Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Glúmur frá Dallandi stóð efstur í elsta flokki stóðhesta á Landsmóti. Mynd / Hrafnhildur Helga Guðmundsdóttir
Glúmur frá Dallandi stóð efstur í elsta flokki stóðhesta á Landsmóti. Mynd / Hrafnhildur Helga Guðmundsdóttir
Fréttir 5. október 2018

Sýningarárið í íslenskri hrossarækt 2018

Höfundur: Þorvaldur Kristjánsson

Nú er sýningarárinu 2018 lokið í íslenskri hrossarækt, viðburða­ríku og skemmtilegu ári með Landsmóti hestamanna í Reykjavík.

Alls voru haldnar 15 sýningar víðs vegar um landið og alls voru felldir 1575 dómar sem er góður fjöldi en þó heldur færri dómar en á síðasta landsmótsári 2016 en þá voru dómarnir alls 1614. Stærsta sýningin var á Gaddstaðaflötum í vikunni 11. til 15. júní með 249 hrossum en sú minnsta á Stekkhólma á Austurlandi með 17 hrossum. Landsmót var haldið á félagssvæði Fáks í Víðidal í ár og tókst afar vel. Miðað var við 170 kynbótahross á mótinu, 173 máttu koma en í nokkrum tilfellum voru hross jöfn að stigum. Alls voru 160 hross dæmd á mótinu en aðeins var um forföll. Þá hlutu tíu stóðhestar fyrstu verðlaun fyrir afkvæmi og fjórir hlutu heiðursverðlaun fyrir afkvæmi á mótinu.

Kveikur frá Stangarlæk 1 – ímynd fegurðar og fjaðurmagns. Mynd / Svanhildur Jónsdóttir.

 

Meðaltöl og dreifingu einkunna má sjá í meðfylgjandi töflum fyrir alla eiginleika sköpulags og hæfileika auk aðaleinkunnar fyrir árið 2018:

Meðaltölin hafa verið að hækka á síðustu árum

Meðaltöl og breytileiki einkunna er á mjög svipuðu róli fyrir flesta eiginleika samanborið við síðastliðið ár en meðaltölin hafa verið að hækka á síðustu árum. Þó er meðaltal sköpulags heldur lægra en í fyrra, 8,00 samanborið við 8,12 í fyrra. Rétt rúmlega 25% sýndra hrossa voru klárhross í ár en það er afar svipað hlutfall og undanfarin ár.

Hlutfall klárhrossa á Landsmóti hefur á aftur á móti líklega aldrei verið hærra en 27% hrossa sem unnu sér þátttökurétt á mótinu voru klárhross; hæsta hlutfallið var í yngstu flokkunum, fjögurra vetra hryssum og stóðhestum. Meðalaldur sýndra hrossa í ár var 6.15 ár sem er heldur hærri meðalaldur en á fyrri landsmótárum. Þetta skýrist helst af fækkun í sýningum á fjögurra vetra hrossum en þau voru í ár 12% af sýndum hrossum.

Hæstu hross ársins

Alls voru sýndar 70 fjögurra vetra hryssur á árinu og voru þær tæplega 7% sýndra hrossa. Margar afar efnilegar hryssur voru í þessum hópi. Með þriðju hæstu einkunn ársins var Sýn frá Hólum með 8.30 í aðaleinkunn. Hún hlaut 8.54 fyrir sköpulag og 8.14 fyrir hæfileika, Sýn er mikil myndarhryssa, afar skrefmikil og á eflaust eftir að láta enn meira að sér kveða með meiri styrk og eftirfylgni. Ræktandi og eigandi er Hólaskóli. Faðir hennar er Knár frá Ytra-Vallholti og móðirin er Ösp frá Hólum. Knár frá Ytra-Vallholti skilaði nokkrum eftirtektarverðum og efnilegum afkvæmum til dóms í vor, enda af mýktar- og gæðinglínu út af henni Kolfinnu frá Ytra-vallholti.

