Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Sýklalyfjanotkun í landbúnaði keyrir úr hófi
Fréttir 2. nóvember 2015

Sýklalyfjanotkun í landbúnaði keyrir úr hófi

Höfundur: Tjörvi Bjarnason
Ofnotkun og röng notkun sýklalyfja hefur leitt til ískyggilegrar aukningar sýklalyfjaónæmis á heimsvísu. Nú er svo komið að þjóðir heims verða að snúa bökum saman og sporna gegn óhóflegri notkun sýklalyfja, bæði í menn og dýr. Norðurlandaráð hefur tekið slaginn í umræðunni um sýklalyfjanotkun en nýlega ályktaði Norræna ráðherranefndin um vandann. Í síðustu viku sendu formenn norrænna bændasamtaka frá sér yfirlýsingu þar sem þeir skora eindregið á ráðherrana að beina því til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins að ekki skuli leyfa notkun sýklalyfja í sjúkdómsvarnaskyni í tillögum um dýralyf og lyfjablandað fóður. Þetta er mikilvægt skref til þess að tryggja ábyrga notkun sýklalyfja í framtíðinni að mati bændahreyfinga á Norðurlöndum. 
 
Sextíu sinnum meiri sýklalyfjanotkun á Spáni en á Íslandi
 
Glæný skýrsla frá Lyfjastofnun Evrópu (EMA) um sölu á sýklalyfjum sem notuð eru í dýraeldi sýnir hvað vandinn er útbreiddur. Gögnin eiga við um árið 2013 en skýrslan er sú fimmta í röðinni sem metur umfang sýklalyfjanotkunar í 26 löndum Evrópu. Þrátt fyrir að bannað sé að nota sýklalyf sem vaxtarhvetjandi meðul í landbúnaði í Evrópu er ljóst að ekki er farið eftir settum reglum. Noregur og Ísland eru þær þjóðir sem koma best út úr öllum samanburði í þessum efnum með sáralitla notkun sýklalyfja í landbúnaði. Ríki eins og Spánn, Ítalía, Ungverjaland, Portúgal og Þýskaland koma illa út. Á Spáni er notkun sýklalyfja sextíuföld miðað við það sem hér gerist (búið að reikna notkunina miðað við ákveðið magn lífmassa dýra). Breytileikinn er mikill milli landa en hann er meðal annars skýrður frá misjafnri samsetningu búskapar í löndunum (t.d. getur verið hlutfallslega meira af svínum en nautgripum á milli landa). Einnig eru skammtar misjafnir eftir búfjártegundum og lengd lyfjameðferða getur verið mismunandi. Þessar ástæður skýra þó ekki muninn nema að litlu leyti. 
 
Sala á sýklalyfjum til landbúnaðar-
nota árið 2013.
Góðu fréttirnar við nýja skýrslu EMA eru þær að sýklalyfjanotkun hefur minnkað hjá flestum þjóðum í Evrópu á síðustu árum. Hjá 23 Evrópuþjóðum minnkaði sala sýklalyfja sem notuð eru í landbúnaði um 7,9% á árabilinu 2011 til 2013. 
 
Sýklalyfjaónæmi ógnar heilsu manna
 
Karl G. Kristinsson, prófessor í sýklafræði við læknadeild Háskóla Íslands og yfirlæknir Sýklafræðideildar Landspítalans, hefur sagt í viðtölum hér í Bændablaðinu að sýklalyfjaónæmi ógni heilsufari manna verulega. Víða erlendis séu sýklalyf notuð sem vaxtarhvatar í landbúnaði og slíkt sé viðsjárvert. Eins og fram kom að ofan er slíkt bannað í Evrópu en í Bandaríkjunum er almennt leyfilegt að nota sýklalyfin með þessum hætti. Talið er að um 80% allra sýklalyfja í Bandaríkjunum séu notuð í landbúnaði. 
 
