Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Eigendur Netparta, hjónin Aðalheiður Jacobsen og Sigurður Sigurðarson (t.h.), ásamt Arnari Elí Ágústssyni.
Eigendur Netparta, hjónin Aðalheiður Jacobsen og Sigurður Sigurðarson (t.h.), ásamt Arnari Elí Ágústssyni.
Mynd / MHH
Fréttir 25. maí 2016

Umhverfisvæn endurvinnsla á notuðum bílum

Höfundur: Magnús Hlynur Hreiðarsson
Netpartar í Byggðarhorni í Sveitarfélaginu Árborg fékk nýlega ISO 14001 vottun, ásamt vottun Bílgreinasambandsins samkvæmt svokölluðum BGS gæðastaðli. Vottanirnar gera fyrirtækinu kleift að vera áfram leiðandi í umhverfismálum og gera enn betur í þeim málum.
 
Í tilefni af áfanganum hefur fyrirtækið í samstarfi við Sjóvá, TM og Vörð fært Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi nýjan rafmagnsmótor með drifbúnaði að gjöf sem nýtast mun við kennslu á iðn- og starfsnámsbrautum. Magnús Hlynur Hreiðarsson heimsótti Netparta og fékk Aðalheiði Jacobsen, framkvæmdastjóra fyrirtækisins, til að svara nokkrum spurningum.
 
Byrjaði smátt 2009
 
Netpartar hóf starfsemi í núverandi mynd sumarið 2009.
„Við byrjuðum smátt en höfðum strax frá upphafi þá framtíðarsýn að fyrirtækið ætti að vera nútímaleg verslun með notaða varahluti. Allt utanumhald um lagerinn var rafrænt og lagerinn aðgengilegur viðskiptavinum á netinu.
 
Árið 2010 óskaði Sjóvá tryggingafélag eftir samstarfsaðilum á þessum vettvangi, komu TM tryggingar fljótlega þar á eftir og nýlega höfum við samið við Vörð. Með þessum samstarfssamningum komu auknar kröfur um gæðaeftirlit, rekjanleika varahluta og ábyrgð á þeim, sem var nauðsynlegt skref til þess að markaðurinn gæti þróast í það að verða sambærilegur við það sem þekkist á hinum Norðurlöndunum.
Þegar við byrjuðum var notkun notaðra varahluta um 1% hér á landi en er nú um 10%, sem er sambærilegt við nágrannalöndin,“ segir Aðalheiður aðspurð um stofnun fyrirtækisins og framhald þess.
 
Fundu sér lífsviðurværi eftir efnahagshrunið
 
Netpartar er með starfsemi sína í landi Byggðarhorns í Sveitarfélaginu Árborg, skammt frá Selfossi. Aðalheiður segir að hún og maður hennar, Sigurður Örn Sigurðsson, hafi átti þessa lóð og eins og hjá svo mörgum þá var þetta spurning um að finna sér eitthvert lífsviðurværi eftir að efnahagshrunið reið yfir.
„Í raun er staðsetningin afar heppileg því þetta er starfsemi sem þarf umtalsvert pláss og þar sem öll okkar viðskipti fara gegnum netið hentar þetta okkur prýðilega. Við  keyrum frá okkur allar vörur tvisvar á dag.“
 
 Snyrtileg verslun með notaða varahluti
 
 Ímynd partasölu á Íslandi hefur alla tíð verð frekar neikvæð. Fólk sér fyrir sér bílhræ í stöflum, varahlutahrúgur út um allt og  krákustíga á milli. Þessu vildi Netpartar breyta og það hefur svo sannarlega tekist.
 
„Já, við rekum snyrtilega verslun með notaða varahluti, þar sem hver hlutur er þrifinn og ástandsmetinn, skráður inn í tölvukerfi, fær sína staðsetningu á lager o.s.frv. Við höfum innleitt gæðaeftirlitskerfi og nú nýlega fengum við umhverfisvottun á starfsemina.
 
Í dag skilgreinum við okkur sem umhverfisvæna endurvinnslu á notuðum bifreiðum. Við flokkum og endurvinnum allt úr bifreiðinni. Það sem ekki nýtist sem varahlutur er þá hráefni eins og járn, ál, gúmmí, plast, hvarfakútar o.s.frv. 
 
Við erum einnig með samninga við fyrirtæki eins og Efnamóttökuna og Hreinsitækni um förgun á mengandi efnum eins og óhreinni olíu og rafgeymum,“ segir Aðalheiður þegar hún var beðin um að lýsa fyrirtækinu.
 
