Styrkur til að gera úttekt á viðarmagni
Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
Félag skógarbænda á Vesturlandi hefur fengið 800 þúsund króna styrk frá Uppbyggingarsjóði Vesturlands til að gera viðarmagnsúttekt á Vesturlandi.
Reiknað verður út viðarmagn í öllum ræktuðum skógum á Vesturlandi. Gert er ráð fyrir að meistaranemi við Landbúnaðarháskóla Íslands taki þátt í að vinna verkið og birti niðurstöðurnar í lokaritgerð sinni.
Markmið verkefnisins er að finna út hversu mikið viðarmagn er í skógum á Vesturlandi og hvaða möguleikar eru fyrir hendi til að nýta viðinn, að því er fram kemur á vefsíðu Skógræktar ríkisins. Gögnin úr viðarmagnsáætluninni má nota til markaðsgreiningar en um leið að kanna hvort raunhæft sé að stofna til afurðarmiðstöðvar viðarafurða á Vesturlandi. Með stofnun slíkrar miðstöðvar mætti byggja upp fjölbreytta atvinnu- og rannsóknarstarfsemi á sviði skógræktar.
Framkvæmdastjóri Vesturlandsskóga stýrir verkefninu sem unnið verður í samvinnu við Skógrækt ríkisins, Landbúnaðarháskóla Íslands, Landssamtök skógareigenda og Félag skógarbænda á Vesturlandi. Meiningin er að afrakstur verkefnisins verði viðarmagnsáætlun fyrir skóga á Vesturlandi næstu 30 ár sem lögð verði til grundvallar miðstöð viðarafurða á Vesturlandi.
Með því að koma á fót afurðamiðstöð viðarafurða á Vesturlandi væri stigið mikilvægt skref í því að gera skógrækt á atvinnusvæðinu að þeirri atvinnugrein sem hún hefur fulla burði til að vera. Það er stefna Félags skógarbænda á Vesturlandi líkt og Landssamtaka skógareigenda að efla nytjaskógrækt og tryggja jafnt og öruggt framboð skógarafurða.