Með aðra hæstu einkunn ársins, 8.31, var Sigurrós frá Stuðlum, undan Dyn frá Dísarstöðum og Stöku frá Stuðlum sem er undan gæðingamóðurinni Þernu frá Arnarhóli. Sigurrós er gæðingur með 8.37 fyrir hæfileika, með einstaklega virkjamikið skref og mikla framgöngu af svo ungu tryppi.

Þá var með hæstu einkunn ársins Askja frá Efstu-Grund og var hún einnig hæst í sínum flokki á Landsmóti. Hún sprakk út á mótinu og hækkaði hæfileikaeinkunn sína verulega og endaði með 8.55 fyrir hæfileika og 8.38 í aðaleinkunn.

Askja er reiðhestslega gerð með góða yfirlínu í hálsi og baki, þá er hún hágeng og skrefagóð á tölti og brokki og afar jafnvægisgóð og sniðfalleg á skeiði.

Af öðrum fjögurra vetra hryssum ársins er gaman að geta tveggja klárhryssna, þeirra Kröflu frá Austurási undan Framherja frá Flagbjarnarholti; stórglæsileg klárhryssa með 9.0 fyrir nánast alla þætti hæfileikanna og Þórhildar frá Hamarsey, undan Vita frá Kagaðarhóli en hún hlaut 9.5 fyrir tölt á landsmótinu enda einstaklega mýktar- og feguðardjásn, fjaðrandi og jafnvægisgóð á tölti.

54 stóðhestar í fjögurra vetra flokki

Í fjögurra vetra flokki stóðhesta voru sýndir 54 hestar og voru þeir rúmlega 5% sýndra hrossa. Með þriðju hæstu einkunn ársins var Kastor frá Garðshorni á Þelamörk eða 8.33. Kastor er úr ræktun þeirra Agnars Þórs Magnússonar og Birnu Tryggvadóttur, hann er undan Kiljan frá Steinnesi og Vissu frá Lambanesi. Kastor er öflugur alhliða hestur með 8,21 fyrir sköpulag og 8.41 fyrir hæfileika, þar sem hæst ber 9.0 fyrir bak og lend, skeið og vilja og geðslag. Með aðra hæstu einkunn ársins var Fenrir frá Feti, hann er úr ræktun Fetsbúsins en eigandi er Ármann Sverrisson. Fenrir er undan Loka frá Selfossi og Fljóð frá Feti.

Þetta er óvanalega glæsilegur klárhestur með tölti og hefur sérstaka framgöngu og útgeislun í brautinni, hárreistur og tignarlegur með 9,0 fyrir tölt og brokk, 9,5 fyrir vilja og geðslag og fegurð í reið og 10 fyrir hægt stökk.

Efsti fjögurra vetra foli ársins og einnig á landsmóti varð svo Eldjárn frá Skipaskaga, undan Jarli frá Árbæjarhjáleigu II og Glímu frá Kaldbak, úr ræktun Jóns Árnasonar. Eldjárn er afar fallegur hestur með 8.5 fyrir háls, herðar og bóga, 9.0 fyrir samræmi og 9.5 fyrir bæði fótagerð og prúðleika. Þá er hann gangöruggur á tölti og skeiði með þjálan vilja.

Kolka frá Breiðholti í Flóa hlaut hæstu hæfileikaeinkunn hryssna á árinu og einnig á Landsmóti – hér uppteiknuð á skeiði. Mynd / Hrafnhildur Helga Guðmundsdóttir.

 

Það er eftirtektarvert með þessa efstu fola, Eldjárn og Fenri, hversu mikið þeir eru farnir að gera á unga aldri en þeir eru báðir 150 cm. á herðar. Alla jafna eru svo stór hross lengur að koma til en með stækkun kynsins förum við væntanlega að fá fleiri og fleiri hávaxinn sem hross sem geta meira á unga aldri. En það setur í raun meiri kröfur á þjálfarann að gefa sér tíma með hrossin en öll hross þurfa sinn tíma til að þroskast andlega og líkamlega.

