Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Oddný Steina Valsdóttir, formaður Landssamtaka sauð­fjárbænda.
Oddný Steina Valsdóttir, formaður Landssamtaka sauð­fjárbænda.
Fréttir 1. desember 2017

Tækifærið er núna

Höfundur: Vilmundur Hansen
Landssamtök sauðfjárbænda kynntu á dögunum verkefni sem miðar að því að kolefnisjafna íslenska sauðfjárrækt árið 2022. Verkefnið hefur verið í undirbúningi frá árinu 2015. 
 
Samtökin hafa notið liðsinnis sérfræðinga hjá Umhverfisráðgjöf Íslands sem kortlögðu kol­efnisfótsporið, gerðu reiknivél sem einstakir bændur geta notað og unnu ítarlega skýrslu. Á þessum grunni var svo unnin aðgerðaáætlun sem vonast er til að hægt verði að hrinda í framkvæmd strax eftir áramót. 
 
Oddný Steina Valsdóttir, formaður Landssamtaka sauð­fjárbænda, segir að meðvitaðir neytendur geri kröfur til framleiðsluhátta þeirrar vöru sem þeir kaupa. „Íslenska lambið stendur mjög vel að vígi hvað varðar lyfjanotkun, dýravelferð, ábyrga umgengni við náttúruna og umhverfismál í víðum skilningi. En við viljum auðvitað gera enn betur og ætlum að verða fyrsta kjötgreinin á Íslandi sem getur sagt að okkar framleiðsluvara sé kolefnishlutlaus.“
 
Bændur vilja axla ábyrgð
 
Sérfræðingar Umhverfisráðgjafar Íslands telja að heildarlosunin frá íslenskri sauðfjárrækt sé 291 þúsund tonn kolefnisígilda á ári. Þetta eru 28,6 kíló kolefnisígilda á hvert framleitt kíló lambakjöts. „Sem er hvorki mikið né lítið,“ segir Oddný Steina. 
 
„Við höfum upplýsingar um kolefnisfótspor í öðrum löndum sem er allt frá því að vera rúm 20 kíló og upp í tæp 60 kíló á hvert framleitt kíló af lambakjöti.“ Skýrsluhöfundarnir telja að raunhæft sé að ná markmiðinu um kolefnisjöfnun á nokkrum árum með blöndu aðgerða. 
 
Annars vegar að draga úr losun með minni notkun á áburði, minni eldsneytisnotkun og bættri meðferð húsdýraáburðar og hins vegar með jöfnunaraðgerðum eins og uppgræðslu, skógrækt og endurheimt votlendis. 
 
„Sauðfjárbændur vilja sýna frumkvæði í þessum málum og ganga á undan með góðu fordæmi. Við berum ábyrgð á helmingi losunar frá landbúnaði á Íslandi sem eru um 7% af heildarlosun landsmanna. Við teljum þetta vera gott fyrir markaðssetningu á vörunum okkar en ekki síður viljum við axla okkar samfélagslegu ábyrgð í verki.“
 
Fagmennska í fyrirrúmi
 
Hluti af þessu öllu er einnig að bæta búrekstur. „Reiknilíkan Umhverfisráðgjafar Íslands mun hjálpa bænd­um að halda vel utan um ýmsa um­hverfisþætti í búrekstrinum og verður tengt við skýrsluhaldskerfið þannig að upplýsingarnar verða mjög góðar. Hver og einn getur þá reiknað út sína losun og er kominn með verkfæri í hendurnar til að sjá hverju kolefnisbinding skilar, ekki bara fyrir um­hverfi, heldur líka í rekstri búsins.“ 
 
Landssamtök sauðfjárbænda áætla að kolefnisjöfnun greinarinnar taki fimm ár að því gefnu að samvinna náist við þá aðila sem þarf að vinna með og að stjórnvöld felli verkefnið inn í loftslags- og umhverfisstefnu Íslands. „Ég tel að sauðfjárbændur séu almennt mjög meðvitaðir um umhverfið og náttúruna,“ segir Oddný Steina.
 
Hvetja aðra til að fylgja fordæminu
 
 „Þeir fjármunir sem í þetta fara eru lagðir inn á bók komandi kynslóða og ávaxtast þar. Verkefni sem þetta myndi treysta allar stoðir sjálfbærni til lengri tíma,“ segir Oddný Steina. 
 
Samkvæmt stefnumótuninni eiga allar afurðir frá íslenskum sauðfjárbændum að verða vottaðar sem kolefnishlutlausar og Landssamtök sauðfjárbænda eru þegar farin að þrýsta á afurðastöðvar að fylgja frumkvæði þeirra og vinna skipulega að kolefnisjöfnun. 
 
„Þetta snýst um umhverfi, efnahag og samfélag. Við verðum að byggja afkomu okkar með skynsamlegri og sjálfbærri nýtingu á gæðum náttúrunnar. Við höfum tækifæri til að nýta þekkingu og reynslu sauðfjárbænda við að leysa þetta stóra samfélagslega verkefni sem kolefnisjöfnun Íslands er. Tækifærið er núna.“
 
Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...