Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Gaman á Landsmóti. Pálmi Guðmundsson, Marín frá Lækjarbrekku 2, Ída Marín Hlynsdóttir og Elín Ósk Óskarsdóttir.
Gaman á Landsmóti. Pálmi Guðmundsson, Marín frá Lækjarbrekku 2, Ída Marín Hlynsdóttir og Elín Ósk Óskarsdóttir.
Mynd / HF
Fréttir 7. júlí 2022

Þrjú afkvæmi Þulu

Höfundur: Hulda Finnsdóttir

Á Landsmóti á Vindheimamelum árið 2000 stóð efst í flokki 7 vetra og eldri hryssna, jörp hryssa, Þula frá Hólum.

Þula hlaut í aðaleinkunn 8,46 á mótinu. Á Landsmótinu á Hellu eru þrjú afkvæmi hennar skráð í keppni, þau Marín frá Lækjarbrekku 2, Þórmundur frá Lækjarbrekku 2 og Ögri frá Horni I.

Þula var fædd í Hólaskóla árið 2000 en hún var undan Kolfinni frá Kjarnholtum og Þráardótturinni, Þóru frá Hólum.

„Á sínum tíma voru auglýstar tvær hryssur til sölu frá skólanum, Þula var önnur af þeim. Skólinn gerði þetta oft og fékk ég ábendingu um hryssuna frá ágætum manni, Daníel Jónssyni. Ég bauð í hryssuna enda var ég hrifinn af Kolfinnsgenunum og Þráarkyninu,“ segir Pálmi Guðmundsson, annar eigenda Þulu, en í framhaldinu bauð hann Ómari Antonssyni, ræktanda á Horni I, að vera meðeigandi í hryssunni. Afkvæmi hennar eru því ýmist kennd við Lækjarbrekku 2 eða Horn I.

„Við höfum skipst á að halda hryssunni en Ómar fékk aðeins færri afkvæmi en ég, hann var óheppinn. Marín er algjört yfirburðahross, geðslagið er svo einstakt, yfirveguð en samt með þennan kraft og mýkt. Einnig á ég undan henni Nælu, Arionsdóttur og síðasta afkvæmi mitt undan henni er Þórmundur, sem er að keppa í A­flokki á Landsmóti.“

Orrablóðið virkar vel með Þulu

Pálmi segir að Þula skili góðri vekurð og fótahæð en það staðfesta dómsorð hennar þegar hún hlaut heiðursverðlaun fyrir afkvæmi 2014.

„Ég er mjög stoltur af Þulu. Þessi hryssa var alveg ótrúlegt kynbótahross en það þurfti að velja rétt á hana. Við Ómar höfðum fengið veður að því að það vantaði viljann í hrossin undan henni sem skólinn hafði fengið. Við héldum henni því bara undir viljuga hesta. Orrablóðið var gott á móti henni.“

Afkvæmi Þulu á Landsmótinu keppa í gæðingakeppni og kappreiðum. Ögri keppir í 250 metra skeiði en hann hefur verið afar farsæll í þeirri grein og kemur annar inn á stöðulista á mótið. Knapi á Ögra er Árni Björn Pálsson.

Þórmundur keppti í A­flokki gæðinga fyrir hestamannafélagið Hornfirðing en knapi á honum er Hlynur Guðmundsson. Hlynur og kærasta hans, Bjarney Jóna Unnsteinsdóttir, hafa átt í góðu samstarfi við Pálma og þekkja afkvæmi Þulu vel. Bjarney sýndi m.a. Nælu fjögurra vetra á Landsmótinu á Hólum þar sem hún hlaut 9,0 fyrir skeið.

„Þórmundur var ekki alveg heill í vetur þannig að þegar hann var sýndur í kynbótadóm í vor var hann kannski ekki alveg tilbúinn. Við enduðum á að fara með hann í A­flokk í gamni og stefnum síðan á að hann toppi í kynbótadómi á næsta ári á Fjórðungsmóti hér fyrir austan,“ segir hann en Þórmundur er einungis sex vetra og á því framtíðina fyrir sér.

Barnabörn í unglingaflokki

Marín frá Lækjarbrekku 2 er í unglingaflokki en knapi á henni er Ída Mekkín Hlynsdóttir, barnabarn Pálma. Marín hefur verið í folaldseign en Pálmi á nú orðið fjögur afkvæmi undan henni. Þegar hún hélt ekki í fyrrasumar ákvað hann að taka hann í þjálfun og leyfa síðan Ídu að spreyta sig á henni.

„Við vorum búin að vera að leita að hrossi fyrir Ídu og þær Marín smellpössuðu saman. Af hverju ekki að nota hrossin sem maður veit að eru góð? Það er líka miklu skemmtilegra að vera með sitt eigið. Ég hef ákveðið að fara með hana í fósturvísaflutninga í sumar og leyfa stelpunni að hafa hana næsta vetur og stefna á Fjórðungsmót.“

Ída byrjaði að keppa fyrir tveimur árum en hefur alltaf haft mikinn áhuga á hestum. Hún bjó lengi í Danmörku og fór þar á reiðnámskeið og komst í tæri við íslenska hesta.

Það er Pálma mjög minnisstætt þegar Ída var mjög ung hvað hún var strax mikil dýrakona. Hún var fljót að læðast í burtu og fara innan um hrossin. Hér eru hún og Þula á góðri stundu.


„Ída er ofboðsleg dýrakona. Alveg sama hvað, hún er alltaf utan í dýrum. Hún er með rosa mikið jafnvægi og er svolítill indjáni á baki. Nú er hún komin á sitt fyrsta alvöru hross og þá sér maður hana líka blómstra.”

Ída er ekki eina barnabarn því þær eru tvær í unglingaflokknum, Ída og Elín Ósk Óskarsdóttir. Elín keppir á hryssunni Ísafold frá Kirkjubæ.
„Við vorum svo heppin að frétta af henni Ísafold í nóvember 2020. Geysilega viljug en samt alveg örugg hryssa. Mikið verk fyrir ungling að læra á. Hryssan kann allt svo stelpan þarf að kunna mikið.

Mikill skóli fyrir hana að þjálfa hana. Ég hef síðan ákveðið að önnur sparimerin mín, Sara frá Lækjarbrekku 2, en hún fór í 8,52 fyrir hæfileika fjögurra vetra sýnd af Friðriki Reynissyni. Hún var að kasta núna og ætla ég að taka snemma undan henni í vetur og leyfa Elínu að ríða á henni og stefna með í keppni á Fjórðungsmót.“

Pálmi er greinilega allur af vilja gerður að aðstoða barnabörnin í hestamennsku sinni en stelpurnar hafa báðar verið duglegar að ríða út og þjálfa.

Fleiri gæðingamæður

Þula er ein af fjórum hryssum sem eiga flest afkvæmi á Landsmótinu en hinar eru þær Grjóska frá Dallandi, Prestfrú frá Húsatóftum og Snædís frá Selfossi.

Grjóska á eitt afkvæmi í flokki 5 vetra stóðhesta, Guttorm frá Dallandi, og tvö í keppnishlutanum; Gnúp frá Dallandi og Konfúsíus frá Dallandi.

Prestfrú á einnig tvö afkvæmi í keppnishlutanum, þær Silfru og Silfá, báðar frá Húsatóftum 2a og Silfurloga sem sýndur var í flokki 4 vetra stóðhesta.

Afkvæmi Snædísar eru tvö í keppni, Kári frá Korpu og Kóngur frá Korpu, og ein hryssa í flokki 7 vetra og eldri hryssna Kná frá Korpu.