Í fimm vetra flokki hryssna voru sýndar 172 hryssur og voru þær tæplega 16% sýndra hrossa. Með þriðju hæstu aðaleinkunn ársins var landsmótssigurvegarinn Sigyn frá Feti, undan Ómi frá Kvistum og Vigdísi frá Feti. Sigyn er stórglæsilegur og stórbrotinn gæðingur með 8.48 fyrir sköpulag og 8.62 fyrir hæfileika, afar hreingeng á tölti og skeiði, með næman og mikinn vilja.

Með aðra hæstu einkunn ársins var svo Hugmynd frá Ketilsstöðum, undan Aðli frá Nýja-Bæ og Djörfungu frá Ketilsstöðum, Álfasteinsdóttur en báðir foreldrarnir hlutu heiðursverðlaun á árinu.

Hugmynd er reiðhestslega gerð og léttstígur gæðingur og sýndi afar skemmtilega takta á skeiði, frábært upplag á skeiði og jafnvægi. Með hæstu einkunn ársins í þessum flokki varð svo Paradís frá Steinsholti, undan Ský frá Skálakoti og Plómu Markúsardóttur frá Skrúð.

Paradís er afar fallega og vel gerð hryssa með 9.0 fyrir höfuð, háls, herðar og bóga og bak og lend. Þá er hún afar fallega geng, með þennan þjála vilja sem Skýr er að gefa í ríkum mæli.

87 stóðhestar í fimm vetra flokki

Í fimm vetra flokki stóðhesta voru sýndir 87 hestar eða 8.5% sýndra hrossa. Þriðji hæst dæmdi hestur ársins í þessum flokki var Jökull frá Breiðholti í Flóa, undan Huginn frá Haga og gæðingamóðurinni Gunnvöru frá Miðsitju.

Glúmur frá Dallandi stóð efstur í elsta flokki stóðhesta á Landsmóti. Mynd / Hrafnhildur Helga Guðmundsdóttir.

Jökull er vel gerður og léttbyggður hestur með 9.0 fyrir háls, herðar og bóga og samræmi. Þá er hann efni í frábæran alhliða hest með fótaburð á hægu tölti og hreinar, fallegar gangtegundir.

Annar hæsti fimm vetra hesturinn í ár var Adrían frá Garðshorni en hann var efstur á Landsmóti, Adrían er úr ræktun þeirra Agnars Þórs Magnús­sonar og Birnu Tryggva­dóttur, hann er undan Hágangi frá Narfastöðum og Eldingu frá Lambanesi sem hlýtur heiðurs­verðlaun nú í haust.

Adrían er afar vel gerður hestur með hvelfdan og reistan háls, hátt frambak og lofthæð. Þá er hann afar jafnvægisgóður og flinkur á tölti og hlaut 9,5 fyrir það, býr hann almennt yfir léttum og háum hreyfingum en mætti enn sem komið er vera svifmeiri á brokki og skeiði. Þá geislar af honum í reið og hann hefur afar léttan og góðan vilja en hann hlaut 9.0 fyrir vilja og geðslag og fegurð í reið.

Með hæstu einkunn ársins í þessum flokki var Þór frá Torfunesi en hann er úr ræktun Baldvins Kr. Baldvinssonar í Torfunesi, hann er undan Kolskegg frá Kjarnholtum og Baldursdótturinni Bylgju frá Torfunesi.

Þór er glæsilegur hestur í byggingu og ber það vel í brautinni, reistur og það loftar undir hann en hann hlaut 9.0 fyrir tölt og brokk, fegurð í reið og vilja og geðslag.

Í sex vetra flokki hryssna voru sýndar 206 hryssur eða um 20% sýndra hrossa. Margar afbragðs hryssur voru í þessum flokki og hrein hestagull meðal þeirra efstu.

Með þriðju hæstu einkunn ársins var Lukkudís frá Bergi úr ræktun Önnu Dóru Markúsardóttur með 8.55 í aðaleinkunn. Lukkudís er undan Lukku-Láka frá Stóra-Vatnsskarði og Forsetadótturinni Hildu frá Bjarnarhöfn.

Lukkudís er afar fríð og fínleg hryssa með góðan styrk í yfirlínunni. Hún hlaut 9.0 fyrir tölt og brokk og einnig vilja og geðslag og fegurð í reið enda afar þjál og yfirbragsfalleg hryssa.

