Þátttakendur í tilraunaverkefni um heimaslátrun eru 35
Fyrir yfirstandandi sláturtíð var ákveðið að setja af stað tilraunaverkefni um heimaslátrun sauðfjár á vegum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, í samstarfi við Matvælastofnun og Landssamtök sauðfjárbænda. Nú liggur fyrir að 35 sauðfjárbýli taka þátt í verkefninu sem eru staðsett víðsvegar um landið.
Unnið hefur verið að undirbúningi verkefnisins síðustu mánuði. Markmiðið er að kanna hvort skapa megi grundvölll til að bændur geti í auknum mæli slátrað eigin gripum og selt til neytenda og þannig stuðlað að bættri afkomu sauðfjárbænda, en um leið að gætt verði að matvælaöryggi og dýravelferð.
Hólmfríði Sveinsdóttur, doktor í lífvísindum og næringarfræðingi, hefur verið ráðin til að stýra verkefninu fyrir hönd ráðuneytisins.
Heilbrigðisskoðun með fjarfundarbúnaði
Fyrirkomulag verkefnisins er með þeim hætti að þátttakendur munu sjálfir sjá um heimaslátrunina heima á bæjum en heilbrigðisskoðun verður í höndum dýralækna Matvælastofnunar með tvenns konar hætti; annars vegar með heimsókn dýralæknis á 19 bæi og hins vegar í gegnum fjarfundarbúnað í beinu streymi á 16 bæjum.
Bændur munu mæla sýrustig og taka sýni fyrir örverumælingar í því skyni að mæla gæði kjötsins. Afurðir úr verkefninu verða ekki seldar á markaði. Samkvæmt samningnum fjármagnar ráðuneytið sýnatökur og rannsóknir á örverumælingum.