Tíu milljónir til fjögurra verkefna
Fjögur verkefni hljóta styrk úr Byggðarannsóknasjóði á þessu ári, en þau verkefni sem fá styrk í ár snúast um áhrif fjórðu iðnbyltingarinnar, fasteignamarkað, kortlagningu örorku og verslun í dreifbýli.
Byggðarannsóknasjóður er fjármagnaður af byggðaáætlun og með framlagi frá Byggðastofnun og hefur þann tilgang að efla byggðarannsóknir og bæta þannig þekkingargrunn fyrir stefnumótun og aðgerðir í byggðamálum. Alls bárust sjóðnum 14 umsóknir, samtals að upphæð 38 milljónir króna. Til úthlutunar voru 10 milljónir.
Þekkingarnet Þingeyinga fékk 2,5 milljónir króna í styrk vegna verkefnis sem heitir Byltingar og byggðaþróun: hlutverk þekkingasetra í byggðaþróun fjórðu iðnbyltingarinnar. Markmið rannsóknarinnar er að greina áhrif fjórðu iðnbyltingarinnar í byggðum landsins og mögulegar leiðir til að nýta innviði þekkingarsetra til að mæta áskorunum og tækifærum byltingarinnar.
Fasteignaverð og barnafjölskyldur
Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi fengu 2 milljónir vegna verkefnis með heitinu Fasteignamarkaður og foreldrar um land allt: Getur hátt fasteignaverð fælt barnafjölskyldur af landsbyggðinni eða haldið þeim frá? Tilgangur rannsóknarinnar er að skoða hvað hefur áhrif á búferlaflutninga fólks á barneignaraldri og að styrkja fyrri greiningu á þessum þáttum svo auðveldara sé að hanna íbúaþróunarlíkön fyrir sveitarfélög. Í þriðja lagi að auka skilning á þeim áhrifum sem mikil sókn utanbæjarmanna í íbúðir fjarri heimahögum þeirra kunna að hafa.
Þá fékk Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri styrk að upphæð 2,5 milljónir króna vegna kortlagningar örorku á Norðurlandi eystra. Markmiðið með verkefninu er að kortleggja umfang og þróun örorku á Norðurlandi eystra í samhengi við þróun vinnumarkaðar og lýðfræðilegra þátta. Þá er markmið að unnt verði að nýta niðurstöður rannsóknarinnar í þágu þeirra sem vinna að atvinnuþróun, vinnumarkaðsúrræðum, menntamálum endurhæfingu fólks á vinnumarkaði og byggðaþróun og að verkefnið stuðli að aukinni þekkingu.
Emil B. Karlsson hlaut 3 milljón króna styrk vegna verkefnis sem heitir Verslun í heimabyggð: greining á sóknarfærum dreifbýlisverslana. Markmið rannsóknarinnar er að leiða í ljós hverjar eru skilvirkustu stuðningsaðgerðir við litlar verslanir í dreifbýli. Niðurstöðum er jafnframt ætlað að sýna hvaða þættir í rekstri dreifbýlisverslana skipta mestu til að lifa af í samkeppni við stærri verslanakeðjur.