Með aðra hæstu einkunn var Krafla frá Breiðholti í Flóa með 8.61 í aðaleinkunn úr ræktun Kára Stefánssonar. Krafla er undan Ómi frá Kvistum og Gunnvöru frá Miðsitju. Hún er öflug í byggingu með 9.0 fyrir bak og lend, þá er hún aðsópsmikill gæðingur með 9.0 fyrir hægt tölt og tölt, og 9.5 fyrir skeið, 9.0 fyrir fegurð í reið og vilja enda geislar af henni orku.

Með hæstu einkunn ársins í þessum flokki var svo hestagullið Katla frá Hemlu II með 8.72 í aðaleinkunn. Katla býr yfir mikilli fegurð og útgeislun, nýtir hálsinn vel í reið og heldur á sér þannig að fegurð sköpulagsins sést vel undir manni, þá er hún gæðingur á gangi með 9.0 fyrir tölt og brokk, vilja og geðslag og fegurð í reið og að auki skrefmikið og takthreint skeið.

Katla er undan Ský frá Skálakoti og Spyrnu Roðadóttur frá Síðu og ræktendur eru Anna Kristín Geirsdóttir og Vignir Siggeirsson. 

87 stóðhestar í sex vetra flokki

Í sex vetra flokki stóðhesta voru sýndir 87 hestar og voru þeir 8.5% sýndra hrossa. Með þriðju hæstu einkunn ársins, 8,76, var klárhesturinn Kveikur frá Stangarlæk 1 úr ræktun Rögnu Björnsdóttur, undan Sjóði frá Kirkjubæ og Rakettu frá Kjarnholtum. Kveikur er einn fegursti hestur í reið sem fram hefur komið og er einstaklega skrokkmjúkur og fjaðurmagnaður í hreyfingum. Hann hlaut 10 fyrir tölt á Landsmótinu og verður mýktin og gegnumflæðið sem hann býr yfir að vera viðmið þegar háar tölur eru gefnar fyrir tölt, hvort sem það er í kynbótadómi eða keppni.

Kveikur er sérstaklega framhár og burðarmikill í sköpulaginu og það gerir honum kleift að ganga svona reistur og frjáls í fasi án þess að tapa burði í baki. Hann hlaut 9.5 fyrir brokk, stökk og fegurð í reið og 10 fyrir vilja og geðslag enda einstaklega aðgengilegur og þjáll og var samstarf þeirra Kveiks og Aðalheiðar Önnu til mikillar fyrirmyndar.

Með aðra hæstu einkunn ársins var svo Atlas frá Hjallanesi eða 8.76 (hærri en Kveikur á aukastöfum), hann er undan Spuna frá Vesturkoti og Atley frá Reykjavík og er úr ræktun Guðjóns Sigurðssonar.
Atlas er sterkbyggður hestur með 9.0 fyrir bak og lend og fótagerð, þá er hann skrefmikill og rúmur alhliðahestur og hlaut hæst á árinu 9.0 fyrir tölt og skeið og 9.5 fyrir stökk.

Með hæstu einkunn ársins var svo Þráinn frá Flagbjarnarholti, undan Álfi frá Selfossi og Þyrlu frá Ragnheiðarstöðum en hann hlaut 8.70 fyrir sköpulag, 9.11 fyrir hæfileika sem var hæsta hæfileikaeinkunn ársins og 8.95 í aðaleinkunn.

Þráinn er afar vel gerður hestur með mikla framhæð í byggingunni; hátt settan og reistan háls og afar gott samræmi, hlutfallaréttur sterkbyggður og lofhár. Þá er Þráinn glæsilegur, skrefmikill og virkjamikill í reið með 9.0 fyrir tölt, 9.5 fyrir skeið og 9.0 fyrir vilja og geðslag og fegurð í reið.

Elsti flokkur hryssa

Í elsta flokki hryssna voru sýndar 267 hryssur og voru þær 26% sýndra hrossa. Þetta var magnaður hópur efstu hryssna og þessi hópur á Landsmóti var með ólíkindum sterkur.

