Tæplega 3% samdráttur í febrúar
Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
Umferðin í nýliðnum febrúar á Hringveginum dróst saman um 2,6 prósent sé tekið mið af sama mánuði fyrir ári síðan. Samdráttinn má líklega rekja til tíðarfarsins sem var óvenju erfitt í mánuðinum.
Mest dróst umferðin saman á Vesturlandi, eða um rúm 7 prósent, en umferð jókst mest um teljarasnið á Austurlandi, um ríflega 9%. Hvað einstaka teljarasnið varðar þá dróst umferðin mest saman um Hringveg undir Hafnarfjalli, eða um 10,6%, aftur á móti varð mesta aukningin um teljarasnið á Fagradal á Austurlandi, eða um 10,8%.
Þrátt fyrir samdrátt miðað við síðasta ár mældist umferðin, í nýliðnum febrúar, sú næstmesta í febrúarmánuði frá upphafi samantektar, að því er fram kemur á vef Vegagerðarinnar.