Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Um 258 milljarðar af 5 ára skatttekjum af ökutækjum ekki nýttir til vegamála
Fréttir 26. janúar 2018

Um 258 milljarðar af 5 ára skatttekjum af ökutækjum ekki nýttir til vegamála

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Landsmenn hrópa á endurbætur á vegakerfinu en ríkið eykur stöðugt skattlagningu á bíleigendur sem notuð er í annað. Samt er talað um að ekki séu til peningar til uppbyggingar og viðhalds vega sem eru þó einhverjar arðbærustu framkvæmdir sem hægt er að ráðast í. Á meðan stóreykst nýting og slit á vegakerfinu, slysum fjölgar, eigna- og manntjón eykst samfara auknum kostnaði heilbrigðis- og öryggiskerfi landsins.

Hann er nær endalaus listinn yfir vegarkafla sem brýn þörf er á að lagfæra. Þessi mynd er af veginum um Álftafjörð á Snæfellsnesi. Mynd / HKr.

Eitt fyrsta verk nýrrar ríkisstjórnar Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks var að leggja fram fjárlagafrumvarp. Þrátt fyrir loforð allra þessara flokka um að skattaálögur yrðu ekki auknar á almenning í landinu, þá var samt ákveðið að hækka skatta á eldsneyti og umferð um nær 5,6 milljarða króna, eða um 4,6%. Sú upphæð verður ekki sótt neitt annað en í vasa bíleigenda í hópi almennings. Þrátt fyrir verulega auknar skattaálögur á bifreiðaeigendur þá er samt ekki verið að nota nema um 29% þeirra tekna í vegakerfið.

Yfir 330 milljarðar í skatttekjur af ökutækjum á 5 árum

Félag íslenskra bifreiða­eigenda, FÍB, hefur látið Bændablaðinu í té sundur­liðaðar tölur um tekjur ríkissjóðs af umferðinni á árunum 2014 til 2018. Að mati FÍB eru sumir tekjuliðirnir í þessu þó trúlega vanmetnir.

Þarna kemur fram að á þessum fimm árum verða heildartekjur ríkissjóðs af ökutækjum um eða yfir 330 milljarðar króna að árinu 2018 meðtöldu [330,879 milljarðar]. Þetta eru um 2,79% af landsframleiðslu. Í því sambandi er vert að hafa í huga að rauntekjurnar af umferðinni hafa oftast verið hærri en fjárlög hvers árs segja til um og stundum hefur munað þar nokkrum milljörðum króna.

Samkvæmt fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir 4,6% hækkun tekna af ökutækjum á þessu ári miðað við fjárlög 2017 og að tekjurnar verði þá 73.044 milljónir króna 2018. Þar af er kolefnisgjald 3.540 milljónir. Þetta er töluvert hærri upphæð en öll vaxtagjöld ríkisins á síðasta ári. Ef einungis eru teknar beinar tekjur er upphæðin 52.544 milljónir króna.

Víða finnast matarholurnar

Ef horft er á bakgrunninn í auknum tekjum ríkissjóðs af notkun ökutækja sem hlutfalla milli fjárlaga 2017 og 2018 upp á 9,2%, þá ber hæst hækkun tekna af eldsneyti upp á 10,9%. Þar af hækkar kolefnisgjald um 52,9%. Olíugjald hækkar um 12,9%, þungaskattur/km gjald, hækkar um 11,1%. Vörugjald af bensíni hækkar almennt um 2%, bifreiðagjald um 4,2%, sérstakt vörugjald hækkar um 1,9%. Aðrar tekjur af bifreiðanotkun m.a. af númeraplötum, umferðar­öryggisgjald, ökuskírteini, skráningargjöld ökutækja og vanrækslugjöld vegna óskráðra bifreiða hækkar samtals um 1%.

Hvalnesskriður á þjóðveginum milli Hornafjarðar og Djúpavogs. Þarna rétt fyrir norðan eru svo Þvottárskriður. Þessir kaflar eru oft á tíðum stórvarasamir.

Á móti kemur að áætluð hlutfallsleg lækkun verður á tekjum vegna bifreiðakaupa, þ.e. vörugjalda upp á -6,5% og virðisaukaskatts upp á -7%. Væntanlega eru menn þá að gera ráð fyrir að heldur dragi úr sölu nýrra ökutækja á nýbyrjuðu ári miðað við metsöluárið 2017.

Oft verið að berja á þeim sem eiga undir högg að sækja

Hafa ber í huga að bifreiðaeigendur eru ekkert annað en þverskurður samfélagsins. Þótt sumum stjórnmálamönnum þyki þægilegast að beita kolefnissköttum til að styðja við fallega hugmyndafræði varðandi baráttu við loftslagsbreytingar, þá virðist lítil hugsun vera á hverjir verði fyrir þeirri gjaldtöku. Bíleigendur eru nefnilega ekki allir í hópi stóreignamanna. Þarna er t.d. mikill fjöldi námsmanna, fjölskyldufólks, aldraðra og öryrkja. Margt af þessu fólki getur alls ekki án einkabíls verið.

