Sýklalyfjaónæmi mikið samkvæmt nýrri skýrslu
Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA) og Sóttvarnastofnun Evrópu (ECDC) gáfu út nýja skýrslu um sýklalyfjaónæmi í bakteríum sem finnast í mönnum, dýrum og matvælum.
Í skýrslunni kemur fram að sýklalyfjaónæmar bakteríur sýni áfram ónæmi fyrir algengum sýklalyfjum og undirstrika að lýðheilsu og dýraheilbrigði stafar hætta af sýklalyfjaónæmi.
Áætlað er að sýkingar af völdum sýklalyfjaónæmra baktería valdi um 25 þúsund dauðsföllum í Evrópu á ári hverju.
Á heimasíðu Matvælastofnunnar segir í frétt í tengslum við útgáfu skýrslunnar að athygli veki að sýklalyfjaónæmi er mjög mismunandi eftir löndum og svæðum innan Evrópu. Almennt er ónæmi algengara í suður- og austurhluta Evrópu miðað við norður- og vesturhluta Evrópu.
Á Íslandi er ónæmi hjá mönnum og dýrum almennt lægra en í öðrum Evrópulöndum. Hingað til hefur sýklalyfjaónæmi ekki verið skoðað í matvælum hér á landi, innlendum sem og innfluttum, og því lítið vitað um tíðni ónæmra baktería í þeim.
Velferðarráðuneytið setti á laggirnar starfshóp á árinu 2016 í samvinnu við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum. Starfshópurinn fékk það hlutverk að koma með tillögur að aðgerðum til að stemma stigu við útbreiðslu sýklalyfjaónæmis á Íslandi og er von á niðurstöðunum á næstu vikum.
Matvælastofnun heldur málþing um sýklalyfjaónæmi örvera í mönnum, dýrum og matvælum mánudaginn 15. maí í tengslum við heimsókn forstjóra EFSA til Íslands þar sem m.a. verða kynntar niðurstöður mælinga á sýklalyfjaónæmi í Evrópu. Málþingið verður auglýst síðar en nánari upplýsingar um skýrsluna og sýklalyfjaónæmi má nálgast hér að neðan.
Skýrsla Evrópusambandsins um sýklalyfjaónæmi baktería í mönnum, dýrum og matvælum árið 2015
Upplýsingagátt EFSA og ECDC um sýklalyfjaónæmi í Evrópu
Kennslumyndband um notkun upplýsingagáttar EFSA og ECDC um sýklalyfjaónæmi í Evrópu
Skýrsla um sölu sýklalyfja í Evrópu - frétt Matvælastofnunar frá 20.10.16
Lyfjaþol í Evrópu 2014 - frétt Matvælastofnunar frá 29.02.16
Sýklalyfjaþol baktería sem geta borist milli manna og dýra - frétt Matvælastofnunar frá 18.02.16
Norrænn fundur um sýklalyfjaþol - frétt Matvælastofnunar frá 17.11.14