera laxinn ófrjóan nema með aðferðum sem draga úr gæðum. Við fylgjumst vel með rannsóknum á þessu sviði og aðferð sem felst í því að setja ákveðinn þrýsting á hrognin á ákveðnu þroskastigi lofar góðu.“

Fyrirtækið er einnig að skoða möguleika til að vinna lífrænan úrgang frá seiðaeldisstöðvum sínum á landi og vinna hann í lífrænan áburð sem gæti hentað bændum, landgræðslu eða til skógræktar.

Laxalús þekkt vandamál

Víkingur segir að laxalús sé þekkt vandamál í sjókvíaeldi og beitt sé fleiri en einni aðferð í baráttunni við hana. „Í sjóeldinu er gefið fóður sem kallast Slice Vet og inniheldur Emamektin sem drepur lúsina. Við notum einnig efni sem kallast Alpha Max (deltametrin) sem er blandað í mjög litlu magni saman við sjó og sett í kvíarnar og kemur í veg fyrir að lúsin fjölgi sér.“

Arnarlax er með ASC vottun og samkvæmt henni má fyrirtækið lúsameðhöndla hverja eldiskynslóð þrisvar sinnum með efnunum. Til þessa hefur fyrirtækið ekki enn þurft að fullnýta meðferðir samkvæmt staðlinum. Notkun efnanna hefur verið gagnrýnd af umhverfissamtökum hér á landi og bent á að samkvæmt skoskri rannsókn finnist Emamektin í 97% skeldýra á þeim stað þar sem eitrið hefur verið notað og að það hafi slæm áhrif á líffræðilegan fjölbreytileika.

Ferskur eldislax tilbúinn til útflutnings.

Á heimasíðu Bellons, sem er fyrirtæki sem sérhæfir sig í rannsóknum tengdum umhverfismálum og er með aðsetur í Noregi, segir: Að tilraunir á rannsóknastofu sýni að eftir tíu daga í 10 oC heitum sjó er undir 10% af efninu enn þá virkt og innan við 2% eftir 181 dag. Þar segir einnig að sýni tekin úr botnseti undir eldiskvíum sýni að helmingunartími efnisins sé 140 dagar og að 90% þess sé horfið á innan við ári. Auk þess að drepa laxalýs er efnið einnig banvænt fyrir krabbadýr og rækjur.

Rannsóknir á Emamektin sýna að efnið er talsvert lengi virkt í umhverfinu en að það eyðist fljótt úr holdi fiska.

„Við erum einnig með það sem kallast lúsapils umhverfis kvíarnar sem eiga að koma í veg fyrir að lúsin sem heldur sig í efri sjávarlögum komist inn í þær. Auk þess erum við með hrognkelsi, frá Benchmark á Íslandi, í sjókvíunum en þær éta lýsnar og því fyrirbyggjandi leið til að koma í veg fyrir að lúsin setjist á laxinn.

Lúsapilsin og hrognkelsi eru mikilvægustu fyrirbyggjandi aðgerðirnar og notkun. Arnarlax er að skoða enn umhverfisvænni leiðir til að stemma stigu við laxalús en það er laser-búnaður sem bæði telur lýsnar og drepur þær.

Markaðsmál

Lax er vinsæll matfiskur og sagður hollur vegna þess að hann inniheldur mikið af Omega-3-fitusýrum. Hann er soðinn, steiktur og grillaður en einnig reyktur eða grafinn. Hann er vinsæll hrár sem sashimi.

Árið 2021 framleiddi Arnarlax 4,5 milljón seiði og 11.500 tonn af eldislaxi. Fyrirtækið er með um 200 starfsmenn sem flestir eru staðsettir á Bíldudal og nágrenni. Tekjur félagsins árið 2021 af eldislaxi voru rúmar 90 milljón evra, eða rúmir 1,2 milljarðar íslenskar krónur á núverandi gengi. Eignir á efnahagsreikningi voru bókfærðar á 16,7 milljarða króna og skuldlaus eign var 8,2 milljarðar króna. Fyrirtækið greiddi um einn og hálfan milljarð í laun árið 2021.

Uppbygging á Bíldudal

Arnarlax hóf starfsemi árið 2009 og fyrstu 500 þúsund seiðin voru sett í kvíar árið 2014. Norska fyrirtækið SalMar keypti hlut í Arnarlaxi 2015 og jók hlut sinn í yfir 50% árið 2019. Sama ár var Arnarlax skráð á markað í Osló.

Stjórnstöð Arnarlax á Bíldudal. Fjórar svona tölvustöðvar sjá um vöktun og stjórna fóðrum í öllum sjókvíum fyrirtækisins.

Fyrstu afurðir Arnarlax voru sendar á markað 2016 og sama ár keypti það Fjarðalax og fékk leyfi til að auka framleiðslu sína í 10.000 tonn. Árið 2021 yfirtók það tvær seiðaeldisstöðvar á Suðurlandi, aðra í Þorlákshöfn og hina á Hallkelshólum í Grímsnesi.

Um það leyti sem Arnarlax var sett á stofn var atvinnustarfsemi og byggð á Bíldudal á undanhaldi og bæjarfélagið á mörkum þess að vera flokkað sem brothætt byggð og flokkað sem slík árið 2013. Atvinnutækifæri voru fá, nýbyggingar engar og fólksfækkun mikil. Hröð uppbygging fyrirtækisins hefur haft í för með sér mikla atvinnuuppbyggingu í bæjarfélaginu og nágrenni þess.
Atvinnutækifærum hefur fjölgað og fólk er aftur farið að flytja á Bíldudal og nágrannabyggðalög.

Í dag eru þar matsölustaður, hótel og söfn á Bíldudal. Að sögn Gísla Ægis Ágústssonar, sem rekur veitingahúsið og krambúðina Vegamót á Bíldudal, væri útilokað að reka veitingasölu þar ef fiskeldisins nyti ekki við.
Auk þess sem margskonar önnur þjónustustarfsemi hefur myndast í kringum starfsemi Arnarlax.

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...