Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Valgerður Kristjánsdóttir Mýrum 3 var meðal aðalfundarfulltrúa LK.
Valgerður Kristjánsdóttir Mýrum 3 var meðal aðalfundarfulltrúa LK.
Mynd / MÞÞ
Fréttir 18. apríl 2017

Stefnumörkun í mjólkur- og nautakjötsframleiðslu

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
Á aðalfundi Landssambands kúabænda sem haldinn var á Akureyri nýverið var samþykkt ályktun þar sem því var beint til stjórnar LK að koma á fót vinnuhópi um stefnumörkun í mjólkurframleiðslu sem og um stefnumörkun í nautakjötsframleiðslu. Vinnuhóparnir verði settir saman í samvinnu við hagsmunaaðila.
 
Fram kemur í greinargerð með ályktun um stefnumörkun í mjólkurframleiðslu að kosið verði á árinu 2019 um hvort bændur vilji halda í greiðslumark mjólkur frá og með 1. janúar 2021. Óháð niðurstöðu kosningar telur aðalfundur mikilvægt að greinin undirbúi sig í tíma, stillt verði upp þeim sviðsmyndum sem upp geta komið og unnin stefnumörkun útfrá þeim. Meðal annars verður litið til þeirrar umræðu sem samráðshópur um endurskoðun búvörusamninga er gert að taka.  
 
Hvað nautakjötsframleiðsluna varðar er lagt til að í vinnunni verði framtíðarþróun markaðshlutdeildar innlendrar framleiðslu og innflutnings greind sem og þróun gæða í innlendri framleiðslu sem og aðrar greiningar sem að gagni koma.
 
Þá beindi fundurinn því til stjórnar LK að koma á reglulegri vöktun á framleiðslu nautakjöts í samstarfi vð RML og hagsmunaaðila. Nauðsynlegar upplýsingar verði teknar saman og þær verði aðgengilegar fyrir bændur og hagsmunaaðila, en slíkar upplýsingar eru mikilvægar fyrir skipulag framleiðslunnar og koma í veg fyrir langa bið eftir slátrun.