Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Með nýjum reglum um velferð svína er nú heimilt að hleypa þeim út.
Með nýjum reglum um velferð svína er nú heimilt að hleypa þeim út.
Mynd / smh
Fréttir 9. mars 2015

Tímamót í dýravelferð á Íslandi

Höfundur: smh
Ráðstefna um dýravelferð var haldin á Hvanneyri þann 23. febrúar síðastliðinn. Það voru Matvælastofnun, atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið, Bændasamtök Íslands, Dýraverndarsamband Íslands, Landbúnaðarháskóli Íslands og Dýralæknafélag Íslands sem stóðu að ráðstefnuhaldinu.
 
Fjöldi áhugaverðra erinda var fluttur á ráðstefnunni en málefni dýravelferðar hafa verið ofarlega á baugi í þjóðfélaginu með setningu nýrra laga um velferð dýra og samsvarandi reglugerða um velferð búfjár – sem ein af annarri hafa verið að birtast. Nú síðast, þann 11. febrúar, var reglugerð um velferð alifugla gefin út. Klukkustundarlangar málstofur voru líkar haldnar á ráðstefnunni um allar reglugerðirnar.
 
Viðhorf dýraeigenda
 
Sigurður Loftsson, formaður Landssambands kúabænda og bóndi í Steinsholti, flutti erindið Viðhorf dýraeigenda. Í upphafi hans máls kom fram að velferð búfjár væri mikilvægur grunnur að efnahagslegri afkomu bænda. Velferð búfjár væri enda grunnur að jákvæðri ímynd greinarinnar. Síðan vék hann tali sínu að nýjum viðmiðum um dýravelferð. Þar kom fram að mat á velferð búfjár verði að byggja á rökrænum sjónarmiðum fremur en tilfinningum. Mikilvægt sé að sem víðtækust sátt og skilningur sé milli þeirra sem málið varðar. Gera verði þá kröfu að jafnræði ríki milli innlendra jafnt sem erlendra búvöruframleiðenda á markaði hérlendis, varðandi viðmið um dýravelferð. Starfsumhverfi bænda verði að taka mið af þeim kröfum sem gerðar eru, þannig að þeim sé gert kleift að bregðast við nýjum viðmiðum.
 
Eftirlit og eftirfylgni
 
Hann sagði að aðbúnaðarreglugerðir verði að hafa skýra meiningu, samræmi þurfi að vera í túlkun á milli einstakra eftirlitsaðila og kröfur um úrbætur að vera sanngjarnar og taka mið af umfangi. Hann sagði æskilegt að eftirfylgni og þvingunarúrræði taki fremur mið af alvarleika frávika en fjölda. 
 
Samkvæmt nýrri reglugerð um velferð nautgripa er gert ráð fyrir að básafjós munu heyra sögunni til innan 20 ára og bændum er gert að koma upp sérstökum burðarstíum innan tíu ára. Í erindi Sigurðar kom fram að vegna þessara ákvæða þurfi, samkvæmt núverandi stöðu, að endurnýja 320 básafjós sem eru nálægt 50 prósent af heildarfjölda fjósa á Íslandi. Nýjar reglur krefjist endurnýjunar sem verði kúabændum mjög kostnaðarsamar.
 
Tók Sigurður dæmi, sem Landssamband kúabænda hefur reiknað út, af 70 kúa fjósi með mjaltaþjóni og uppeldisaðstöðu að breytingarnar muni kosta 140 milljónir. Vaxtabyrðin af þeim kostnaði myndi nema fimmtungi af þeim tekjum sem kemur af hverri kú.
 
Sigurður gagnrýnir að með breytingunum sé möguleiki á því að íslenskum nautgriparæktendum sé mismunað gagnvart erlendum framleiðendum – sem þurfa ekki í öllum tilfellum að undirgangast kostnaðarsamar breytingar á sinni framleiðsluaðstöðu. Mikilvægasti þátturinn í að tryggja dýravelferð sé að landbúnaðurinn búi við bærilega öruggt rekstrarumhverfi og afkoma bænda sé viðunandi.
 
