Umhverfisvænar og niðurbrjótanlegar umbúðir
Höfundur: Erla Hjördís Gunnarsdóttir
Danska nýsköpunarfyrirtækið ecoXpac sérhæfir sig í hönnun, þróun og framleiðslu á vörum sem búnar eru til úr endurnýtanlegum efnum eða náttúrulegum trefjum. Forsvarsmenn fyrirtækisins leggja metnað í að öll efni sem notuð eru við framleiðsluna séu niðurbrjótanleg og kolefnishlutlaus. Flaggskip fyrirtækisins, græna trefjaflaskan, er kærkomin í háværri plastumræðu sem fer nú eins og eldur í sinu um heiminn, enda niðurbrjótanleg í náttúrunni.
EcoXpac-fyrirtækið nýtir sér tengslanet rannsóknarfyrirtækja, eins og Tækniháskólans í Danmörku, til að tryggja gæði og áreiðanleika vörunnar.
„Í samvinnu við viðskiptavini okkar höfum við undanfarin 20 ár framleitt umhverfisvænar umbúðir. Með þessari reynslu, hæfileikaríku starfsfólki og nýsköpun höfum við þróað sérstaka þurrktækni við framleiðsluna. Undanfarin ár höfum við unnið með fleiri tæknifyrirtækjum eins og Borgen Ltd., Cam-Tech Ltd. og Dyrmark Plc. til að styðja við frekari framleiðslu á umbúðavörum og til að þróa enn frekar þurrktæknina,“ útskýrir Theresa Klæbel, sölu- og markaðsstjóri fyrirtækisins.
„Hreina lausnin“ er framtíðin
Sýn fyrirtækisins er að skapa betri hluti með því að framleiða umbúðalausnir sem hafa eins lítil áhrif á umhverfið og mögulegt er til góða fyrir alla jörðina. Þetta kalla forsvarsmenn þess „Hreina lausn“.
„Það hefur verið markmið okkar í nokkur ár að þróa og slípa hitunarferlið á trefjunum með tilliti til orkunotkunar og framleiðslutíma ásamt því að gera þetta að mest vænlegustu vöru innan umbúðalausna í dag. Hreina lausnin er framtíðin,“ segir Theresa og bætir við:
Græna trefjaflaskan.
„Græna trefjaflaskan er flaggskipið okkar en hún er búin til úr lífrænum trefjum og hefur marga kosti, allt frá útliti til þess hversu umhverfisvæn hún er. Aðferðin sem við höfum þróað hjá fyrirtækinu gerir okkur kleift að framleiða nokkrar stærðir og gerðir þar sem við getum komið til móts við kröfur og þarfir viðskiptavina okkar. Efnasambandið og trefjaefnið í flöskunni gerir það að verkum að hún er niðurbrjótanleg í náttúrunni eða hún verður líffræðilega virk sem krít eða leir. Hægt er að endurvinna vöruna til næstu kynslóða og er þetta því stöðug endurnýtanleg endurvinnsla.“ Verkefnið með grænu trefjaflöskunni hefur fyrirtækið unnið í samvinnu við Tækniháskóla Danmerkur, Carlsberg, dönsku tæknistofnunina og BillerudKorsnäs frá Svíþjóð ásamt því að hafa fengið styrki frá til að mynda Horizon2020, Markaðsþróunarráði Danmerkur og Nýsköpunarsjóði Danmerkur.