Svalbarðsstrandarhreppur barnvænt samfélag
Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
Svalbarðsstrandarhreppur verður barnvænt samfélag. Björg Erlingsdóttir sveitarstjóri Svalbarðsstrandarhrepps, Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra og Birna Þórarinsdóttir hafa undirritað samstarfssamning þess efnis.
Með undirskriftinni bætist Svalbarðsstrandarhreppur í ört stækkandi hóp sveitarfélaga sem hefja nú vinnu við að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í stjórnsýslu sína með stuðningi félagsmálaráðuneytisins og UNICEF á Íslandi.
Mikill áhugi
Þátttaka Svalbarðsstrandarhrepps í Barnvænum sveitarfélögum er liður í að byggja upp breiðfylkingu sveitarfélaga á Íslandi sem láta sér mannréttindi barna varða, með Barnasáttmálann að leiðarljósi og auknu samstarfi milli ríkis og sveitarfélaga.
Akureyrarbær hóf vinnu við að verða Barnvænt sveitarfélag árið 2016, og varð í lok maí fyrst sveitarfélaga á Íslandi til að hljóta þá viðurkenningu. Áhugi á þátttöku í verkefninu hefur verið mikill og biðlistar myndast þar sem UNICEF hefur hingað til ekki getað annað eftirspurn áhugasamra sveitarfélaga. Þetta kemur fram á vef félagsmálaráðuneytisins.
Hlakka til
Björg Erlingsdóttir, sveitarstjóri Svalbarðsstrandarhrepps, segir þar að íbúar hlakki til að hefja samstarfið um innleiðingu sáttmálans og nýta þá verkfærakistu sem þau fái aðgang að. Í Svalbarðsstrandarhreppi er rekinn leikskóli, Álfaborg, fyrir börn frá 9 mánaða aldri og grunnskóli með kennslu út 10. bekk. Markvisst sé unnið að því að styrkja nemendur þannig að þeir verði hæfari til að takast á við verkefni framtíðarinnar.