Dýravelferð fyrr og nú
 
Hallgerður Hauksdóttir, formaður Dýraverndarsambands Íslands (DÍS), flutti erindið Viðhorf dýraverndarsamtaka. Þar fór hún yfir dýraverndarmál fyrr og nú – og rakti í stuttu máli sögu DÍS. Þar kom fram að DÍS var stofnað 1914 að frumkvæði konu að nafni Ingunn Einarsdóttir. Ári síðar voru fyrstu lög um dýravernd samþykkt á Alþingi, en það voru forvígismenn sambandsins sem skrifuðu lögin og voru þau samþykkt lítið breytt. Síðan hefur sambandið ætíð komið að vinnu við slíka lagagerð. 
 
Hallgerður sagði í erindi sínu að DÍS teldi áríðandi varðandi búfé að virðing sé borin fyrir þeim sem skyni gæddum verum, að ábyrgð og tillitssemi sé höfð að leiðarljósi við alla umhirðu og meðferð á þeim. Langflestir dýraeigendur fari vel eða þokkalega með sín dýr af innsæi einu – því þeir vita vel að þau finna fyrir ótta og sársauka á sama hátt og við sjálf.
 
Hún segir að nýju lögin um velferð dýra, sem tóku gildi í fyrra, séu tvímælalaust til bóta á allan hátt. Nýmæli sem þar skipta máli séu til dæmis að nú eru dýr skilgreind sem skyni gæddar verur. Dýr eigi rétt, sem þau sjálf, á góðri meðferð.  
 
Nú sé refsað fyrir að skaða dýr af því það hefur gildi í sjálfu sér, en áður var refsað fyrir að valda skaða á eign annars manns. Dýrið var þá eignin, en skipti ekki máli sem það sjálft. 
 
Réttur dýra til eðlilegs atferlis sé einnig mikilvæg framför í nýju lögunum og ætti að eiga sér stoð í reglugerðum, en það er mjög misjöfn útkoma hvað það varðar milli reglugerða um velferð hinna ýmsu búfjártegunda.  
 
Jafnframt sé mikilvæg framför falin í skýrari úrræðum og heimildum til inngripa þegar meðferð eða umhirðu dýra er ábótavant. 
 
Hitt sé annað mál að eftirlit og eftirfylgni með velferð dýra kosti fé. Nú þegar megi sjá merki þess að málaflokkurinn sé sveltur. Það sé grafalvarlegt mál og þurfi að bæta úr því. Eitt dæmi um þetta sé vandræðagangurinn við að halda úti dýralæknaþjónustu um landið.
 
Drekkingar minka svartur blettur
 
Að sögn Hallgerðar er lögleiðing drekkingar minka með nýju lögunum svartur blettur í sögu samskipta manna og dýra á Íslandi. Hún vonar að lögleiðingin verði leiðrétt sem fyrst, enda er einungis heimilt að beita þessari aflífunaraðferð á eina dýrategund. Þetta sé vandræðaleg lausn sem þarna hafi verið gripið til – í sparnaðarskyni – og ekki sæmandi siðuðu samfélagi.  
 
Það sé auðvitað óumdeilt að minkurinn valdi ýmsum skaða, bæði í vistkerfum og hjá húsdýrum – einkum fuglum – en hitt liggi fyrir að minkurinn hafi verið fluttur hingað inn af okkur og við berum ábyrgð á veru hans hér. Við verðum því að axla hana. Felligildrur kosti að sönnu meira í rekstri, en þær verðum við samt að velja að lokum, vegna þess hversu ómannúðleg drekking er sem aflífunaraðferð. Hún minnir á að maður fékk dóm fyrir að aflífa hund með drekkingu fyrir nokkrum árum, af þessari ástæðu.
Eitt er það sem vanti í allar reglugerðirnar nýju – og DÍS hafi farið fram á að væri í þeim öllum – eru skýr ákvæði um brunavarnir. Þegar leitað sé í skjölunum eftir orðinu ,,brunavarnir“ þá komi hreinlega ekkert upp. Samt sé hér um að ræða lifandi verur sem haldnar eru í húsum sem þær eiga ekki möguleika á að yfirgefa við eldsvoða. 
 
