Sýklalyfjaónæmar bakteríur í mávum
Rannsóknir á mávum í Ástralíu sýna að meira en 20% silfurmáva í álfunni er sýktur með sýklalyfjaónæmum E. coli bakteríum. Hætta er talin á að sýkingin geti borist úr fuglunum í menn, búfé og gæludýr.
Hlutfall silfurmáva, Larus novaehollandiae, sem reyndust vera sýktir með sýklalyfjaónæmum E. coli bakteríum sem eru hættulegar mönnum reyndist vera það sama alls staðar í Ástralíu. Í einum fugli fundust bakteríur sem eru ónæmar fyrir sýklalyfinu colistin sem einungis er notað þegar engin önnur sýklalyf duga. Talið er að fuglarnir hafi sýkst við fæðuleit á ruslahaugum eða við útrennsli skólplagna.
Smithætta vegna fuglanna er talin vera mikil þar sem mávar eru mikið á ferðinni í ætisleit og getur skítur úr þeim lent nánast hvar sem er. Ungbörn eru sögð vera í talsverðri hættu á sýkingu vegna þess að þau eru forvitin og gjörn á að stinga fingrunum upp í sig.
Rétt er að halda því til haga að fuglar með sýklalyfjaónæmar bakteríur í görnunum hafa áður fundist í Portúgal, Frakklandi, Rússlandi, Grikklandi, Síberíu og Alaska svo dæmi séu nefnd.