Styrkja vöruþróun út frá matarhefð
Tíu milljónum króna var fyrir skemmstu úthlutað af innviðaráðuneytinu til verkefnisins Sjávarfalla.
Sjávarföll eru verkefni Sambands sveitarfélaga á Austurlandi og fjárveitingin hluti af styrkjum til sértækra verkefna á sóknaráætlunarsvæðum samkvæmt byggðaáætlun.
Verkefnið Sjávarföll er þróunarverkefni fyrir vörur sem grundvallast á íslenskum matarhefðum og nýrri framleiðslu. Er gert ráð fyrir að fara í markaðsgreiningu, aukið samstarf, eflingu vöruþróunar og þekkingaryfirfærslu.
Í heild var 130 m.kr. veitt til tíu verkefna sjö landshlutasamtaka. Markmiðið með framlögunum er að tengja sóknaráætlanir landshluta við byggðaáætlun og færa heimafólki aukna ábyrgð á ráðstöfun fjármuna. Áhersla er lögð á að styrkja svæði þar sem er langvarandi fólksfækkun, atvinnuleysi og einhæft atvinnulíf. Verkefni sem hljóta styrk skulu nýtast einstökum svæðum eða byggðarlögum innan landshlutans, eða landshlutanum í heild. Íbúaþróun, samsetning atvinnulífs og atvinnustig og meðaltekjur var meðal þess sem lagt var til grundvallar við mat á umsóknum.