Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Svavar Jóhannsson, bóndi í Hlíð í Hörðudal og formaður Félags sauðfjárbænda í Dölum, ásamt dætrum sínum, Svönu Rós og Telmu Karen og hundinum Spaða.
Svavar Jóhannsson, bóndi í Hlíð í Hörðudal og formaður Félags sauðfjárbænda í Dölum, ásamt dætrum sínum, Svönu Rós og Telmu Karen og hundinum Spaða.
Mynd / Einkasafn
Fréttir 17. júlí 2020

Stórfelld fækkun fyrirsjáanleg meðal sauðfjárbænda verði afurðaverð ekki hækkað

Höfundur: MÞÞ
„Það er því miður ansi þungt hljóð í sauðfjárbændum hér um slóðir og í æ meira mæli er sá tónn ríkjandi í umræðunni að farsælast sé að hætta. Það eru margir reiðir og fólk er orðið þreytt,“ segir Svavar Jóhannsson, formaður Félags sauðfjár­bænda í Dölum. 
 
Félagið lagði fram þá kröfu í auglýsingu í síðasta tölublaði Bændablaðsins að afurðaverð myndi hækka næsta haust og fór fram á 700 krónur fyrir kílóið. Það er að sögn Svavars réttmæt krafa. Landssamtök sauðfjárbænda hafa gefið út viðmiðunarverð sem er 600 krónur og er það 132 krónum hærra en meðalverðið í fyrra.
 
Færri sauðfjárbú í Dölum en áður
 
Svavar segir mikinn hug í stjórnarmönnum í Félagi sauðfjárbænda í Dölum og þar á bæ séu menn rétt að byrja. Afar brýnt sé að þoka málum til betri vegar, bændum til hagsbóta. 
 
„Okkur er mikið í mun að bæta kjör sauðfjárbænda og ætlum ekki að gefast upp,“ segir Svavar. „Við erum að vekja athygli á því að staða sauðfjárbænda er alvarleg og verð verður að hækka.“ Rúmlega 100 manns eru í félaginu og telur Svavar að um það bil 40–50 bú séu starfandi á félagssvæðinu um þessar mundir. Þeim hefur fækkað ört hin síðari ár. 
 
Svavar býr ásamt eiginkonu og börnum í Hlíð í Hörðudal og eru þau með 670 fjár. Hjónin starfa bæði við búið en þurfa að auki að sækja vinnu utan þess, hann starfar við smíðar og hún hefur atvinnu í Búðardal. „Það er full vinna að reka stórt sauðfjárbú, en því miður hefur verð fyrir afurðir lækkað mikið undanfarin ár og gerir að verkum að bændur verða að hafa þennan háttinn á til að ná endum saman. Það gerir svo að verkum að menn eru svo uppteknir að mörg störf sem t.d. lúta að viðhaldi jarðar og húsakosti sitja á hakanum, en þetta eru nauðsynleg störf svo jarðirnar haldi verðgildi sínu og drabbist ekki niður. En þetta er orðinn vítahringur sem erfitt er að komast út úr og því engin furða að sauðfjárbændur velti fyrir sér hvort ekki sé rétt að snúa sér alfarið að öðru,“ segir Svavar.
 
Slæm staða
 
Staðan sé virkilega slæm og komið að þeim tímapunkti að við sem þjóð þurfum í nánustu framtíð að taka um það ákvörðun hvort yfirleitt eigi að stunda sauðfjárbúskap í landinu. „Bændur þurfa að hafa tekjur til að lifa af, þær eru ekki fyrir hendi núna, ekki einu sinni á stærri búunum, og því gefast menn upp einn af öðrum því ekki er til lengdar hægt að reka búin og starfa einnig utan þeirra,“ segir Svavar. Hann bendir einnig á í þessu samhengi að sauðfé hafi fækkað verulega á umliðnum árum og megi ekki við frekari fækkun ef markmiðið sé að hafa nægt framboð af lambakjöti á innanlandsmarkaði.
 
Stefnir í stórfellda fækkun í stéttinni
 
„Við heyrum núna að afurðastöðvar muni bjóða okkur 8% hækkun í næstu sláturtíð. Ef sú verður raunin stefnir í stórfellda fækkun í stéttinni. Bændur eru komnir að þolmörkum, við getum ekki meira,“ segir Svavar. Hann bætir við að fyrir fáum árum, áður en lækkunarhrina á afurðaverði hófst, hafi verð fyrir afurðir verið komið í um 600 krónur fyrir kílóið. Meðalverð fyrir afurðir hafi í fyrrahaust verið ríflega 470 krónur. „Að okkar mati er krafa um 700 krónur í næstu sláturtíð hófleg, en hún myndi breyta öllu til batnaðar fyrir okkur. Við munum því halda henni til streitu,“ segir hann.
 
Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...