Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Stjórn Framleiðnisjóðs afar ósátt við ummæli sem ráðherra lét falla um sjóðinn
Fréttir 6. nóvember 2019

Stjórn Framleiðnisjóðs afar ósátt við ummæli sem ráðherra lét falla um sjóðinn

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Stjórn Framleiðnisjóðs landbúnaðarins er afar ósátt með ummæli sem Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, lét falla um sjóðinn á Alþingi á mánudag í umræðum um frumvarp um breytingar ýmsum lögum á sviði matvæla. Telur stjórnin að um trúnaðarbrest sé að ræða.

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, kynnti á Alþingi þann 4. nóvember stjórnarfrumvarp um breytingar á lögum á sviði matvæla í takt við innleiðingu EES-reglna. Frumvarpið felur m.a. í sér einföldun reglna og laga og að tveir sjóðir sem fela í sér styrkveitingar til matvælaframleiðslu verða lagðir niður um leið og stofnaður verður sérstakur deildaskiptur Matvælasjóður fyrir alla matvælaframleiðslu í landinu með áherslu á nýsköpun. Sjóðirnir sem leggja á niður eru AVS rannsóknarsjóður í sjávarútvegi og Framleiðnisjóður landbúnaðarins. Lagt er til að lög um Framleiðnisjóð verið felld úr gildi í árslok 2020 og sem gildi um AVS rannsóknasjóð. Þá er gert ráð fyrir að sjóðirnir starfi út næsta ár og nýr Matvælasjóður taki við þeirra hlutverki í ársbyrjun 2021.

Starfsemi Framleiðnisjóðs í rammasamningi sem gildir til 2026

Þórarinn Ingi Pétursson, varaþingmaður Framsóknarflokksins, benti ráðherra á að í gildi væri rammasamningur við landbúnaðinn sem gilti til 2026. Í þeim rammasamningi fælist áframhaldandi starfsemi Framleiðnisjóðs til þess tíma. Hann spurði því ráðherrann hvort það væri hægt að breyta hlutverki sjóðsins þvert á ríkjandi samning og hvað yrði ef rammasamningnum yrði ekki breytt, en skiptar skoðanir hafi verið um þau mál á meðal bænda. Þessu svaraði ráðherrann og hefur síðasta setning hans í svarinu farið mjög fyrir brjóstið á stjórnarmönnum í Framleiðnisjóði.

Vinna í gangi við endurskoðun rammasamningsins

„Varðandi Matvælasjóðinn þá hef ég heyrt þessar raddir,“ sagði ráðherra í svari við fyrirspurn Þórarins Inga.

„Ég fundaði með stjórn Bændasamtakanna um daginn. Þar eru greinilega skiptar skoðanir uppi. Þetta sjónarmið um rammasamninginn kom fram en ég hef ekki heyrt að það standi ekki til að endurskoða hann. Endurskoðun búvörusamninganna er í lögskipuðu ferli og það starf er leitt af Haraldi Benediktssyni og Brynhildi Pétursdóttur. Þar er verið að vinna núna í endurskoðun rammasamningsins. Það kann vel að vera að einhverjir úr forystusveit bænda vilji ekki endurskoða hann, en þá er endurskoðun búvörusamninganna í uppnámi segi ég. Ég er, eins og ég greindi stjórn Bændasamtakann frá, að vinna að ályktun og samþykkt Alþingis, mér ber að fara að henni. Og Alþingi greiddi því atkvæði með 47 samhljóða atkvæðum að stofna þennan sjóð. Það kann vel að vera að það sé andstæða við þetta hjá bændum, en ég held að hún byggi á ákveðnum misskilningi og að menn hafi ekki lesið greinargerðina með frumvarpinu nægilega vel. Vegna þess að það hefur alveg legið fyrir hvernig hann á að byggjast upp þessi sjóður. Það á að deildaskipta honum. Það er sérstaklega áréttað hér í greinargerðinni að það á að gæta þess sérstaklega við stefnumótun við hinn nýja sjóð að  landbúnaðurinn fái tilhlíðanlega hlutdeild í stuðningi, þannig að hlutfallsleg skipting fjármuna til þessarar atvinnugreinar verði með sambærilegum hætti. Þannig að ég átta mig ekkert á hvaða drauga... sumir hverjir... ég er ekkert að saka háttvirtan þingmann um það. En ég átta mig ekki á því hvaða drauga sumir hverjir eru að reyna að draga hér upp á veggi. Væntanlega þeir sem vilja þá sitja að sínu sem þeir hafa fengið úr Framleiðnisjóði.“ Síðan sagði ráðherra:

„En ég hvet nú alla sem á þessi orðaskipti hlíða að kynna sér úthlutanir úr Framleiðnisjóði landbúnaðarins. Þær eru ærið skrautlegar og ég hef grun um það að það sé ekki allt þar eins og menn ætluðu.“

Þórarinn Ingi veitti andsvar við orðum ráðherra og sagðist hafa talið að Framleiðnisjóður landbúnaðarins hafi hingað til starfað eftir þeim reglum sem honum hafi verið settar. Hann sagðist bara hafa verið að bera fram þá spurningu fyrir ráðherra að ef ekki næðist niðurstaða um endurskoðun rammasamnings, hvernig staðan yrði þá varðandi framvindu málsins.

Ráðherra svarði því til að hann áttaði sig ekki á þeim hugleiðingum að ef rammasamningur yrði ekki endurskoðaður því það stæði yfir vinna við það.

„Ég trúi því ekki að menn ætli sér að fara þangað“

„Ég hef enga ástæðu til annars en að ætla að henni ljúki. Ef annar samningsaðili vill ekki halda henni áfram, nú þá er það bara niðurstaða. Ég verð hins vegar leiðrétta mig. Stuðningurinn við þingsályktunina var miklu dýpri og styrkari, hann var 54 atkvæði – samhljóða. Ég segi það bara alveg eins og það er að mér þætti það kyndugt ef hinn samningsaðilinn vill ekki virða þann sterka og ríka vilja hjá Alþingi Íslendinga að taka lög um Framleiðnisjóðinn upp sem er að stofni til frá árinu 1966. – Löngu, löngu úr sér genginn og ekki í takt við það sem er að gerast. Ég ætla bara að nefna eitt atriði sem er í vinnslu, sem er mótun matvælastefnu fyrir Ísland. Þverpólitísk vinna á vegum forsætisráðherra. Eigum við ekki að taka eitthvert tillit til þess sem þar er inni og búa okkur undir þá breyttu sýn og framtíð. Jú, ég segi það – en, það kann að vera að einhverjir sjái tækifæri í því að halda þessu gamla systemi bara gangandi óbreyttu, en ég er ekki á þeim stað. Ég trúi því ekki að menn ætli sér að fara þangað. Ég bara trúi því  ekki, því að ef við þurfum á einhverju að halda í þessu, þá er það að geta lagað starfsemi okkar og áherslur að þeim sjónarmiðum og áherslum stjórnvalda sem uppi eru og í forgrunni á hverjum tíma. Þannig að ég fagna því að eiga liðsinni í 54 þingmönnum við það verk að endurgera með hvaða hætti við vinnum.“

Stjórn sjóðsins sendi atvinnuveganefnd erindi vegna málsins

Samkvæmt heimildum Bændablaðsins sendi stjórn Framleiðnisjóðs erindi vegna málsins til atvinnuvegar Alþingis í dag.

Þá sendi stjórni frá sér yfirlýsingu síðdegis. Þar mun orðum ráðherra vera harðlega mótmælt og í samtali við Elínu Aradóttur formanns stjórnar Framleiðnisjóðs Landbúnaðarins segir hún að stjórn sjóðsins vilji hvetja atvinnuveganefnd til að kynna sér starfshætti sjóðsins. Fullyrðingar ráðherra séu ekki rökstuddar á neinn hátt. Sjóðurinn hafi starfað í einu og öllu eftir þeirri lagaumgjörð sem honum er sett.