Með þriðju hæstu einkunn ársins eða 8.73 var Tign frá Jaðri, úr ræktun Kristbjargar Kristinsdóttur og Agnars Reidars Róbertssonar en var efst í þessum flokki á Landsmóti. Tign er undan Kjarna frá Þjóðólfshaga og Sylgju Orradóttur frá Ytri-Skógum. Tign er einstaklega falleg hryssa með 9.5 fyrir háls, herðar og bóga og 9.0 fyrir samræmi, þá er Tign afar hreyfingafalleg, fjaðurmögnuð í reið og hefur mikla útgeislun enda hlaut hún 8.81 fyrir hæfileika, m.a. 9.0 fyrir tölt og brokk, 8.5 fyrir skeið og 9.0 fyrir fegurð í reið.

Með aðra hæstu einkunn ársins var Kolka frá Breiðholti í Flóa úr ræktun Kára Stefánssonar. Hún er undan Grun frá Oddhóli og Gunnvöru frá Miðsitju og hefur því mikið Miðsitjublóð í æðum. Kolka er stórbrotinn gæðingur og hlaut hæstu hæfileikaeinkunn hryssna á árinu eða 9.10 (og einnig hæstu hæfileikaeinkunnina á Landsmótinu).

Kolka er afar skrokkmjúk, býr yfr skörungslund og miklum vilja, hlaut 9.0 fyrir tölt, brokk og skeið, 10 fyrir fet og 9.5 fyrir vilja og geðslag.

Með hæstu einkunn ársins í þessum flokki var svo Hansa frá Ljósafossi eða 8.77 og var hún sýnd á Miðsumarssýningu á Selfossi. Hansa er undan Hákoni frá Ragnheiðarstöðum og Sunnu-Rós Keilisdóttur frá Úlfljótsvatni. Hansa er orkumikill gæðingur með afar virkjamikið skref enda hlaut hún 9.5 fyrir skeið og vilja og geðslag og 9.0 fyrir tölt og brokk.

Elsti flokkur stóðhesta

Í elsta flokki stóðhesta voru sýndir 82 hestar eða 8% sýndra hrossa. Með þriðju hæstu einkunn ársins var Rauðskeggur frá Kjarnholtum úr ræktun Magnúsar Einarssonar í Kjarnholtum. Rauðskeggur hlaut 8.76 í aðaleinkunn og er undan Kiljan frá Steinnesi og Heru frá Kjarnholtum.

Rauðskeggur er glæsilega gerður hestur með hátt settan háls, burðarmikið bak og einstaklega vel gerður í samræminu, hlutfallaréttur, léttbyggður, vöðvaður og lofhár. Þá er hann skrefmikill gæðingur með 9.0 fyrir tölt, stökk og skeið.

Með aðra hæstu einkunn ársins var hálfbróðir Rauðskeggs að móðurinni, Kolskeggur frá Kjarnholtum I. Kolskeggur er undan Kvisti frá Skagaströnd og Heru frá Kjarnholtum I. Ræktandi Kolskeggs er Magnús Einarsson í Kjarnholtum. Kolskeggur er afar fríður hestur, framfallegur og fótahár, enda með 9,5 fyrir bæði höfuð og samræmi. Þá er Kolskeggur viljugur og skrefmikill rýmishestur með 8.77 í aðaleinkunn.
Hæst dæmdi hestur ársins í elsta flokki og einnig efstur í þessum flokki á Landsmóti var Glúmur frá Dallandi. Hann er undan Glym frá Flekkudal og Orku Orradóttur frá Dallandi og er úr ræktun Gunnars Dungal og Þórdísar Sigurðardóttur. Glúmur er afar reiðhestslega gerður hestur með sterka yfirlínu og mikinn prúðleika sem hann hlaut 10 fyrir. Þá er þetta úrvalsganghestur og sameinar það sem er svo verðmætt í alhliða hesti að vera með 9.0 fyrir tölt, hægt tölt og skeið. En gæði á öllum hraðastigum á tölti er eiginleiki sem er afar verðmætur og hlutur sem þarf að leggja aukna áherslu á til framtíðar.