Samstarf við tryggingafélögin
 
Netpartar á gott samstarf við trygg­ingafélögin en hvati félaganna við að semja við fyrirtækið og fleiri var m.a. að auka framboð af notuðum varahlutum og gera þá að fýsilegri kosti fyrir verkstæði. Aðalheiður lýsir ferlinu svona:
 
„Þegar bíll hefur lent í tjóni er hann metinn af hlutlausum aðila eða millilið sem ákvarðar verðið til okkar. Það enda ekki allir tjónabílar í þessu ferli.  Ef við kaupum bílinn er hann afskráður og við skuldbundin til að rífa hann. Bíllinn er síðan skoðaður þegar hann kemur til okkar, allt sem er heilt og seljanlegt er skráð inn á lager og fastanúmer bílsins verður hluti af vörunúmeri varahlutanna. Allir hlutir eru ástandsmetnir og upplýsingar eins og árgerð, hve mikið bíllinn er ekinn, vélarstærð, tegund og framleiðslunúmer eru hluti af þeim upplýsingum sem skráðar eru inn,“ segir hún.
 
Þegar flett er í lagernum er jafnframt hægt að sjá myndir af bílnum og upplýsingar úr ökutækjaskrá, sem er nauðsynlegt t.d. þegar verið er að meta hvort vélar passa á milli bíla.  
 
„Kerfið á að virka þannig að hver sem er á að geta fundið þann varahlut sem leitað er að án þess að hafa nokkurt vit á bílum og sé hluturinn til á lager á hann að vera auðfundinn án þess að viðkomandi hafi nokkra hugmynd um hvernig hann á að líta út. Við ábyrgjumst alla hluti eins og lög gera ráð fyrir og reynist hlutur ekki í lagi þá tökum við hann til baka og endurgreiðum ef við eigum ekki annan í staðinn.“
 
Umhverfismálin og umhverfisstefna fyrirtækisins
 
Aðalheiður segir að fyrirtækið og starfsmenn þess séu mjög stoltir af nýja vottaða umhverfisstjórnarkerfinu.
 
„Umhverfisvottun eins og sú sem við höfum nú fengið er í raun staðfesting á því að við höfum skoðað alla starfsemi fyrirtækisins út frá umhverfissjónarmiðum og hannað og innleitt verklagsreglur til að taka á öllum mögulegum aðstæðum sem upp geta komið og leitt gætu til mengunar. Þannig erum við búin að rýna alla starfsemi fyrirtækisins til að reyna að sjá fyrir hvar hættur leynast og búa til viðeigandi viðbragðsáætlun.“
 
Hún segir að það sé þó ekki nóg að útbúa gott kerfi, það þurfi jú líka að tryggja að allir starfsmenn séu meðvitaðir um umhverfisstefnu fyrirtækisins og kunni réttu viðbrögðin. 
 
„Þá höfum við sett okkur markmið í umhverfismálum, og einsett okkur að fara vel með auðlindir okkar. Þetta á við um alla hluti sem við meðhöndlum. Sem dæmi not­umst við eingöngu við umhverfis­væn hreinsiefni og höfum skýr markmið til að minnka og koma í veg fyrir óþarfa sóun á t.d. hita, rafmagni og pappír. Þetta er töluvert umfangsmikið kerfi sem tekur á öllum þáttum starfseminnar og mjög gott að samþætta þetta við gæðakerfið sem er svipað uppbyggt,“ segir framkvæmdastjóri Netparta og bætir við:
„Þannig höfum við rýnt alla starfsemina bæði með tilliti til gæða þeirrar þjónustu sem við veitum og umhverfisins sem við störfum í. Þetta eykur þær kröfur sem við gerum á okkur sjálf í rekstrinum og ég er sannfærð um að bæði starfsmenn og viðskiptavinir eru ánægðari. Að fá svona vottun á okkar starfsemi var í raun nauðsynlegur þáttur í viðleitni okkar til að breyta þeirri ímynd sem fyrirtæki eins og okkar hafa.“
 
Tólf starfsmenn
 
Tólf starfsmenn vinna hjá Netpörtum en auk þess eru þrír sem vinna við afleidd störf tengd fyrirtækinu, s.s. flutning á bílum og varahlutum. „90% af okkar viðskiptavinum eru  réttingaverkstæði og bílaverkstæði sem eru með samstarfssamninga við þau tryggingafélög sem við erum í samstarfi við, Sjóvá, TM og Vörð,“ segir Aðalheiður.
 
