Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Fréttir 28. janúar 2020
Trump undirritar samning við Kínverja um afléttingu tolla
Höfundur: Hörður Kristjánsson
Undirritaður hefur verið fyrsti áfangi í að taka niður tollmúra í viðskiptum Bandaríkjanna og Kína. Sem kunnugt er hefur þetta tollastríð haft mikil og neikvæð áhrif á landbúnað í Bandaríkjunum. Þessi áfangasamningur gengur út á að afnema tolla á viðskiptum með rautt kjöt og alifuglaafurðir.
Samningurinn var undirritaður af Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, og aðstoðarforsætisráðherra Kína, Liu He. Búist er við að þessi samningur hafi umtalsverð áhrif á kjötiðnað í Bandaríkjunum. Þá má telja líklegt að þetta muni gagnast Trump vel til að endurvinna atkvæði fjölmargra bandarískra bænda í forsetakosningunum í haust, en margir þeirra hafa farið illa út úr tollastríðinu við Kína.
Sagður gríðarlegur sigur fyrir allt efnahagskerfið
Haft er eftir David Perude, aðstoðarmanni Bandaríkjaforseta, á vefsíðu Global Meat að það hafi tekið Kínverja langan tíma að átta sig á að Trump forseta væri alvara. Þessi fyrsti áfangi tollasamnings sé gríðarlegur sigur fyrir allt efnahagskerfið. Samkomulagið jafni stöðuna á markaði fyrir bandarískan landbúnað og muni verða vítamínsprauta fyrir bændur í Bandaríkjunum, búgarðseigendur og framleiðendur.
Segir Perude að Kína hafi ekki farið eftir leikreglum viðskiptalífsins um langa hríð. Það beri að þakka Trump forseta fyrir að hafa staðið á móti ósanngjörnum viðskiptaháttum og setja þannig Bandaríkin í forgang [America first]. Segir hann að Bandaríkjamenn bíði spenntir eftir að hefja útflutning til Kína á vörum sem Kínverjar eru sólgnir í. Perude þekkir vel til í bandarískum landbúnaði og er fæddur og uppalinn í landbúnaði í Bonaire í Georgíuríki.
Samningurinn skipti mestu máli fyrir bandaríska kjöt- og alifuglaframleiðendur. Hann mun væntanlega hafa gríðarleg áhrif til eflingar á útflutningi bandarískra matvæla úr landbúnaði og sjávarútvegi. Það mun að mati Perude auka tekjur bandarískra bænda og sjómanna. Auka umsvif í dreifbýli og auka atvinnu.
Samningurinn tekur á afnámi hafta á viðskiptum með fjölda framleiðsluvara. Þar á meðal á rauðu kjöti, alifuglaafurðum, hrísgrjónum, mjólkurvörum, barnamat, framleiðslu garðyrkjubænda, dýrafóðri, fæðubótarefni, gæludýrafóðri, framleiðsluvörum úr landbúnaðarlíftækni og sjávarafurðum.
Ekki eru allir jafn ánægðir
Jared Bernstein, fyrrum yfirhagfræðingur Joe Biden, fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna, fjallar um málið í Washington Post. Hann hefur uppi ýmsar efasemdir um samninginn og segir að hann segi akkúrat ekkert um að viðskipti verði á sanngjarnari nótum en áður. Ekki heldur um atvinnu- og mannréttindi, fæðu- og matvælaöryggi né að umhverfisreglum verði fylgt. Það sé verið að hæpa upp aðgengi banka, fjárfesta og spákaupmanna í fasteignabransanum að kínverskum markaði. Segist hann löngum hafa bent á að slíkur samningur ýtti undir bandarísk fyrirtæki til að flytja starfsemi og störf til útlanda. Það skaði bandarískan verkalýð og skapi viðskiptahalla í samskiptunum við Kína.
Húrrahróp frá kjötútflytjendum
Dan Halstrom, stjórnarformaður og framkvæmdastjóri samtaka kjötútflytjenda í Bandaríkjunum ( US Meat Export Federation – USMEF), segir að samningurinn sé afar mikilvægur. Hann gefi bandarískum nautgripakjöts- og svínakjötsframleiðendum tækifæri til að efla sína framleiðslu fyrir Kínverja þar sem markaðurinn fyrir rautt kjöt sé í hröðustum vexti á heimsvísu.
Á síðasta ári fluttu Kínverjar inn rautt kjöt fyrir 14 milljarða dollara og var það aukning upp á 65% frá árinu 2018. Segir Halstrom að bandarískir framleiðendur hlakki mjög til að ná hlutdeild á þessum ört vaxandi markaði.
Jennefer Houston, forseti landssambands nautgripaframleiðenda í Bandaríkjunum, NCBA, tekur í svipaðan streng og segir samninginn gjörbreyta stöðunni hjá kjötiðnaðinum í landinu. Þá fagnar kjötstofnun Bandaríkjanna (The North American Meat Institude) líka samningnum við Kínverja.