Heilbrigðisskoðanir kynbótahrossa

Heilbrigði kynbótahrossa var skoðað eins og undanfarin ár, bæði fyrir og eftir dóm. Allir áverkar sem hrossin hlutu í dómi voru stigaðir í þrjá flokka og átti þetta við bæði særindi í munni og ágrip á fótum.
Fyrsta stigs athugasemdir teljast ekki vera eiginlegir áverkar en eru t.d. særindi í munni sem ná ekki í gegnum slímhúð eða strokur á fótum sem ná ekki í gegnum húð og eru án eymsla eða bólgu.

Annars stigs athugasemdir eru áverkar, s.s. lítil sár í munni eða á ágrip á fótum sem ná þó ekki einum cm. Þriðja stigs athugasemdir eru alvarlegir áverkar og á þá lund að hrossið hlýtur ekki reiðdóm og getur ekki mætt til yfirlitssýningar. Skráð voru ágrip á fótum í 14.5% tilfella sem er svipað og var í fyrra en þá var tíðni ágripa 15%. Megnið af þessu athugasemdum eða 68% voru í flokki 1, tíðni eiginlegra áverka á fótum (flokkar 2 og 3) var því 4.5% þar sem áverkar af þriðja stigi voru 3 á árinu eða innan við 0.5%. Þá voru skráð særindi eða blóð í munni í 4% tilfella og var í nær öllum tilfellum um 1. stigs særindi að ræða.

Það má því segja að staðan á þessum málum sé ásættanleg og hefur verið árleg minnkun í tíðni áverka almennt ár frá ári núna síðastliðin fimm ár. Þetta skýrist væntanlega fyrst og fremst af hestvænni sýningum og betri undirbúningi hrossa til dóms. Þá hefur verið reynt að taka betur á grófri reiðmennsku sem sífellt ber minna á en alls voru fjórir knapar sem hlutu áminningu fyrir grófa reiðmennsku á árinu.
Eistnaskoðun var framkvæmd á öllum stóðhestum sem komu til dóms þar sem mæld er stærð eistnanna, stinnleiki þeirra metin og kannað með frávik svo sem snúninga. Þéttleiki eistna er metinn í þremur flokkum þar sem flokkur I var þétt og eðlilegt, II aðeins lin og flokkur III grautlin. Mikill meiri hluti stóðhestanna er með þétt og eðlileg eistu eða yfir 90% hestanna. Þá var restin af hestunum með stinnleika II og enginn hestur með stinnleika III.

Merkt var við eistnagalla hjá 11 stóðhestum á árinu, samanborið við 6 stóðhesta í fyrra (13 hestar árið 2017) og var þá um að snúninga á eistum að ræða (bæði eistun snúin: tveir hestar), of mikla smæð (TSW mál undir 8.0 cm: fimm hestar), misstór eistu (1 hestur) eða eineistni (þrír hestar).

Starfsfólk og staðarhaldarar

Að lokum er rétt og ljúft að þakka öllu starfsfólki sýninganna fyrir vel unnin störf á árinu en þetta er mikið til sama fólkið ár frá ári og orðin samhentur og góður hópur; hvort sem það eru dómarar, sýningarstjórar og ritarar. Einnig vil ég þakka gott samstarf við staðarhaldara á hverjum stað en alls staðar er verkefninu tekið af áhuga og metnaði og reynt að hafa alla þætti sýninganna sem besta. Einnig vil ég að þakka sýnendum, ræktendum og eigendum hrossanna fyrir skemmtilega viðkynningu og gott samstarf á árinu.  

 

Djörfung frá Ketilsstöðum hlýtur heiðursverðlaun fyrir afkvæmi á árinu og stendur efst að stigum. 
Mynd / Eiríkur Jónsson.

