Tuttugu og sjö hross sem bólusett hafa verið gegn sumarexemi flutt úr landi
Lokahnykkur rannsóknar á sumarexemi í íslenskum hestum hófst mánudaginn 16. mars þegar 27 bólusettir hestar voru fluttir úr landi.
Hópur íslenskra hesta var fluttur út til svokallaðra „flugusvæða“ í Evrópu, tuttugu og fimm til Sviss og tveir til Suður-Þýskalands, á mánudaginn. Þetta er lokahnykkur rannsóknar Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum og samstarfsaðila á sumarexemi í íslenskum hestum.
Exemið veldur óþægindum og vanlíðan
Sumarexem er ofnæmi gegn próteinum úr munnvatnskirtlum bitflugna sem lifa ekki á Íslandi. Tíðni hefur verið mjög há í útfluttum íslenskum hestum, allt að 50% á slæmum flugusvæðum. Exemið veldur óþægindum og vanlíðan og hefur reynst mikið vandamál í íslenskum hrossaútflutningi.
„Sumarexem í hrossum fluttum frá Íslandi er og hefur verið mikið velferðarmál þó að það hafi verið mismikið eftir svæðum og aðstæðum. En þegar verst lætur þarfnast hrossin mikillar umönnunar og líður hreint ekki vel,“ segir Sveinn Steinarsson, formaður Félags íslenskra hrossabænda.
„Auðvitað þekkir fólk erlendis sífellt betur hvernig er best að meðhöndla exemið og haga hrossahaldinu, en því fylgir oft mikil aukavinna og kostnaður. Því er mikilvægt að lausn sé fram undan. Allir sem hafa komið að þeirri vinnu að hægt verði að bólusetja hrossin gegn exemi, binda miklar vonir við bóluefnið, og að hægt verði að verja hrossin sem flutt eru úr landi þannig að þau verði að minnsta kosti jafnsett þeim íslensku hrossum sem fæðast erlendis hvað sumarexemið varðar. Góð niðurstaða úr þessari rannsókn mun umfram allt bæta líðan íslenskra hrossa erlendis og eins mun góð niðurstaða hjálpa mikið til við markaðssetningu og sölu á hrossum frá Íslandi. Á því er enginn vafi í mínum huga,“ segir Sveinn.
Hefur verið rannsakað á Keldum síðan árið 2000
Sumarexem hefur verið rannsakað á Keldum síðan árið 2000 í samstarfi við marga aðila og má þar helst nefna dýrasjúkdómadeild háskólans í Bern í Sviss, dýrasjúkdómadeild háskólans í Bristol í Bretlandi, ORF Líftækni og Cornell háskóla í Ithaca í New York-ríki í Bandaríkjunum. Próteinin sem eru að valda ofnæminu hafa verið einangruð og framleidd með aðferðum erfðafræðinnar. Markmiðin eru tvö:
Að nota próteinin til að finna ónæmismeðferð, þ.e. að bólusetja hross sem forvörn gegn exeminu, og meðhöndla eða afnæma hross sem eru komin með exemið. Þetta útskýrir Sigurbjörg Þorsteinsdóttir, deildarstjóri sameinda- og veirudeildar á Keldum, í kynningarmyndbandi.
„Með því að prófa mismunandi bólusetningaraðferðir, sprautunaraðferðir og mismunandi blöndur af ofnæmispróteinunum og ofnæmisglæðum teljum við okkur hafa fundið aðferð til þess að beina ónæmissvari gegn ofnæmisvökunum í rétta átt þannig að það verði hægt að verja hrossin gegn sumarexemi,“ segir Sigurbjörg.
Vilhjálmur Svansson dýralæknir, sem er í rannsóknarteyminu, bætir við að fjölmargir ofnæmisvakar voru greindir í flugunum, en að misjafnt sé gegn hvaða vökum hrossin hafi ofnæmi. Í bóluefninu sem teymið þróaði eru níu ofnæmisvakar, þeir sem flest hross reyndust hafa ofnæmi gegn. Hrossin, sem flutt voru út á dögunum, voru bólusett beint í eitla, en fyrri tilraunir á hestum á Keldum hafa sýnt að bólusetning í eitla er árangursrík leið til að beina ónæmissvarinu á brautir sem ekki leiða til ofnæmis. Hrossin munu dvelja á flugusvæðunum í tvö til þrjú ár svo hægt sé að athuga hvort bólusetningin verji þá gegn exeminu.
Líka tilraunir í Bern á sýktum hrossum
Rannsakendur við háskólann í Bern eru einnig að fara af stað með afnæmingar með bóluefninu. Í þeim tilraunum verða hross sem nú þegar eru komin með sumarexem sprautuð á sama hátt og gert var á Keldum.
Í kynningarmyndbandinu segir Sara Björk Stefánsdóttir frá seinni hluta verkefnisins. „Hann snýst um að þróa afnæmingu, þar sem að hestar með sumarexem fá meðferð til að draga úr einkennum sjúkdómsins. Sú aðferð byggist á því að meðhöndla hesta um slímhúð munns með byggmjöli.“ Erfðabætta byggið sem notað er í meðferðina er framleitt í samstarfi við ORF Líftækni en í bygginu eru ofnæmisvakar úr bitkirlum smámýsins í byggfræjunum.
Sveinn Steinarsson, formaður Félags hrossabænda, og Vilhjálmur Svansson, dýralæknir á Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum.
Íslenskir hestar líka meðhöndlaðir í Bandaríkjunum
Aðferðin hefur verið prófuð á heilbrigðum hestum á Keldum með því að láta hestana vera með byggmjölsblöndu í sérstökum mélum og hefur hún skilað góðum árangri. Vilhjálmur útskýrir að hægt sé að mæla bælissvörun í heilbrigðum hestum en að nú þurfi að skoða hvernig hestar með sumarexem bregðist við. Í samstarfi við Cornell-háskóla verða íslenskir hestar með sumarexem meðhöndlaðir í Bandaríkjunum.
Punktar um sumarexem:
- Tíðni sumarexems hefur verið mjög há í útfluttum íslenskum hestum, sem veldur þeim óþægindum og vanlíðan.
- Eftir 20 ára rannsóknarvinnu hefur teymi íslenskra og erlendra vísindamanna þróað bóluefni gegn sumarexemi.
- Markmiðin eru tvö: Að bólusetja hross sem forvörn gegn exeminu og að meðhöndla eða afnæma hross sem eru komin með exemið.