Þorvaldur Kristjánsson rær á önnur mið
Höfundur: TB
Þorvaldur Kristjánsson, hrossaræktarráðunautur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, hefur sagt starfi sínu lausu.
Þorvaldur hóf störf sem ábyrgðarmaður hrossaræktar hjá RML í ársbyrjun 2015 og hefur verið ræktunarleiðtogi í íslenskri hrossarækt síðan. Hann hættir í ágústlok en óvíst er hver tekur við starfinu í kjölfarið. Að sögn Þorvaldar var ákvörðunin ekki auðveld þar sem starfið hafi verið afar skemmtilegt en hann mun snúa sér að öðrum verkefnum í haust.
„Það er búið að vera áhugavert og gefandi að starfa hjá RML enda sameinar starfið vinnu og áhugamál,“ segir Þorvaldur, sem mun síður en svo hætta afskiptum af hrossaræktinni þótt hann láti af starfi ábyrgðarmanns hjá RML.
Þorvaldur mun stunda rannsóknir í tengslum við íslenska hestinn hjá Landbúnaðarháskóla Íslands, þar sem hann hefur verið í hlutastarfi, auk þess að sinna áfram hrossadómum á kynbótasýningum.