Áratugum saman eru Vestfirðingar búnir að bíða eftir að ráðamenn taki af skarið varðandi val á veglínu um Gufudalssveit. Þar hefur hver ráðherrann af öðrum horfið af vettvangi og skort kjark til að klára málið með eignarnámi eða á annan hátt. Enn bíða Vestfirðingar eftir ákvörðun og að ráðist verði þar í framkvæmdir.  

Gert gys að þeim sem síst skyldi

Þegar stjórnvöld á höfuðborgar­svæðinu benda fólki á að fara bara í strætó eða að hjóla til að minnka kolefnisútstreymi, þá er raunverulega verið að gera gys að stórum þjóðfélagshópum sem eiga þegar undir högg að sækja. Auknar álögur á eldsneyti mun einungis gera þessu fólki lífið mun erfiðara, svo ekki sé talað um áhrifin sem þetta hefur á vísitölu til hækkunar útlánsvaxta vegna íbúðakaupa. Þá munu hækkanir vegna aukins kostnaðar við vöruflutninga fara að skila sér fljótlega út í vöruverð og í hringekju neysluvísitölunnar. 

Auk þess virðist lítt eða ekki verið að hugsa til fólks sem býr utan höfuðborgarsvæðisins. Víða um land eru engir strætisvagnar og sennilega er sama hvað fólk í sveitum bíður lengi í ímynduðum strætisvagnaskýlum, vagninn mun aldrei koma. Ekki liggja þangað heldur malbikaðir hjólreiðastígar ef þörf verður á að bregða sér af bæ til að heimsækja sérfræðilækni í höfuðborginni, kannski í 800 km fjarlægð. Ef um barn er að ræða verður það síðan varla sett á bögglaberann.  

Ef menn meina eitthvað með tali sínu um að minnka kolefnisspor þjóðarinnar, þá ættu stjórnvöld auðvitað að íhuga þegar í stað að leggja kolefnisgjöld á innfluttar matvörur sem auðveldlega mætti framleiða hér heima. Þar er líklega verið að puðra 41 þúsund tonnum af koldíoxíði út í loftið á ári umfram það sem nauðsynlegt er. Slík skattlagning er þó trúlega ekki vænleg til vinsælda. 

Dapurleg ráðstöfun tekna af umferðinni

Þegar skoðað er hvaða hag umferðin og vegakerfið hefur haft af þessari skattlagningu er dæmið vægast sagt dapurlegt. Hvert sem litið er, sjáum við vegakerfið í miklum ólestri og víða stórhættulegt eins og ítrekuð slys bera með sér. Þá hefur Vegagerðin ítrekað bent á þá staðreynd að ef viðhaldi vega er ekki sinnt reglulega, þá brotnar burðarlag veganna niður svo margfalt dýrara verður þá að endurgera það sem aflaga fer. Hefur vegagerðin m.a. bent á að verulega mikið vanti upp á að staðið hafi verið við framlög til vegamála samkvæmt síðustu samgönguáætlun 2015 til 2018 sem samþykkt var á Alþingi Íslendinga. 

Bandarísk Sikorsky HH-3F Pelican. Þyrlur sem m.a. hefði verið mögulegt að kaupa fyrir fjármuni sem innheimtir eru af bifreiðaeigendum en hafa ekki verið notaðir í vegagerð. 

Um 258 milljarðar króna af umferðarskatti ekki nýttur til vegamála

Á árinu 2014 var samkvæmt reikningum ríkisins veitt 14.272 milljónum til viðhalds vega og nýframkvæmda. Árið 2015 var upphæðin 16.322 milljónir króna. Árið 2017 voru það 21.358 milljónir króna og gert er ráð fyrir 21.167 milljónum króna til vegamála á árinu 2018. Samtals gerir þetta á fimm árum 73.119, sem er nánast sama tala og áætlaðar tekjur ríkissjóðs af ökutækjum á þessu eina ári 2018. 
Fimm ára tekjur ríkissjóðs af ökutækjum verða frá 2014 og að meðtöldu árinu 2018 væntanlega um 331 milljarð kóna. Mismunurinn á tekjum ríkissjóðs af ökutækjum og því sem notað er til að viðhalda og byggja upp innviði umferðarkerfisins á fimm ára tímabili er því 257.760 milljónir króna. Með öðrum  orðum þá eru tæpir 258 milljarðar króna sem innheimtir eru af eigendum ökutækja ekki notaðir til viðhalds og uppbyggingar innviða í samgöngukerfinu, heldur í EITTHVAÐ ANNAÐ.