Bílaflotinn er að endurnýjast hratt
 
Þegar Aðalheiður er spurð um stöðuna á bílamarkaðnum út frá varahlutum og þess háttar segir hún að íslenski bílaflotinn sé að endurnýjast mjög hratt. Hún segir að mikið af nýlegum bílum komi inn til Netparta í niðurrif, sérstaklega vegna mikils fjölda bílaleigubíla. Svo sé tæknibúnaður í dag orðinn miklu flóknari en hann var. Þannig er mikil eftirspurn efir varahlutum sem þekktust ekki hér áður fyrr eins og tölvu- og mengunarbúnaður.  
 
Glæsileg gjöf til Fjölbrautaskóla Suðurlands
 
Föstudaginn 1. apríl færði Netpartar Fjölbrautaskóla Suðurlands glæsilega gjöf.
„Já, við höfum áður gefið Fjölbrautaskólanum bensín- og dísilvélar en með hraðri þróun í bílaframleiðslu þurfa nemendur að fá innsýn inn í það nýjasta á markaðnum. Því ákváðum við að gefa skólanum rafmagnsvél og drifbúnað úr Nissan Leaf, árgerð 2015, sem er einn algengasti rafbíllinn á Ísland í dag. Þetta er dýr búnaður en við lítum á það sem samfélagslega skyldu okkar að leggja okkar af mörkum til að miðla þekkingu á þessu sviði,“ segir Aðalheiður um gjöfina.
 
Framtíðin er björt
 
Aðalheiður var að lokum spurð hvernig hún sæi Netparta eftir tíu til fimmtán ár, hver staða fyrirtækisins yrði þá.
 
„Hér áður fyrr var endurnýting á notuðum bifreiðum á Íslandi 20 árum á eftir Evrópu. Með auknum umhverfiskröfum og stöðlum innan Evrópu getum við ekki endalaust verið á undanþágum. Við verðum að fylgja þróuninni. Það er þjóðhagslega hagkvæmt og gjaldeyrissparandi að endurnýta notaðar bifreiðar og það er framtíðin. Netpartar mun halda áfram að þróa og laga starfsemina að nútímakröfum með umhverfismarkmið að sjónarmiði. Við munum halda áfram að auka aðgengi neytenda að notuðum varahlutum með rekjanleika á sem hagkvæmastan og skilvirkastan hátt,“ segir hún og bætti við:
„Ímynd bílapartasalans hefur alltaf verið neikvæð. Þessu viljum við breyta. Við lítum ekki á okkur sem bílapartasölu, heldur umhverfis­væna endurvinnslu með notaðar bifreiðar.“

6 myndir:

Hrossafeitin mýkri fyrir húðina
Fréttir 4. desember 2024

Hrossafeitin mýkri fyrir húðina

Fremur mun fátítt að hrossafeiti sé notuð í sápuframleiðslu hérlendis. Úr tíu kí...

Nýr skóli byggður
Fréttir 3. desember 2024

Nýr skóli byggður

Fyrsta skóflustungan var tekin á dögunum að nýjum Bíldudalsskóla sem verður samr...

Ávextir beint frá spænskum bónda
Fréttir 3. desember 2024

Ávextir beint frá spænskum bónda

Rekstur norðlenska innflutnings­fyrirtækisins Fincafresh hefur vaxið jafnt og þé...

Félagssálfræðilegur munur milli sveitarfélaga
Fréttir 2. desember 2024

Félagssálfræðilegur munur milli sveitarfélaga

Vonast er til að að aukin þekking á sálfræðilegum hliðum byggðamála geti stuðlað...

Ráðinn slökkviliðsstjóri í Fjarðabyggð
Fréttir 29. nóvember 2024

Ráðinn slökkviliðsstjóri í Fjarðabyggð

Suðurnesjamaðurinn Ingvar Georg Georgsson hefur verið ráðinn í starf slökkviliðs...

Rannsókn ungra bænda
Fréttir 29. nóvember 2024

Rannsókn ungra bænda

Samtök ungra bænda (SUB) eru að kortleggja hindranir og hvata nýliðunar og kynsl...

Haustrúningur í fullum gangi
Fréttir 29. nóvember 2024

Haustrúningur í fullum gangi

Baldur Stefánsson, rúningsmaður frá Klifshaga í Öxarfirði, klippir tólf til þret...

Skipuleggja lóðir fyrir súrefnisframleiðslu
Fréttir 29. nóvember 2024

Skipuleggja lóðir fyrir súrefnisframleiðslu

Sveitarfélagið Ölfus hefur auglýst nýtt deiliskipulag fyrir lóðina Laxabraut 31 ...