Til að framleiða Whisky í tvö lítil staup þarf heilt baðkar af vatni
Vatn hefur meira notagildi en olía og er auk þess undirstaða lífs á jörðinni. Hins vegar hefur maðurinn farið mjög óvarlega með þetta dýrmæta vatn og horfir því víða um heim fram á vatnsskort í náinni framtíð.
Í bókinni Your Water Footprint er að finna ýmsar áhrifaríkar staðreyndir um vatn og vatnsnotkun. Þar segir að eftir einn áratug muni þrír af hverjum fimm jarðarbúum finna fyrir vatnsskorti. Um óheyrilega vatnsnotkun við iðnaðarframleiðslu segir m.a. að það þurfi 7.600 lítra af vatni til að framleiða einar gallabuxur. Á bak við hvern einasta bolla af morgunkaffi liggi vatnsnotkun sem nemur 140 lítrum. Það er að segja vatnið sem fer í að rækta kaffibaunina og vinna hana áður en vatnið fer í bollann sem kaffi. Gríðarlegt vatn sé þannig notað við framleiðslu á öllum neysluvörum, þar með töldum fötum, farsímum og öðrum raftækjum. Til að framleiða Whisky í tvö lítil staup þarf að nota vatn sem fylla myndi heilt baðkar. Til að rækta og vinna bómull í eina stuttermaskyrtu þarf að nota um 3 tonn af vatni.
Um 300 lítra þarf til að framleiða tvær brauðsneiðar
Á bak við morgunverðinn er líka mikil vatnsnotkun. Til að framleiða hráefni sem fer í að búa til brauðsneiðar sem við setjum í brauðristina þarf að nota um 300 lítra af vatni. Til að framleiða tvö hænuegg fara samkvæmt bókinni um 400 lítrar af vatni, en þar á bakvið er væntanlega eldi á varphænunni og ræktun fóðursins sem hún étur. Þá eru tvær litlar beikonsneiðar sagðar útheimta um 300 lítra vatnsnotkun.
5,5 lítrar fara í að framleiða plastflösku fyrir hálfan vatnslítra
Þegar við kaupum vatn í hálfs lítra plastflösku, þá er búið að nota um 5,5 lítra af vatni við að framleiða flöskuna sjálfa en plastið er unnið úr olíu.
Vesturlandabúar nota tvöfalt meira en meðaltal jarðarbúa
Fyrir utan þetta allt saman notum við óhemjumikið af vatni til að svala þorstanum, til eldunar og til að þvo okkur og umhverfi okkar. Þannig er talið að Bandaríkjamenn noti að meðaltali um 300 til 400 lítra af vatni á dag. Mesta vatnsnotkunin er þó við að sturta niður úr klósettinu. Ef öll vatnsnotkun vegna okkar lífshátta er talin með er áætlað að hver og einn Vesturlandabúi noti að meðaltali um 7.500 lítra af vatni á dag, sem er um tvöföld meðaltalsvatnsnotkun jarðarbúa. Líkum má leiða að því að Íslendingar noti miklu meira vatn en þetta.