Heiðursverðlaunahryssur

Hið alþjóðlega kynbótamat fyrir íslenska hestinn var reiknað eftir alla dóma ársins eftir miðjan september og birt í WorldFeng. Þar kom í ljós að fimm hryssur á Íslandi hljóta heiðursverðlaun fyrir afkvæmi í ár en til að hljóta verðlaunin þarf hryssan að eiga að lágmarki fimm dæmd afkvæmi og vera með 116 stig í aðaleinkunn kynbótamatsins. 
 
Efsta hryssan í ár er Djörfung frá Ketilsstöðum undan Álfasteini frá Selfossi og Framkvæmd Hrafnsdóttur frá Ketilsstöðum og hlýtur hún því Glettubikarinn, Bergur Jónsson er ræktandi hennar. Djörfung er með 123 stig í kynbótamatinu og á nú fimm dæmd afkvæmi. Djörfung var sjálf gæðingur og náttúrubarn á skeiði, var sýnd fjögurra vetra og hlaut hæst 8.23 í aðaleinkunn, 8.68 fyrir hæfileika og m.a. 9.5 fyrir skeið og vilja geðslag. Fjögur afkvæma hennar hafa hlotið fyrstu verðlaun og er Hugmynd frá Ketilsstöðum hæst dæmda afkvæmi hennar en hún er undan Aðli frá Nýja-Bæ. Hugmynd var hæst dæmda fjögurra vetra hryssan í fyrra, frábær mýktargæðingur en öll afkvæmi Djörfungar hafa verið sýnd fjögurra eða fimm vetra og sýnir að eiginleikinn að koma fljótt til er sannarlega arfgengur. 
 
Önnur í röð í ár með 121 stig er Dögg frá Breiðholti í Garðabæ. Hún er undan Orra frá Þúfu og Hrund Safírsdóttur frá Torfunesi en Hrund hlaut sjálf heiðursverðlaun fyrir afkvæmi árið 2016. Ræktandi Daggar er Gunnar Yngvason en eigandi er Hjarðartún ehf. Dögg er stórglæsileg hryssa, bæði í sköpulagi og framgöngu, fasmikil og fönguleg undir manni en hún hlaut m.a. 9.5 fyrir háls, herðar og bóga og fegurð í reið og stóð efst í fimm vetra flokki hryssna á Landsmóti 2006. Dögg er fyrst og fremst að gefa glæsileg klárhross en í sumar var t.d. sýnd undan henni hryssan Dáð frá Hjarðartúni, undan Hróa frá Flekkudal, með 9.0 fyrir tölt og brokk og 9.5 fyrir fegurð í reið. Einnig má nefna undan henni hestinn Dag frá Hjarðtúni, undan Sæ frá Bakkakoti. Dagur er glæsilegur klárhestur með m.a. 9.0 fyrir tölt, brokk og fegurð í reið en hann er einnig búinn að vera að standa sig vel í keppni. 
 
Þriðja í röð er hryssan Arndís frá Feti með 117 stig en hryssurnar í 3. og 4. sæti eru báðar með 117 stig og eru það aukastafir sem skilja þær að. Arndís er undan Orra frá Þúfu og Vigdísi frá feti og eru því foreldrarnir báðir heiðursverðlaunahross. Ræktandi Arndísar er Brynjar Vilmundarson og eigendur eru Fet ehf og G. Jóhannsson ehf. Arndís hlaut sjálf 8.21 í aðaleinkunn og á nú fimm dæmd afkvæmi en þar af eru tvö með fyrstu verðlaun. Hún hefur verið að gefa ágæt alhliða hross með góða reisingu en hæst dæmdu hrossin undan henni er Keila frá Árbæ, Keilisdóttir og Fífa frá Feti, undan Héðni frá Feti. 
 
Fjórða í röð er hryssan Eva frá Hvolsvelli úr ræktun Þormars Andréssonar sem ræktar nú hross á Strandarhjáleigu. Eva er undan Ögra frá Hvolsvelli og Björk frá Hvolsvelli, Ófeigs Flugumýrardóttur og er Eva því náskyld Orra og Bjarkardótturinni Birtu frá Hvolsvelli sem er einnig heiðursverðlaunahryssa. Eva hlaut sjálf í dómi 8.25 í aðaleinkunn, m.a. 9.0 fyrir tölt, vilja og geðslag og fegurð í reið. Hún á nú fimm dæmd afkvæmi og eru þau öll með fyrstu verðlaun. 
 
