Þjóðverjar óska eftir íslensku vetni
Dietrich Becker, sendiherra Þýskalands á Íslandi, óskar eftir samstarfi um vetnisframleiðslu og hvetur íslenska bændur til að reisa vindorkustöðvar á landareignum sínum. Þetta kemur fram í mjög athyglisverðri grein á bls. 39 í Bændablaðinu í dag. Sendirherrann segir m.a.:
„Uppbygging vindorku verður æ erfiðari í þéttbýlu Þýskalandi. Hún á aðeins eftir að ganga ef sveitarfélög og íbúar fá hluta af arðinum af framleiðslunni. Ég sé einnig tækifæri í þessu fyrir Ísland að styðja við aukna framleiðslu á endurnýjanlegri orku með beinni þátttöku sveitarfélaga og íbúa þeirra. Því skyldi ekki tilheyra á íslenskum bóndabæ ein eða tvær vindrafstöðvar við hliðina á súrheysturni og útihúsum?“
Íslenskt vetni í stað kola
Sendiherrann talar mikið um þá vetnisvæðingu sem nú er komin á fullt skrið víða um heim. Þar hafa Þjóðverjar mjög takmarkaða möguleika til framleiðslu á vetni úr endurnýjanlegum orkugjöfum.
„Frá sjónarmiði þýskra stjórnvalda og þýsks iðnaðar er greiningin ótvíræð: Mikilvægasti þáttur umskipta í þýskum iðnaði verður grænt vetni, vetni framleitt með endurnýjanlegum orkugjöfum. Rafmagnsþörfin mun aukast mjög mikið vegna vetnisframleiðslu og samgangna með rafmagni. Frekari uppbygging nálgast efnisleg og pólitísk endimörk. Þýskaland heldur áfram að byggja upp endurnýjanlegar orkulindir, en verður árið 2050 að treysta eftir sem áður á umtalsverðan innflutning á orku í formi rafmagns, vetnis og afleiðum þeirra.“
Vilja helst vetni frá Íslandi
Sendiherrann talar tæpitungulaust um að Þjóðverjar óski eftir samstarfi við Íslendinga um vetnisframleiðslu. Virðast óskir um rafstreng til Bretlands því úr sögunni á þeirra óskalista, enda eru Bretar ekki lengur aðilar að ESB.
„Hvorki Ísland né Þýskaland geta lagt niður iðnaðarframleiðslu sína. Þýskaland mun í framtíðinni þurfa að flytja inn vetni framleitt með endurnýjanlegum orkugjöfum. Þýskaland verður að spyrja sig hverjir séu réttu og traustustu samstarfsaðilarnir í þessu samhengi. Þegar er komið á samstarf við Marokkó, Ástralíu, Síle, en einnig Saudi-Arabíu og Rússland. Ég er þeirrar skoðunar að Ísland sé betri samstarfsaðili. Ég sé Ísland fyrir mér sem samstarfsaðila í þróun tækni og sambyggðra kerfa fyrir vetnisviðskipti. Ísland hefur sem háþróað land með sína eigin tækni tækifæri til að verða í fararbroddi þeirra landa sem skipta yfir í vetnisframleiðslu og -notkun, þar með talið á sjó og í lofti. En tíminn er naumur því annars verða önnur lönd fremst í flokki,“ segir Dietrich Becker.