Það sé vilji DÍS að rannsóknir liggi að baki ákvörðunum um aðbúnað dýra, reglugerðum og lögum, ekki geðþótti eða skoðanir um málefni dýra. Þannig hafi sambandið lagt til við vinnu við reglugerð um alifugla, að stuðst yrði við rannsókn ESB á velferð alifugla. Rannsóknin leiddi í ljós að meiri þéttleiki en 25 kg/fermetra hefðu ótvíræð áhrif á líðan og heilsufar fuglanna til hins verra.  Ísland ætti og gæti verið í fararbroddi hvað velferð dýra varðar.
 
Annað sem Hallgerður nefndi varðandi alifuglareglugerðina, var krafa DÍS um að egg yrðu merkt eftir framleiðsluaðferð – eins og tíðkist víða í Evrópu. Einn versti aðbúnaður sem íslenskt búfé þurfi að búa við í dag, sé sá aðbúnaður sem egghænur þurfa að þola, fjórar saman í litlum búrum alla sína ævi. Þar eigi sú hæna illa vist sem neðst sé í goggunarröðinni, en hinar líka. Þetta ætti að vera löngu aflagt. Fólk sem hefur séð til þessara dýra viti það, en fæstir fá að sjá þangað inn.
 
Hallgerður gagnrýndi að reglugerðirnar um velferð dýra voru ekki kynntar eða birtar almenningi til umsagnar eins og rík hefð sé fyrir að gera almennt um lög og reglur. Svör ráðuneytisins hafi verið að reglugerðirnar væru það tæknilegar og sértækar að þær ættu ekki erindi til almennings, en það þýði auðvitað að almenningi komi ekki aðbúnaður dýra við – sem sé alrangt. Þá segir hún sérkennilegt hvernig gert sé upp á milli dýrategunda; að nautgripir sem eru 350 kg skulu hafa tveggja fermetra rými á húsi, en hestar – sem vega yfirleitt um það bil það sama – skulu hafa fjóra fermetra. Engin rök hnígi að þessu. 
 
Ekki lengur bannað að hleypa út svínum
 
Hvað svín varðar sé það framför að ekki sé beinlínis bannað að hleypa þeim út. Það séu hins vegar vonbrigði að gyltur megi halda föstum í gotstíum mun lengur en lagt var upp með. Í tillögum hópsins hafi verið lagt til að þeim mætti halda sjö daga fyrir got og sjö eftir en því hefur verið breytt í sjö daga fyrir og tuttugu og átta daga eftir got. Það sé dýrunum þungbært að standa svo lengi í sömu sporum, svo ekki sé minnst á að gylturnar séu sviptar hinu eðlilega atferli að sinna grísunum sínum. Dýr líða fyrir að fá ekki að hreyfa sig, það sé þess vegna sem básar séu núna bannaðir í hesthúsum og verða bannaðir í fjósum. Þá sé það andstætt velferð að gefa frest til 2025 að halda svín varanlega í básum séu þeir 90 cm á breidd. Þá undrast Hallgerður að einungis hafi verið tekið tillit til athugasemda DÍS, um að kenna og temja dýr aðeins með jákvæðri styrkingu (ekki þvingun/refsingum), í tveimur af reglugerðunum; í reglugerðunum um sauðfé og svín.
 
Þauleldi til hámörkunar nytja
 
Þauleldi dýra skilgreinir DÍS sem framleiðslu þar sem velferð dýra er fórnað fyrir hámörkun nytja. Almennt vandamál sé við þauleldi að aðbúnaður valdi vandamálum, til dæmis goggun eða halabiti. En í stað þess að leysa vandann með því að bæta úr umhverfi dýranna, svo að hin óæskilega hegðun hverfi, sé vandinn leystur með því að sníða dýrin til. Er það í samræmi við lög um velferð dýra? – spyr Hallgerður.
 

4 myndir:

Jólakveðja
Fréttir 24. desember 2024

Jólakveðja

Ritstjórn Bændablaðsins óskar lesendum um land allt gleðilegra jóla og farsældar...

Lækkað áburðarverð
Fréttir 23. desember 2024

Lækkað áburðarverð

Fyrsta áburðarverðskráin hefur verið gefin út fyrir næsta ár.

Bleikjuharðfiskur úr heimilisbakarofninum
Fréttir 23. desember 2024

Bleikjuharðfiskur úr heimilisbakarofninum

Auðvelt er að gera sinn eigin „harðfisk“ heima í eldhúsi úr flökum smáfisks. Flö...

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...