Þreytt á umgengni og fýlu frá verksmiðju
Hjónin á bænum Lambastöðum í Flóahreppi, þau Svanhvít Hermannsdóttir og Almar Sigurðsson, hafa fengið meira en nóg af starfsemi Orkugerðarinnar í næsta nágrenni við þeirra bæ en þar er kjötmjöl úr sláturhúsúrgangi meðal annars unnið.
Þau sendu sveitarstjórn Flóahrepps nýlega erindi þar sem segir m.a. orðrétt: „Hvernig má það vera að í ár og áratugi hafi ekki tekist að koma böndum á starfsemi þessa og ástandið hefur ekki skánað? Hverslags dugleysi er þetta?“
Hjónin hafa búið á Lambastöðum frá ársbyrjun 2005 og eru meðal annars með ferðaþjónustu þar. Hún lýsir ástandinu þannig að mikinn fnyk leggi frá verksmiðjunni og fer það eftir vindátt hverju sinni hvar hann ber niður.
„Við höfum sent ótal erindi til Heilbrigðiseftirlits Suðurlands meðan það hafði lögsögu yfir starfsemi þessari og síðan til Umhverfisstofnunar eftir að hún tók við eftirlitshlutverkinu. Þetta er ekki fyrsta bréf okkar til sveitarstjórnar þar sem kvartað er yfir umgengni og fýlu frá verksmiðjunni. Við höfum talað við forsvarsmenn verksmiðjunnar, sveitarstjórnarfólk, eftirlitsaðila, stjórnarformann, en ekkert skeður,“ segir Svanhvít.
Í vor fór svo mikill hávaði að berast frá verksmiðjunni. „Það má ljóst vera að þessi verksmiðja er í engu samræmi við hreinleika íslensks landbúnaðar, að þessi fabrikka spúi fýlu og óhljóðum yfir umhverfið.“
Eigendur stórir matvælaframleiðendur
Starfsemi Orkugerðarinnar felst í móttöku og vinnslu á aukaafurðum sláturdýra frá slátursleyfishöfum og sölu á framleiðsluvörum úr mótteknu hráefni, þ.e. áburðarmjöli og dýrafitu sem seld er úr landi til lífdísilframleiðslu. Eigendur Orkugerðarinnar er Sorpstöð Suðurlands, Sláturfélag Suðurlands, Ísfugl, Reykjagarður, Íslenska gámafélagið og Sláturhús Hellu.
„Við viljum að starfsemi þessarar verksmiðju verði þess eðlis að ekki sé ónæði frá henni, hvorki með lykt né óhljóðum. Þar að auki er umgengnin til skammar og Flóahreppi ekki til framdráttar að láta þetta viðgangast. Sveitarfélagið samþykkti á vormánuðum árið 2022 endurnýjað starfsleyfi á verksmiðjuna til ársins 2035 án athugasemda, sem er óskiljanlegt miðað við stöðuna á verksmiðjunni og allar þær kvartanir sem höfðu borist sveitarstjórn varðandi starfsemina,“ segir Svanhvít.
Flóahreppur krefst skýringa
Eftir erindi hjónanna Svanhvítar og Almars hefur sveitarstjórn Flóahrepps samþykkt, með öllum greiddum atkvæðum, að kalla eftir skriflegum skýringum frá Orkugerðinni vegna ólyktar og hljóðmengunar, sem kvartað er undan. Sveitarstjórn kallar að auki eftir upplýsingum um stöðu mála varðandi búnað til að draga úr lyktarmengun sem Orkugerðin hefur talað um að setja upp.
Sveitarstjórn leggur enn fremur áherslu á að rekstraraðili dragi eins og kostur er úr hljóð- og lyktarmengun frá starfseminni til að uppfylla þau skilyrði sem Umhverfisstofnun setur í útgefnu starfsleyfi stofnunarinnar.
„Við viljum sjá að eigendur Orkugerðarinnar sjái sóma sinn í því að koma þessum hlutum í lag og samkvæmt samtölum okkar við íbúa hér í nágrenninu erum við ekki þau einu þar sem biðlund er á þrotum,“ segir Svanhvít.
Halda áfram að berjast
Svanhvít segir að þau Almar séu orðin langþreytt á ástandinu.
„Við munum halda áfram að berjast í því að þessir hlutir verði lagaðir. Það er hins vegar með ólíkindum að íbúarnir þurfi að eyða tíma og orku sinni í þetta, vitandi það augljósa, að þessir hlutir eiga að vera í lagi. Og það þarf enginn að segja okkur að það sé ekki hægt. Það er viljann sem vantar.“
Fullkominn lyktareyðingarbúnaður
Steinþór Skúlason, forstjóri SS, er stjórnarformaður Orkugerðarinnar. Hann segir að undanfarið eitt og hálft ár hafi miklar endurbætur og stækkun á verksmiðjunni átt sér stað.
„Eðlilega tekur smá tíma að fínstilla tækjabúnað og annað sem þessu fylgir. Hluti af breytingum er nýr mjög fullkominn lyktareyðingarbúnaður. Þetta, sem vísað er til, er frá því áður en þessi búnaður var kominn í fulla virkni. Ég reikna með að eftir um einn mánuð þá verði helstu breytingum lokið. Hafa ber í huga að Orkugerðin og þeir sem skila hráefni til hennar eru einu aðilarnir í landinu sem fara að lögum en urðun sem enn tíðkast víða er ólögleg,“ segir Steinþór.