„Það er mat stjórnar Framleiðnisjóðs að orð ráðherra verði vart túlkuð á annan hátt en svo að hann beri ekki traust til Framleiðnisjóðs sem stofnunar. Sjóðsstjórnin telur því að um trúnaðarbrest sé að ræða. Hafa verður í huga að stjórn Framleiðnisjóðs er skipuð af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra,“ segir Elín.

Í tengslum við ummæli ráðherra sendi Framleiðnisjóður landbúnaðarins frá sér svohljóðandi yfirlýsingu í gær:

  • Framleiðnisjóður er sjálfstæð ríkisstofnun sem starfar eftir lögum nr. 89/19662. Landbúnaðarráðherra skipar sjóðnum 5 manna stjórn til fjögurra ára í senn. Stjórn Framleiðnisjóðs, úthlutar styrkjum úr sjóðnum. Stjórn sjóðsins telur að unnið hafi verið í einu og öllu eftir þeirri lagaumgjörð sem sjóðnum er sett. Vandað hafi verið til allrar umsýslu í starfi hans og viðhöfð fyllsta varkárni í rekstri. Umsóknir til sjóðsins eru á stöðluðu formi, þær eru metnar og þeim forgangsraðað á kerfisbundinn hátt.
  • Á ári hverju gefur Framleiðnisjóður út vandaða ársskýrslu þar sem gerð er grein fyrir öllum styrkveitingum og starfi sjóðsins. Ársskýrslur síðastliðinna 16 ára eru aðgengilegar á heimasíðu sjóðsins3. Uppgjör sjóðsins er unnið í samstarfi við Ríkisendurskoðun og hefur Ríkisendurskoðun endurskoðað reikninga sjóðsins án athugasemda.
  • Í ljósi þessa sem hér hefur verið rakið vekur það furðu að ráðherra láti ummæli þessi falla og telur stjórn að hér sé að ósekju vegið að fagmennsku stjórnenda sjóðsins. Fullyrðingar ráðherra eru ekki rökstuddar á neinn hátt og ekki til þess fallnar að gefa rétta mynd af starfi sjóðsins.
  • Stjórn Framleiðnisjóðs vill jafnframt benda á að orð ráðherra verði vart túlkuð á annan hátt en svo að hann beri ekki traust til Framleiðnisjóðs sem stofnunar. Hér verður að hafa í huga að stjórn Framleiðnisjóðs er skipuð af Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Í ljósi þess að ráðherra hefur ekki komið á framfæri við sjóðstjórn umkvörtunum af neinu tagi, telur sjóðsstjórn að hér sé um trúnaðarbrest að ræða.
Ákvörðun felld úr gildi
Fréttir 21. nóvember 2024

Ákvörðun felld úr gildi

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að nýlega samþykktar undaþágu...

Skráð heildartjón rúmur milljarður
Fréttir 21. nóvember 2024

Skráð heildartjón rúmur milljarður

Skráð heildartjón vegna kuldakasts og annars óvenjulegs veðurfars á árinu er rúm...

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu
Fréttir 21. nóvember 2024

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu

Áður en Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm boðaði Kaupfélag Skagfirðinga (KS) ...

Undanþágan dæmd ólögmæt
Fréttir 21. nóvember 2024

Undanþágan dæmd ólögmæt

Óvissa er uppi um framhald samruna og hugmynda Kaupfélags Skagfirðinga (KS) um h...

Pólar hestar fyrirtæki ársins
Fréttir 19. nóvember 2024

Pólar hestar fyrirtæki ársins

Markaðsstofa Norðurlands hefur valið hestaleiguna Pólar hestar sem fyrirtæki árs...

Byggja stóra íþróttamiðstöð
Fréttir 18. nóvember 2024

Byggja stóra íþróttamiðstöð

Í Árnesi er verið að byggja fyrstu íþróttamiðstöðina í Skeiða- og Gnúpverjahrepp...

Afstaða framboða til landbúnaðarmála
Fréttir 15. nóvember 2024

Afstaða framboða til landbúnaðarmála

Stjórnmálaflokkarnir sem eru í framboði til alþingiskosninga, sem fram fara 30. ...

Nýjar höfuðstöðvar
Fréttir 15. nóvember 2024

Nýjar höfuðstöðvar

Samkvæmt ákvörðun Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðher...