Styrkir fegrun á lögbýlum
Höfundur: Magnús Hlynur Hreiðarsson
Mikil ánægja er með nýtt átak hreppsnefndar Ásahrepps í Rangárvallasýslu, sem gengur út á að gera sveitina enn fallegri en hún er í dag. Í því skyni fær hvert lögbýli 450.000 króna styrk frá sveitarfélaginu til að gera fínt í kringum sig.
„Verkefnið hefur gengið frábærlega, um 70 lögbýli taka þátt í því og það eru allir að keppast við að gera fínt hjá sér. Þetta er verkefni, sem önnur sveitarfélög mættu svo sannarlega taka til fyrirmyndar, hér er mikill metnaður þegar kemur að fegrunar- og umhverfismálum,“ segir Ellisif M. Bjarnadóttir, verkefnisstjóri verkefnisins, en hún er garðyrkjufræðingur og nemandi í landslagsarkitektúr við Landbúnaðarháskóla Íslands. Þegar fegrunarverkefni Ásahrepps lýkur í haust verður boðað til uppskeruhátíðar þar sem bændur og búalið munu fagna fallegri sveit og glæsilegu fegrunarsumri. Alls eru þetta rúmlega 30 milljónir króna sem hreppurinn leggur út vegna verkefnisins.