Fimmta í röð er svo hryssan Elding frá Lambanesi með 116 stig, úr ræktun Agnar Þórs Magnússonar og Camillu Ripa en Agnar býr nú og ræktar hross á Garðshorni á Þelamörk. Elding hefur verið að hækka sig jafnt og þétt í kynbótamatinu á undanförnum árum út á árangur afkvæmanna, hún byrjaði frekar lágt í kynbótamatinu en hefur svo sannarlega sannað sig sem frábær ræktunarhryssa. Hún er með afar hátt afkvæmafrávik í kynbótamatinu, 9 stig, en það sýnir hvaða áhrif dæmd afkvæmi hafa á kynbótamatið, umfram upplýsingar frá forfeðrum og skylduliði og eigin dómi. Elding hlaut sjálf 8.03 í kynbótadómi, hún á nú átta dæmd afkvæmi og eru sex af þeim með fyrstu verðlaun. Hæst dæmda afkvæmi hennar er Adrían frá Garðshornim undan Hágangi frá Narfastöðum, afar glæsilegur hestur og flinkur á tölti en hann stóð efstur fimm vetra hestanna á Landsmóti í sumar sem fyrr segir. Einnig má nefna undan Eldingu Hersi frá Lambanesi en hann stóð efstur fjögurra vetra stóðhesta á Fjórðungsmóti Vesturlands árið 2013.  
 
Þetta er góður hópur hryssna sem hljóta heiðursverðlaun í ár en eigendur þeirra taka við viðurkenningum fyrir sínar heiðurshryssur á árlegri hrossaræktarráðstefnu fagráðs í hrossarækt sem haldin verður í Spretti laugardaginn 27. október. Ég hvet allt áhugafólk um hrossarækt að mæta á ráðstefnuna en dagskrá hennar er auglýst í blaðinu.

Skylt efni: Hestar | Sýningar

Útrunnið hráefni til diskósúpugerðar
Fréttir 29. október 2024

Útrunnið hráefni til diskósúpugerðar

Slow Food Reykjavík hélt hátíð í garðskála Grasagarðs Reykjavíkur dagana 18. og ...

Dagur sauðkindarinnar
Fréttir 29. október 2024

Dagur sauðkindarinnar

Þann 12. október síðastliðinn var dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu haldi...

Nýr formaður Lífeyrissjóðsins
Fréttir 29. október 2024

Nýr formaður Lífeyrissjóðsins

Vala Valtýsdóttir er nýr formaður stjórnar Lífeyrissjóðs bænda. Aukaaðalfundur s...

Vindorkugarður á borð Skipulagsstofnunar
Fréttir 28. október 2024

Vindorkugarður á borð Skipulagsstofnunar

Skipulagsstofnun birti þann 18. október til umsagnar matsáætlun fyrir mat á umhv...

Stjórnvöld þurfi að styðja aukna matvælaframleiðslu
Fréttir 28. október 2024

Stjórnvöld þurfi að styðja aukna matvælaframleiðslu

Auka þarf innlenda matvælaframleiðslu um 45–55 prósent næstu þrjátíu árin til að...

Vel gengur að rækta riðuþolið sauðfé
Fréttir 28. október 2024

Vel gengur að rækta riðuþolið sauðfé

Innleiðing á verndandi og mögulega verndandi arfgerðum gegn riðu í sauðfé gengur...

Umsóknum fækkaði um jarðræktarstyrki í garðyrkju
Fréttir 25. október 2024

Umsóknum fækkaði um jarðræktarstyrki í garðyrkju

Umsóknum um styrki vegna útiræktunar grænmetis fækkaði um fimm frá fyrra ári.

Sláturhús Hellu og Esja gæðafæði sameinast
Fréttir 25. október 2024

Sláturhús Hellu og Esja gæðafæði sameinast

Kennitala Sláturhússins á Hellu hefur verið afskráð og verður reksturinn færður ...