Stórbúskapur skapar hættu
 
Karl hélt erindi nú nýlega á fundi Evrópsku sóttvarnarmiðstöðvarinnar (ECDC), þar sem meðal annars var fjallað um sýklalyfjaónæmi. Þar gerði hann stóraukna kjötframleiðslu á stórbúum að umtalsefni. Til að mæta eftirspurn eftir kjöti væri sú leið farin, illu heilli, að verksmiðjubú leysa af hefðbundinn landbúnað um víða veröld. Þar væri mikið notað af sýklalyfjum til að auka vaxtarhraðann. Dreifing mykju er orðin að meiri háttar vandamáli þar sem bakteríum er dreift yfir stór svæði sem veldur mengun sem getur borist í grunnvatn. Stærsti vandinn væri á þéttbýlum svæðum þar sem fyrirsjáanlegur skortur er á hreinu og ómenguðu vatni. Þar geta faraldrar borist hratt út.
 
Hvað er til ráða?
 
Karl hefur haldið því fram að eftirlit með sýklalyfjaónæmum bakteríum þurfi að auka til muna. Auka þarf rannsóknir og beita skimunum meira en gert er, bæði á dýrum, matvöru og heilbrigðum mönnum. Með því að skima með skipulögðum hætti má koma í veg fyrir sýkingar og útbreiðslu ónæmra sýkla. Það er t.d. vel þekkt að hætta er á bakteríusmiti við neyslu ósoðins grænmetis sem flutt er milli landa. Hér á landi þekkjum við varla þessa hættu þar sem grænmeti er ræktað með hreinu Gvendarbrunnavatni en víða um lönd er notast við endurunnið og/eða mengað vatn. Í þessu tilliti er mikilvægt að hafa upprunamerkingar á matvælum sem allra nákvæmastar og að rekjanleiki sé til staðar. 
 
Annað sem Karl hefur talað um er að ferðamenn geta borið með sér ónæmar bakteríur. Smit geti borist með ýmsum hætti, t.d. með fólki inn á sveitabæi eða með saur úti í náttúrunni. Ekki þurfi mikið til svo smit dreifi sér. Þetta er í raun stórmál sem hefur stækkað á síðustu tíu árum. Ekki er einungis um að ræða smit frá mönnum í dýr heldur líka frá dýrum í menn. Með aukinni smitgát og skimunum sé hins vegar hægt að hægja á þróuninni og þar hafi norrænar þjóðir sýnt mikið og gott fordæmi. 
 
Ákvörðun felld úr gildi
Fréttir 21. nóvember 2024

Ákvörðun felld úr gildi

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að nýlega samþykktar undaþágu...

Skráð heildartjón rúmur milljarður
Fréttir 21. nóvember 2024

Skráð heildartjón rúmur milljarður

Skráð heildartjón vegna kuldakasts og annars óvenjulegs veðurfars á árinu er rúm...

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu
Fréttir 21. nóvember 2024

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu

Áður en Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm boðaði Kaupfélag Skagfirðinga (KS) ...

Undanþágan dæmd ólögmæt
Fréttir 21. nóvember 2024

Undanþágan dæmd ólögmæt

Óvissa er uppi um framhald samruna og hugmynda Kaupfélags Skagfirðinga (KS) um h...

Pólar hestar fyrirtæki ársins
Fréttir 19. nóvember 2024

Pólar hestar fyrirtæki ársins

Markaðsstofa Norðurlands hefur valið hestaleiguna Pólar hestar sem fyrirtæki árs...

Byggja stóra íþróttamiðstöð
Fréttir 18. nóvember 2024

Byggja stóra íþróttamiðstöð

Í Árnesi er verið að byggja fyrstu íþróttamiðstöðina í Skeiða- og Gnúpverjahrepp...

Afstaða framboða til landbúnaðarmála
Fréttir 15. nóvember 2024

Afstaða framboða til landbúnaðarmála

Stjórnmálaflokkarnir sem eru í framboði til alþingiskosninga, sem fram fara 30. ...

Nýjar höfuðstöðvar
Fréttir 15. nóvember 2024

Nýjar höfuðstöðvar

Samkvæmt ákvörðun Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðher...