Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Frá fundinum í gærkvöldi á Blönduósi.
Frá fundinum í gærkvöldi á Blönduósi.
Mynd / MÞÞ
Fréttir 31. ágúst 2017

Tap meðalbús um 1,5 milljónir króna á ári

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir

Fjölmenni var á fundi sauðfjárbænda á Blönduósi í gær. Sú staða sem blasir við sauðfjárbændum og afurðastöðvum núna í haust er ískyggileg að mati Ágústs Andréssonar formanns Landssamtaka sláturleyfishafa.

Hún hafi ekki komið upp á einni nóttu. Rekja megi þann vanda sem nú er við að etja nokkur ár aftur í tímann og segir Ágúst að þegar horft sé yfir sviðið nú megi segja að það hafi verið yfirsjón að taka ekki á málum fyrr, áður en í algert óefni er komið.

Félagsheimilið á Blönduósi troðfylltist í gærkvöld þegar Búnaðarsamband Húnaþings og Stranda og Félag sauðfjárbænda í Skagafirði efndu þar til fundar um stöðu og málefni sauðfjárbænda. Ágúst var einn framsögumanna, sem og þau Oddný Steina Valsdóttir og Unnsteinn Snorri Snorrason, formaður og framkvæmdastjóri Landssamtaka sauðfjárbænda og Sigríður Ólafsdóttir ráðunautur á rekstrarsviði Ráðgjafamiðstöðvar landbúnaðarins. Vel á fjórða hundrað manns sátu fundinn, bændur í héraði, sveitarstjórnarfólk, þingmenn Norðvesturkjördæmis og fleiri ráðamenn.

Mikið tekjutap blasir við sauðfjárbændum

Um 420 sauðfjárbú eru á Norðurlandi vestra og Ströndum. Fram kom í máli Sigríðar að búin standi frammi fyrir 1,5 milljón króna tekjutapi nú í haust miðað við þá verðskrá sem hefur verið lögð fram. Ljóst sé að bændur muni ekki ná endum saman. Varpaði Sigríður upp á fundinum útreikningum sínum á sauðfjárbúum af ýmsum stærðum, 100 kinda búi, 500 og 1000 og er það sama upp á teningnum hjá öllum, við blasir tekjutap. Minnst er það á smæstu búunum, um 320 þúsund króna tap á ári, 1,5 milljón króna á 500 kinda búinu og 3,2 milljónir á 1000 kinda búum. Sigríður sagði rekstrargrunn búa af þeirri stærð horfinn. Við það bætist afleidd áhrif, umsvif þjónustu af ýmsu tagi við bændur mun dragast saman. Staðan í héraðinu snérist því ekki eingöngu um sauðfjárbændur og þeirra tekjulækkun heldur samfélagið allt.

Offramleiðsla upp á 2 þúsund tonn á ári

Ágúst Andrésson ræddi um offramleiðslu á kindakjöti og þær birgðir sem til væru í landinu sem vissulega settu mikið strik í reikninginn. Offramleiðslan er um 2 þúsund tonn á ári, en um mánaðamótin júlí ágúst hafi verið til í landinu birgðir af kindakjöti upp á um 1.800 tonn. Kvaðst hann vongóður um að hægt yrði að saxa verulega á það, fara jafnvel niður í um 1.200 tonn nú í upphafi nýrrar sláturtíðar. Ágúst sagðist á árinu 2008 hafa verið talsmaður þess að afnema útflutningsskyldu, en hefði nú vegna þeirrar stöðu sem upp væri hafa snúist hugur og talaði fyrir því að taka hana upp að nýju. Tímabundið til að koma í veg fyrir offramboð á lambakjöti á markaði innanlands.

Krafa um endurskoðun á búvörusamningi hleypti illu blóði í forystumenn bænda

Þau Oddný Steina Valsdóttir formaður LS og Sindri Sigurgeirsson formaður Bændasamtaka Íslands fóru yfir stöðu viðræðna við stjórnvöld og voru í raun allt annað en bjartsýn á gang mála. Sindri nefndi að men vildu sjá heildarlausnir, lausnir sem dygðu til framtíðar. Tillögur ráðherra landbúnaðarmála væru ekki til þess fallnar, ríkisvaldið einblíndi á lausnir til að draga úr framleiðslu, sem vissulega væri eðlilegt, en horft væri algerlega framhjá markaðsþættinum. Nauðsynlegt væri að taka á birgðavandanum, að öðrum kosti mætti allt eins gera ráð fyrir að sauðfjárbændur bönkuðu upp á hjá stjórnvöldum strax aftur næsta haust með sama vanda í farteskinu.

Þá hefði það hleypt illu blóði í forystumenn bænda þegar stjórnvöld kröfðust þess á fundi í gær að samhliða þeim aðgerðum sem farið yrði í nú til að bæta stöðuna yrðu þeir að fallast á að núgildandi búvörusamningar yrðu endurskoðaðir. Þar væru um að ræða kúvendingu, sem alls ekki kæmi til greina. Þeim tillögum sem Bændasamtökin kynntu stjórnvöldum á fundinum í gær var fálega tekið þar á bæ.

Fjöldi bænda tók til máls og bar margt á góma en m.a. var þeim tíðrætt um framsetningu á vöru sinni, tíðar umræður á samfélagsmiðlum og víðar um skort á lambakjöti í verslunum, hvort ekki væri möguleiki á að auka neyslu á lambakjöti meðal landsmanna. Eðlilega var þungt hljóðið í bændum sem horfa fram á mikið tekjutap.

Nýtt verknámshús byggt á Sauðárkróki
Fréttir 8. maí 2024

Nýtt verknámshús byggt á Sauðárkróki

Verknámshús Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra (FNV) á Sauðárkróki mun stækka ve...

Torfæra til styrktar björgunarsveitinni
Fréttir 7. maí 2024

Torfæra til styrktar björgunarsveitinni

Laugardaginn 11. maí fer hin árlega Sindratorfæra fram við Gunnarsholtsveg rétt ...

Nýtt erfðapróf fyrir bógkreppu í sjónmáli
Fréttir 6. maí 2024

Nýtt erfðapróf fyrir bógkreppu í sjónmáli

Í sjónmáli er nýtt erfðapróf til greiningar á arfberum erfðagallans sem veldur b...

Jarðgerð á lagernum
Fréttir 3. maí 2024

Jarðgerð á lagernum

Krambúðin í Mývatnssveit er nú með jarðgerðarvél fyrir lífrænan úrgang í verslun...

Fyrsti skipulegi raforkumarkaður landsins
Fréttir 2. maí 2024

Fyrsti skipulegi raforkumarkaður landsins

Opnuð hefur verið íslensk raforkukauphöll, sú fyrsta á Íslandi og með það að mar...

Vöktun íslenskra skóga viðamest
Fréttir 2. maí 2024

Vöktun íslenskra skóga viðamest

Á sviði rannsókna og þróunar hjá Landi og skógi eru fjölmörg verkefni og þeirra ...

Samstarf háskóla skapar tækifæri
Fréttir 2. maí 2024

Samstarf háskóla skapar tækifæri

Jarðræktarmiðstöð LbhÍ er fjármögnuð með skilyrðum um samvinnu við aðrar menntas...

Sjónarmiðin samrýmast ekki
Fréttir 2. maí 2024

Sjónarmiðin samrýmast ekki

Ísteka telur að Samkeppniseftirlitið hefði átt að óska eftir uppfærðum upplýsing...