Hefði mátt koma í veg fyrir mikið tjón vegna umferðarslysa

Ef meira fjármagn hefði verið notað til vegamála hefði trúlega mátt koma í veg fyrir fjölda banaslysa og annarra alvarlegra slysa. Þá hefði líklega mátt komast hjá umtalsverðum hluta af þeim gríðarlegu útgjöldum sem eru slysunum samfara fyrir heilbrigðiskerfið og samfélagið allt.

Götótt slitlag veldur miklum þjóð­hagslegum skaða vegna tjóns á bílum og slysa á fólki. 

Hefði dugað til að byggja tvo spítala og kaupa þyrlur að auki

Fyrir þessa upphæð sem ekki var notuð til að byggja upp og halda við innviðum vegakerfisins hefði líka mátt byggja tvo spítala af fullkomnustu gerð og kaupa nokkrar nýjar þyrlur fyrir Landhelgisgæsluna sem dreifa hefði mátt í alla landshluta – en það var ekki heldur gert.

Nú er talað um að það kosti um 70 milljarða að byggja háskólasjúkrahúsið við Hringbraut [sem er miðað við upphaflegar forsendur þó aðeins hluti endanlegs kostnaðar]. Ein ný Super Puma björgunarþyrla frá Airbus kostar líklega um 2 til 2,8 milljarða króna (15–27 milljónir dollara, allt eftir búnaði). Eurocopter EC225 Super Puma kostar um 18 milljónir dollara sem farþegavél. Einnig mætti kaupa fleiri tegundir eins og rússneskar þyrlur en Rússar eru einna öflugustu þyrluframleiðendur í heimi. Má þar t.d. nefna Kazan Mi-17 II sem kostar um 18 milljónir dollara og Kamov Ka-27 sem kostar 14,5 milljónir dollara. Nú eða hina bandarísku Sikorsky HH-3F Pelican, sem kostar um 19 milljónir dollara. 

Þjóðhagslegur sparnaður af bættum vegamannvirkjum

Ef tekjur ríkissjóðs af ökutækjum eru skoðaðar í öðru samhengi, þá hefur þráfaldlega verið bent á augljósan hag ríkisins af því að halda uppi góðu vegakerfi og leggja í það umtalsvert meiri fjármuni en nú er gert. Beinn þjóðhagslegur hagur ríkisins yrði gríðarlegur ef horft er á tölur um kostnað vegna slysa sem draga mætti verulega úr með endurbótum á vegakerfinu. Auk þess er auðvelt að sýna fram á að bætt vegakerfi dragi úr eldsneytiseyðslu, minnki mengun og dragi stórlega úr tjóni af skemmdum og sliti á ökutækjum. Þjóðhagslegur sparnaður yrði án efa verulegur og langtíma ávinningur mikill.

„Eitt brýnasta hagsmunamál þjóðarinnar“

Vilhjálmur Árnason alþingismaður ritaði nýlega áhugaverða grein í tímaritið Þjóðmál þar sem hann ræðir um samgöngumál sem eitt brýnasta hagsmunamál þjóðarinnar. Þar segir hann m.a.: „Umferðarslys eru tíunda algengasta dánarorsök í heiminum, en 1,3 milljónir manna láta lífið árlega í umferðarslysum.“

Bendir hann á að Alþjóða-heilbrigðismálastofnunin, WHO hafi m.a.  beint athyglinni að alvarleika þessa máls og hafist handa við herferð um umferðaröryggi undir nafninu „Decade of Action“, eða áratugur aðgerða.Segir Vilhjálmur að margar tilraunir hafi verið gerðar til að meta kostnaðinn af umferðarslysum, bæði á Íslandi og erlendis. Samkvæmt slysaskráningu Samgöngustofu slasist alvarlega eða láti lífið í umferðinni hér á landi að meðaltali 200 manns á ári og um 1.400 slasist minni háttar.

Vilhjálmur Árnason.

„Þetta eru slys sem skilja eftir sig mikinn harmleik í samfélaginu og skilja oft á tíðum ungt og efnilegt fólk eftir örkumla eða verða til þess að það kveður heiminn langt fyrir aldur fram.“

Vilhjálmur vísar einnig til fyrir­spurnar á Alþingi til heilbrigðisráðherra þann 18. desember 2015. Þar var spurt um kostnað heilbrigðiskerfisins vegna umferðarslysa hérlendis.

Kostnaður af hverju banaslysi mörg hundruð milljónir króna

Í svari heilbrigðisráðherra kom fram að umferðarslys væru ein af sex algengustu orsökum innlagna á sjúkrahús. Þær væru um 8% af komu og innlögnum á Landspítalann. Þá kæmu 100 einstaklingar, eða um 10% af heildarfjölda sjúklinga, til meðferðar á Reykjalundi vegna umferðarslysa. 

Í svarinu er einnig vísað til skýrslu eftir Harald Sigþórsson og Vilhjálm Hilmarsson frá því í maí  2014. Þar kemur fram að kostnaður sem hlýst af hverju banaslysi á verðlagi ársins 2013 er metinn 659,6 milljónir króna. Af hverju alvarlegu slysi var kostnaðurinn þar metinn á 86,4 milljónir króna. Heildarkostnaðurinn af umferðarslysum á árinu 2013 var metinn 48.486 milljónir króna. Segir Vilhjálmur í grein sinni að þetta komi heim og saman við útreikninga sem ýmsir hafi notað hér á landi og í öðrum löndum við mat á kostnaði af umferðarslysum. Þar sé miðað við að kostnaðurinn geti verið um 2 til 2,5% af landsframleiðslu á ári.

Vilhjálmur bendir á að rétt sé að árétta að ekki verði allur sá kostnaður sem skapast vegna umferðarslysa metinn til fjár, eins og ástvinamissir og samfélagslegur skaði. Í kringum hvern einstakling sem slasast í umferðinni geti staðið fjöldi fólks sem slysið hefur líka áhrif á.

Niðurbrot vegakerfisins eykst mjög hratt vegna örrar fjölgunar ferðamanna

Hafa ber í huga að þetta eru tölur frá árinu 2013 þegar heildarfjöldi ferðamanna sem komu til landsins voru rúmlegar 807 þúsund. Síðan hefur ferðamönnum fjölgað verulega og nær allir fara þeir út í umferðina. Það þarf engan sérfræðing til að sjá að þetta hefur stóraukið slit vegakerfisins. Því hefði nú kannski verið skynsamlegt af stjórnvöldum að láta sérfræðinga í burðarþoli og sliti vega meta álagsaukninguna og hvað þörf sé á miklum fjármunum árlega til að koma í veg fyrir slíkt niðurbrot.

Frá árinu 2013 má gera ráð fyrir að vegna gríðarlega aukins álags á þjóðvegum landsins þá leiði það til aukningar á alvarlegum umferðarslysum. Það höfum við reyndar verið illilega minnt á í fréttum að undanförnu af ítrekuðum stórslysum. Þar hefur Landspítalinn okkar margsinnis farið yfir öll skynsamleg þolmörk og hefur það bitnað á öðrum sjúklingum. Þar hljóta menn líka að fara að horfa á það alvarlegum augum að vera með slíkan neyðarspítala staðsettan í botnlanga og í flöskuhálsi mestu umferðarsúpu landsins. Vonandi auðnast fólki að fara að ræða það af vitrænni skynsemi en ekki út frá einhverjum þröngum flokkspólitískum rétttrúnaðarkreddum. Án efa neyðast menn til að hugsa dæmið upp á nýtt ef ekki á illa að fara. Þar hlýtur að koma til álita að skipta starfseminni upp og hafa í það minnsta hluta af sérhæfðri neyðarþjónustu í öðrum nýjum spítala sem yrði með mun betra aðgengi og liggi betur við helstu samgönguæðum.

Ríflega fjórföldun ferðamanna á átta árum

Á árinu 2010 var heildarfjöldi ferðamanna sem hingað kom tæplega 498 þúsund og 566 þúsund árið 2011.

Árið 2012 voru ferðamennirnir tæplega 673 þúsund, rúmlega 807 þúsund árið 2013, rúmlega 997 þúsund árið 2014. Þeir voru orðnir tæplega 1,3 milljónir árið 2015 og tæplega 1,8 milljónir árið 2016. Þá komu nærri 2,2 milljónir ferðamenn til Íslands á árinu 2017 samkvæmt tölum Ferðamálastofu.

Þróunin í aukningu ferðamanna á Íslandi. Þetta hefur m.a. stóraukið álagið á vegakerfi landsins sem og á heilbrigðiskerfið. 

Kostnaður vegna umferðarslysa fer líklega yfir 73 milljarða í ár

Ef áætluð landsframleiðsla á árinu 2017 er 2.617 milljarðar króna, þá er 2,5% áætlaður kostnaður vegna umferðarslysa samtals rúmir 73 milljarðar króna. Það er nánast sama upphæð og gert er ráð fyrir í fjárlögum ársins 2018 að innheimta af eigendum ökutækja. Það er nærri 3,5 sinnum meira en verja á til viðhalds og nýbygginga í vegakerfinu á árinu 2018. Það er því mikið til vinnandi að ná þessum kostnaði niður með verulegum umbótum á vegakerfinu. Allt annað hlýtur að teljast algjörlega óásættanlegt og í raun stóralvarlegur hlutur og glapræði í öllum skilningi. 

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...